2819 - Vinstri og hægri

Áður fyrr var alltaf talað um milljónir, nú þykir ekki fínt að tala um minna en milljarða. Man vel eftir því þegar fjárlög Íslenska ríkisins fóru í fyrsta skipti yfir eitt þúsund milljónir. Man samt ekki greinilega hvort það var fyrir eða eftir gjaldmiðilsbreytinguna sem ég held að hafi átt sér stað um 1980. Hlýtur eiginlega að hafa verið eftir hana. Man nefnilega vel eftir því að við verslunarstjórarnir hjá Kaupfélagi Borgfirðinga báðum Skúla Ingvarsson gjaldkera Kaupfélagsins að gæta þess að kaup okkar færi ekki yfir milljón á mánuði. Í gríni auðvitað og hann skildi það örugglega þannig. Þetta hlýtur að hafa verið áður en tvö núll voru tekin af krónunni og nýir seðlar teknir í notkun.

En ég var að tala um milljónir og milljarða. Fyrir að stela smápeningum eins og milljónum er hengt grimmilega, en ef stolið er milljörðum er tekið í höndina á mönnum og þeir mærðir af félögum sínum og mörgum fleirum. Satt að segja stefnum við Íslendingar hraðbyri í átt til Bandarískrar menningar. Sú menning hefur sogað til sín auð allrar veraldar auk þess að búa í frjósömu landi og að útrýma svotil indíánum. Þó eru milljónir manna og kvenna þar á vonarvöl. Þeir ríkustu þar fleyta rjómann af auðæfum heimsins og velta sér uppúr honum.

Verst er að kommúisminn hefur mistekist víðast hvar, þar sem honum hefur verið komið á. Við megum samt ekki láta eins og kapítalisminn hafi sigrað, því það hefur hann alls ekki gert, þó hann þykist eiga Guð almáttugan. Miðjumoðið er það sem blívur. Margir sjá drottnum alþjóðlegu auðhringanna sem helstu og mestu ógn mannkyns. Einhverjir sjá Kínverja sem lausnara heimsins en þeir eru gallagripir. Þó þjóðskipulagið í Kína sé eftirtektarvert er ekki víst að það henti okkar vestræna hugsunarhætti.

Þó ég tali stundum eins og sá sem valdið hefur, er ég í rauninni fullur efasemda. Sérstaklega á þetta við um vinstri og hægri sinnuð viðhorf. Ekki finnst mér ég geta fallist á sum vinstri sjónarmið og mörgum hægri sinnuðum slíkum er ég alfarið á móti þó ég bloggi hér á Moggablogginu og forðist að verða of háður fésbókinni.

Í kosningunum í Bandaríkjunum í nóvember síðastliðnum voru tvær múslimskar konur kjörnar í fulltrúadeildina. Eins og kunnugt er þá eru Ísraelsvinir ákaflega öflugir í USA og er þá ekki eingöngu átt við ríku íhaldsmennina í repúblikanaflokknum, heldur eru gyðingar einnig mjög fjölmennir í demókrataflokknum. Staða þessara kvenna er því mjög erfið. Þær eru af palestínskum og sómalískum uppruna og njóta sín alls ekki innanum íhaldssinnaða þingmenn þar. Oft eru þær kallaðar Gyðingahatarar og jafnvel eitthvað þaðan af verra. Evrópskir stjórnmálamenn eru upp til hópa hlynntari Palestínumönnum en Ísraelsku stjórninni. Unga kyslóðin í Bandaríkjunum hefur pólitískar áherslur sem líkjast meira Evrópskum hugmyndum en íhaldssömum.

Einhverntíma ætla ég að skrifa um Brexit. Ég hef mjög ákveðnar skoðanir í því efni, en hef ekki kynnt mér það efni hingað til eins vel og Bandarísk stjórnmál. Mest af því sem við Íslendingar heyrum um það mál er annaðhvort þýddar eða endursagðar greinar úr erlendum fjölmiðlum sýnist mér. Ríkisútvarpið reynir þó að gera eitthvað af viti.

IMG 7151Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Meðan ekki mikið átt
meira hampar þjófum.
Því alla hefur ævi mátt
éta úr þeirra lófum

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 3.2.2019 kl. 12:20

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Satt þú alltaf segir hreint
sumum finnst það skrýtið.
Vísur þínar vísa beint
á vinnuframlag lítið.

Sæmundur Bjarnason, 3.2.2019 kl. 17:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband