2814 - Enn ein Klausturauglýsing

Orð eru dýr. Orð skipta máli. Þessu hafa þeir Klaustursmenn fegið að kynnast og fá eflaust enn betur næstu daga. Þeir reyna að tala um eitthvað annað, en raunveruleikinn kemur alltaf aftur. Reyna má að kalla það sem sagt hefur verið „fylliríisraus“ og að „öl sé annar maður“ jafnvel þykjast ekki muna eftir neinu. En það leysir engan vanda og er eins og hver önnur tilraun til að drepa málinu á dreif. Ef þeir hafa talað illa um samstarfsfólk sitt er eðlilegt að þeir gjaldi þess. Engar afsakanir duga. Ef þessir samstarfsmenn svo kjósa er fullkomlega eðlilegt að þeir fái að gjalda þess sem þeir hafa sagt. Hunsun er ævagamalt og áhrifaríkt ráð. Enginn kemst af án allra samskipta við aðra.

Kannski ætti ég að fara að skrifa meira um sjálfan mig í þessu bloggi. Sumir líta á bloggið sem einskonar dagbók. Svo er ekki. Á margan hátt er þetta samskonar fyrirbrigði og innleggin á fésbókina. Einræða samt. Enginn truflar. Einhverjir sjá samt eða vita a.m.k af þessu. Eiginlega dettur mér samt ekkert í hug. Nú er hægt að segja að veturinn sé kominn. Jafnvel hér á Akranesi. Hér er snjór og alhvít jörð. Þó er snjórinn ekki mikill, en alls óvíst að hann fari fljótlega, ef dæma skal eftir veðurfréttum. Og svo tapaði Trump sem þykist vera svo góður í störukeppni að hann hefur skrifað eða látið skrifa margar bækur um það.

Annars ætti ég nú að geta skrifað um eitthvað annað en veðrið. Mér leiðast slík skrif en get þó ekki annað en fylgst með þeim að einhverju leyti. Jólaljósin eru smásaman að hverfa. Ekki eru þau þó allstaðar horfin þó febrúar sé að nálgast. Að búa á fjórðu hæð í blokk og geta horft yfir lágreist einbýlishús í tuga eða hundraðatali er að vissu leyti einskonar forréttindi. Og þá er ekki minnst á fjöll, sjó eða annað landslag. Ekki skil ég mikið í sálarlífi þeirra, sem þurfa að horfa á sama steinsteypuvegginn út um gluggann sinn áratugum saman.

Væntingastjórnun. Við stjórnum því sjálf hverju við vonumst eftir hjá öðrum. Samband okkar við annað fólk er það mikilvægasta í lífinu. Sumir virðast halda að hægt sé að fljóta ofaná og vera alltaf einn. Svo er ekki. Allt sem gert er og sagt getur hvenær sem er komið í bakið á manni. Þessvegna er eins gott að venja sig á að flana ekki að neinu. Betra er að segja of lítið, en of mikið.

Í þeim táradal sem veröldin vissulega er, þýðir ekki annað en að reyna að lifa lífinu með bros á vör. Akomendur okkar, sem virðast hafa það svo gott, munu þurfa að glíma við heim sem er á fallanda fæti. Þetta finnst a.m.k. mörgum. Allt sé að fara til fjandans. Ef það eru ekki loftslagsmálin og mengunin, þá eru það mannfjölgunin og flóttamennirnir. Að búa að sínu og minnka það ekki eru eðlileg viðbrögð, en jafnframt hættuleg. Að ýkja þann mun sem finnarlegur er á fólki er oft upphaf hverskonar ósamkomulags og ófriðar. Fjölmenning þýðir óhjákvæmilega oft útþynningu þjóðlegrar menningar. Þó er auðvitað hægt að halda í þá þjóðlegu án þess að hatast við þá fjölþjóðlegu.

IMG 7190Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Orð eru dýr. Og sum orð eru villidýr.

Þorsteinn Siglaugsson, 27.1.2019 kl. 11:49

2 Smámynd: Már Elíson

Góður pistill....

Már Elíson, 27.1.2019 kl. 12:38

3 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Í því sem varðar okkur öll
ertu oft að grufla.
Þá einræðu um víðan völl
varast ég að trufla.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 27.1.2019 kl. 13:51

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já Þorsteinn, og jafnvel rándýr.

Sæmundur Bjarnason, 27.1.2019 kl. 21:11

5 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk, Már.

Sæmundur Bjarnason, 27.1.2019 kl. 21:12

6 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Að grufla þykir gaman mér
og gæði orða byggja.
Enginn þar í ónot sér
því alla reyni að styggja.

Sæmundur Bjarnason, 27.1.2019 kl. 21:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband