2811 - Kjaftavaðall

Blogg Fréttablaðsins heitir „bakþankar“ Þar eru menn skikkaðir til þess að skrifa um eitthvað annað en fréttir dagsins og pólitík. Auðvitað veit ég ekkert um þessa skikkun, en ástæðan fyrir því að ég segi þetta er sú að það eru aðallega starfsmenn blaðsins, sem þá skrifa og gjarnan er þar látið vaða á súðum. Yfirleitt les ég alltaf þessi innlegg og eins og gengur er ég stundum sammála því sem þar er sagt og stundum ekki. Að mörgu leyti eru þetta einskonar blogg. Sama má oft segja um hálftíma hálfvitanna á alþingi. Þar eru þingmenn stundum að reyna að koma sínum hugðarefnum á framfæri. En plássið er lítið útaf fjárans fésbókinni.

Fréttaþorsti minn gengur stundum út í öfgar er óhætt að segja. Oft er það svo að ég hlusta (nú eða horfi) oft á sömu fréttina. Þó virðast miðlarnir ekki segja sömu fréttina oft. Gallinn er bara sá að miðlarnir eru svo margir og sjónarmiðin margvísleg. Best væri að gefa þeim öllum frí. Láta fréttirnar finna sig í staðinn fyrir að leita að þeim. En það er erfitt. Næstum eins erfitt og að fara í megrun.

Já, vel á minnst. Megrun. Ég er að hugsa um að taka slíkt upp núna á nýbyrjuðu ári. Hætta að mestu að éta brauð og tilbúinn mat. Eiginlega veit maður ekkert hvað maður er að láta ofan í sig með því að vera sífellt að éta einhvern unninn mat. Víða eru fátæklingarnir nú feitir en þeir sem betur mega sín grennri. Einu sinni var þetta alveg öfugt. A.m.k. hér á Íslandi. Ódýr matur, batnandi lífskjör og óðagotið á öllum stuðlar að þessu.

Ég er að hallast að því að þessi klukkuvitleysa sé ein allsherjar smjörklípa. Allt eða svotil allt sem um þetta og hina svokölluðu líkamsklukku er sagt finnst mér vera hin mesta vitleysa. Ef krakkar og unglingar þurfa að sofa meira liggur þá ekki beinast við að byrja skólana svolítið seinna. Kannski hentar það kennurunum ekki eins vel. Sumir þeirra þurfa víst að grilla. En er ekki skólinn frekar fyrir nemendurna en kennarana? Svo er oft ekki að sjá. Nemendurnir eru þó a.m.k. fleiri. Áður fyrr voru verslanir alltaf opnaðar í síðasta lagi klukkan níu. Það held ég að sé ekki lengur. Kannski vörurnar hafi kvartað.

Hvort er merklegra hið talaða orð eða hið skrifaða? Mér finnst hið skrifaða orð (bækur, greinar) mun merkilegra. Unga fólkinu í dag finnst sennilega hið talaða orð merkilegra. Skólabörn lesa helst ekki. Það er ekki kúl. Aðdáendur fésbókar og twitter lesa kannski einsöku sinnum stuttan texta, en hið talaða mál og ég tala nú ekki um myndir og videó, er álitið miklu áhrifameira. Vinsældir sjónvarpsefnis, kvikmynda og útvarps er til vitnis um að smám saman er hið talaða mál að ná yfirhöndinni. Meðan hlustað er eða horft, er hægt að gera eitthvað að gagni með höndunum og ekki er þörf á að hugsa. Vegna skilta, leiðbeininga og ýmislegs annars er samt nauðsynlegt í nútímasamfélagi að kunna að lesa. Hið ritaða mál er þó greinilega á undanhaldi. Myndmálið og talmálið er nútímalegum börnum eiginlegt. Kjaftavaðall er einkenni nútímans. Ég er bara orðinn svo gamall að ég á erfitt með að skipta um.

IMG 7197Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Mannkyninu tók að hraka þegar fólk fór að læra að lesa. Sumir segja reyndar að þessi hnignun hafi byrjað þegar eldurinn var fundinn upp. Enn aðrir að úrkynjunin hafi hafist fyrir alvöru þegar mannkynið hoppaði niður úr trjánum. Og svo eru sumir sem halda því fram að trén hafi nú ekkert verið svo góð hugmynd yfirleitt.

Þorsteinn Siglaugsson, 19.1.2019 kl. 20:40

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Ég held aftur á móti Þorsteinn, að mannkyninu fari stöðugt fram á sumum sviðum en aftur á öðrum. Auðvitað fer þetta eftir því hvernig við skilgreinum sviðin.

Sviðasulta er auðvitað best.

Sæmundur Bjarnason, 20.1.2019 kl. 00:03

3 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Verður sjón ei svipur hjá
sviptur sjálfs síns ræði,
ef léttir sig og lifir á
lágkolvetnafæði

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 20.1.2019 kl. 17:05

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Kolvetnin í kindahaus
kæta vísnasmiðinn.
Er við skrokkinn alveg laus
enda vel framliðinn.

Sæmundur Bjarnason, 20.1.2019 kl. 23:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband