2810 - Bumfuzzle

Undarlegt hvað ég hef stundum lítið fyrir því að svara vísum hér. Þó er ég allsekki hraðkvæður sem kallað er. En það hjálpar mikið að geta tekið stuðla og jafnvel rímorð úr vísunni sem svarað er. Yfirleitt á ég í mestu vandræðum með að semja vísur þó ég kunni nokkurnvegin bragfræði og sé sæmilega kunnugur algengustu rímnaháttum. Ástæðulaust að fjölyrða um þetta. Samt á ég í stökustu vandræðum með að gera limrur, þó það sé einn vinsælasti bragarhátturinn þessi dægrin.

Ekki gerist mikið hér á Moggablogginu um þessar mundir. Ekki heldur á fésbókardruslunni. Og þó. Fjölmiðlar flestir virðast standa í þeirri meiningu að ýmislegt gerist þar. Mest er það samt óttalegur kjaftavaðall og ýmislegt bull. En margur miðillinn gerir sig ánægðan með það. Ekki þreytist ég á að hallmæla fésbókinni. Það ber vott um andlega fátækt mína. Ekki orð um það meir.

Alveg vissi ég það fyrir löngu, (það var fyrir fisk, að þessi garður var ull) að Sigurður Hreiðar væri að undirbúa einhverskonar sjálfsævisögu. Skyldi sú bók vera fáanleg á bókasöfnum? Hvernig ætli skylduskilum, sem einu sinni voru við lýði, sé háttað núna? Ég er nú tekinn að gamlast nokkuð, en var einu sinni að hugsa um einhverskonar sögu líkt og Sigurður, en er eiginlega hættur við það. Samt er það eina sem ég get nokkurn vegin skammlaust núorðið, að skrifa. Skrattann ráðalausan mundi einhver segja, en það er önnur saga.

Ferðasögur eru eiginlega mín sérgrein. Það er að segja lestur slíkra bókmennta, en ekki skrif, enda ferðast ég lítið. Um þessar mundir er ég að lesa á Kyndlinum mínum bók sem heitir „Bumfuzzle“ og er um ferðalag á skútu í kringum hnöttinn. Þessi bók var ókeypis þar, svo ég var fljótur að taka hana. Sérgrein mín númer 2 er nefnilega ókeypis bækur. Merkileg bók og merkilegt nafn. Þar að auki er til vefsetur sem heitir „Bumfuzzle.com“.

Seint virðist ætla að ganga að auka virðingu alþingis. Það eina sem mér dettur í hug varðandi virðingu þess er aldurinn. Sagt er að þetta sé elsta löggjafarþing í heimi, en það er nú eins og með heimsmetin hans Sigmundar Davíðs að efast má um allt. Svo er okkur talin trú um að íslensk tunga (þ.e. tungumálið) sé sú merkilegasta í heimi. Líklega er samt rétt að við höfum komist fyrr upp á lag með að skrifa skáldsögur en flestar aðrar Evrópuþjóðir. Kannski er framlag okkar til heimsmenningarinnar þar með upptalið. Ekki er ég bær til að kveða uppúr með það.

Sennilega hef ég frá unga aldri verið mótfallinn hvers konar breytingum. Man vel að ég var á sínum tíma á móti því að breyta yfir í hægri umferð. Lenti þó aðeins einu sinni alvarlega í vinstri villu þar. Líka var ég á móti bjórnum þegar það var aktúelt. Nú er ég semsagt á móti því að breyta klukkunni. Skelfing er það erfitt þetta líf. Alltaf þarf maður að vera að taka afstöðu. Langþægilegast er samt að berast bara með straumnum. Vera alltaf sammála síðasta ræðumanni. Rugga aldrei bátnum að óþörfu.

IMG 7203Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Sáttur er með sína bók
segli eftir vindi ók
afsöðu hann aldrei tók
og ekki girti sig í brók.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 16.1.2019 kl. 14:23

2 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Sáttur er með sína bók
segli eftir vindi ók
afstöðu hann aldrei tók
ekki oft sig girti í brók

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 16.1.2019 kl. 17:32

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Á Kyndlinum hann kynntist bók
kannski var það skrýtið.
Afstöðu hann alltaf tók
ekki var það lítið.

Sæmundur Bjarnason, 16.1.2019 kl. 21:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband