2.1.2019 | 14:03
2806 - Skortsala eða skottsala
Satt og logið sitt er hvað,
sönnu er best að trúa.
En hvernig á að þekkja það
þegar flestir ljúga?
Þessi gamli húsgangur flytur okkur að sumu leyti ódauðlegan sannleika. Svona má meðal annars minna á það:
Á margan hátt má segja að svarið við lífsgátunni felist í því hvort maður telur sig líða skort eða hvort maður telur að maður hafi nóg af öllu. Að dæma eftir því sem margir segja um fésbókar-fárið sem geysar hér á Íslandi eru þeir allmargir sem telja sig líða skort af einhverju tagi þrátt fyrir fagurlegan front. Marga skortir peninga og ekki er örgrannt um að einhverjir magni þau ósköp upp hjá fólki. Með auglýsingum og öðru. Sumum finnst jafnvel gaman að eyða og spenna og lítið er hægt fyrir þá að gera, nema helst að benda þeim í villu síns vegar. Hinsvegar eru margir sem í rauninni hafa alveg nóg, en láta samt eins og þeir þurfi meira. Auðveldast kann að vera að telja fólki trú um að það þurfi meiri og fínni mat. Auk þess gefst vel að telja fólki trú um að það þurfi endilega að fylgja tækninni. Nú er búið að telja næstum öllum trú um að þeir þurfi endilega að eiga snjallsíma, en af hverju það á að vera betra að borga með honum en með kortinu sínu er mér hulin ráðgáta.
Já, ég var næstum búinn að gleyma því að ég lofaði víst um daginn að segja frá því þegar ég ruglaði saman skortsölu og skottsölu. Skottsala er nefnilega þannig að maður setur allskyns skran í skottið á bílnum sínum og reynir svo að selja það. Á ákveðnum stað og ákveðnum tíma hittast síðan bílarnir og hver reynir að selja öðrum sem allra mest. Ef einhverjir eiga í vandræðum með að skilja þetta skal ég reyna að útskýra það betur í næsta bloggi. Skortsala er aftur á móti, að mínum skilningi, það að reyna að selja öðrum þá hugmynd að þeir líði almennan skort. Skorti peninga til að eyða eða eitthvað annað. Betri lífskjör til dæmis. Þetta er mikið stundað í vestrænum samfélögum og er kallað ýmsum nöfnum. Starfsemi margra snýst um þetta fremur en að ráða bót á raunverulegum skorti. Raunverulegur skortur er það að hafa ekki nóg til fæðis og klæðis. Og að hafa ekki þak yfir höfuðið. Gerviþarfir af öllu mögulegu tagi er síðan auðvelt að búa til.
Eitt helsta vandamálið í mörgum samfélögum er einmitt að uppfylla allskyns gerviþarfir. Um það eru stofnaðir stjórnmálaflokkar sem ná gríðarlegum vinsældum í stuttan tíma, en auðvitað áttar fólk sig að lokum á því að loforð eru lítils virði ef þau eru aldrei efnd. Samt er alltaf hægt að lofa einhverju nýju í hvert skipti. Vitanlega er ég ekki að segja nein ný tíðindi með þessu. Ég er bara að setja þetta í samband við skortsölu, sem sennilega þýðir eitthvað allt annað í útrásar-jargoni. Látið ekki blekkjast. Það eru flestallt ímyndaðar þarfir sem auglýsendur eru að stíla inná. Látið vera að fá ykkur nýjan bíl eða nýjan snjallsíma og sjáið til hvort þið verðið nokkuð óhamingjusamari.
Að hamingjan sé fólgin í því að fylgja sem nákvæmlegast tískusveiflum allskonar er útbreiddur misskilningur. Jafnvel hættulegur stundum, því hann getur orðið til þess að menn eyði um efni fram og ekki er það gott.
Er þá lífshamingjan fólgin í því að telja sér trú um að maður hafi það bara fjári gott, jafnvel þó svo sé allsekki? Er ekki auðvelt að benda á að nútímamaðurinn hafi það á margan hátt mun betra en afar okkar og ömmur? Auðvitað er það svo og ekki má gerast katólskari en páfinn að þessu leyti heldur reynda að rata meðalhófið. Það er best í hverjum hlut. Kaupahéðna og auglýsendur ber þó að varast. Og nú er best að hætta.
Athugasemdir
Skortsala er reyndar ekki það að reyna að selja hugmyndina um að maður hafi það svo skítt. Það heitir stundum sósíalismi, stundum byggðastefna, stundun pilsfaldakapítalismi
Skortsala er þegar maður selur það sem maður á ekki. Þetta er aðallega gert með verðbréf. Það dygði líklega ekki að mæta á skottsölu með skottið tómt. Sá maður færi líkast til heim með skottið milli lappanna.
Þorsteinn Siglaugsson, 2.1.2019 kl. 16:05
Já, og gleðilegt ár!
Þorsteinn Siglaugsson, 2.1.2019 kl. 16:05
Ekkert er sem margir muna
myglað brauðið vort
Búinn að leysa lífsgátuna
-lausnin er kreditkort!
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 2.1.2019 kl. 16:14
Kreditkortið snjalla
kætir flestra lund.
Verndar okkur varla
vill þó reyna um stund.
Sæmundur Bjarnason, 2.1.2019 kl. 16:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.