2805 - Bloggað í spreng

Jæja, þá er árið 2019 loksins runnið upp í öllu sínu veldi. Þegar ég var lítill. Raunar held ég að ég hafi aldrei verið pínulítill a.m.k. man ég ekki eftir því. En hvað um það. Þegar ég var minni en ég er núna var árið 2000 ákaflega fjarlægt. Maður hugsaði ekki einu sinni svo langt. Man þó eftir að hafa einhverntíma reiknað út hve gamall ég yrði ef ég lifði svo lengi. Er samt alveg búinn að gleyma niðurstöðunni af þeim útreikningum. Ýmsa útreikninga stundaði ég á þeim tíma. Ekki man ég þó eftir að hafa reiknað barn í svertingjakerlingu í Afríku, eins og Sölvi Helgason gerði. Eða reiknaði hann það úr henni aftur? Man ekki lengur hvort er réttara.

Annars ætlaði ég að skrifa eitthvað um árið 2019. Auðvitað er alltof snemmt að skrifa um hvað gerðist markverðast á því ári. Á samt von á að það verði einhverntíma gert. Verð víst að láta mér nægja að vona að það verði öllum gjöfult. Nema ég reyni að spá einhverju um það hvað gerast muni á því merkisári.

Trump Bandaríkjaforseti mun líklega missa embættið á þessu ári. Líklega fer það þá til Pence varaforseta og ekki er víst að hann verði hótinu skárri. Niðurlæging Trumps verður góða fólkinu og jafnvel fleirum mikilsverð búbót. Ekki er samt öruggt að allir verði fegnir að losna við hann. T.d. voru víst einhverjir sem kusu hann. Jafnvel má reikna með að einhverjir þeirra mundu gera það aftur ef þeir fengju tækifæri til þess.

Það fá þeir þó sennilega ekki, því Pence varaforseti og væntanlegur forseti mun eflaust verða í framboði 2020, en tapa fyrir Bernie Sanders sem mun látast í embætti árið 2023, en ég sé ekki í Tarotspilunum mínum hvað hann heitir sem taka mun við af honum. Látum svo lokið spádómum mínum um þetta vesæla embætti og snúum okkur að mikilsverðari málum.

Snarhætt verður við það hér á Íslandi að láta kjósa á hverju ári. Gott ef kosningum verður bara ekki alveg hætt eftir að Davíð Oddsson kemst á gamalsaldri til valda á ný. Það er þetta með Davíð sem mér þykir skrítnast í þessum spádómum öllum saman og kannski er bara best að hætta þessu alveg. Sé ekki betur en Davíð verði við völd þangað til hann drepst um síðir. Kannski verður þá byrjað að kjósa aftur en ég sé það ekki almennilega.

Ekki fleiri spádómar að þessu sinni. Enda er ég alveg þurrausinn og kem líklega aðeins með nöd og næppe einhverju fleiru að í þessu úrvalsbloggi. Veit bara ekki hvað það ætti helst að vera. Kannski ég taki bara uppá þeirri vitleysu að blogga á hverjum degi. Það gerði ég einu sinni. Treysti mér samt ekki alveg til þess. Minnir nefnilega að það hafi verið talsvert átak. Sumir hafa heila fréttastofu á bak við sig og fara létt með að skrifa sex mismunandi merkilegar fréttir á hverjum degi. Ekki hef ég neitt þessháttar að baki mér og þessvegna vex mér svolítið í augum að blogga daglega. Kannski tekst mér að blogga samt eitthvað þéttar en að undanförnu. Ég er bara að vara þá við sem eru svo vitlausir að lesa allt eftir mig.

Skottsala og skortsala. Skortsala er hugtak sem útrásarvíkingar notuðu mikið á sínum tíma. Mér finnst betra að tala um skortsölu sem sölu á skorti. Telja sem flestum trú um að þá skorti allt mögulegt. Sumum finnst að þá skorti peninga og ýmislegt fleira. Ruglaði í eina tíð saman skortsölu og skottsölu, en það er nú önnur saga. Segi hana kannski í næsta bloggi.

IMG 7398Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Hér þó skorti geri skil
og skáki fréttaskvaldri
hann vill bara búa til
barn á gamalsaldri

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 1.1.2019 kl. 14:47

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Ekki skortir andann hér,
allt á gamalsaldri.
Ljóðmælandinn Laxdel er
langbestur i skvaldri.

Sæmundur Bjarnason, 1.1.2019 kl. 17:36

3 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Getur verið að það vanti staf í fyrirsögnina? Ef ekki þá botna ég ekkert í henni, las samt alla færsluna. 

Annars trúi ég því að Trump verði áfram við völd og verði jafnvel endurkjörinn haldi hann heilsu eða gangi ekki endanlega af göflunum.

Emil Hannes Valgeirsson, 1.1.2019 kl. 21:56

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Alveg rétt. Það vantaði staf. Búinn að laga. Varðandi Trump erum við ekki alveg sammála. Ég dreg þessa ályktun af því að á margan hátt á hann í meiri vandræeðum nú en áður. 

Sæmundur Bjarnason, 2.1.2019 kl. 14:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband