23.11.2018 | 15:04
2794 - Ameríska systemið
Hvers vegna var það sem ameríska systemið var fundið upp? Þeir vildu nefnilega ekki hafa kóng, sem öllu réði. Innst í hugskoti margra Bandaríkjamanna er það samt líklega markverðasta skýringin á því fylgi sem Trump þó hefur, að nú vilja þeir kóng. Trump er nógu frekur og stjórnsamur til að koma að miklu leyti í staðinn fyrir alvaldan kóng. Þó held ég ekki að svo verði. Hugsanlega verður Putín kóngur eða keisari í Rússlandi með tímanum, en mér finnst ólíklegt að Bandaríkjamenn gangi svo langt. Segja má að Trump njóti líka þeirrar bylgju flóttamannaótta og föðurlandsrembings sem nú fer um heiminn. Hæst ber þá bylgju sennilega í BREXIT og máttleysi ESB. Á sínum tíma kostaði það mikið að halda ríkjum Bandaríkjanna saman. Ekkert bendir til að svo verði með ESB, enda eru þar fjölmörg tungumál töluð og lítill skilningur þjóða á milli. Hægt vaxandi fer hann þó.
Næst á eftir Bretlandi er líklegast að Austurríki fylgi brexitlega á eftir. Síðan hugsanlega Ungverjaland og jafnvel fleiri. Tyrkir gætu sem best hætt að sækjast eftir inngöngu. Veit ekki með EES. Íslendingar líta alltaf svo stórt á sig. Eins og þeir skipti einhverju máli. Norðmenn eru lítið eitt skárri.
Vopnfirðingar vilja að Ratcliffe gefi þeim sundlaug. Þetta segir Fréttablaðið a.m.k. og kannski er það rétt. Líka getur vel verið að þetta sé bölvuð vitleysa. Að mörgu leyti væri þetta klassísk aðferð til að fá samþykki og stuðning fjöldans. Kannski hefur bara einhverjum vopnfirðingi nú eða blaðamanni á Fréttablaðinu dottið þetta í hug. Enginn er borinn fyrir þessu minnir mig og ekki ætla ég að mæla með þessari aðferð til að kveða niður gagnrýnisraddir. Reyndar les ég bara fyrirsagnir og aðallega á útsíðum. Legg svo útaf þeim með mínum hætti eins og tíðkast á fésbókinni. Kannski er það alveg rétt að jarðakaupin séu bara gerð til þess að vernda villta laxastofna. Sá tilgangur getur samt breyst á einu augnabliki. Hvað veit ég?
Samkvæmt frétt í fréttablaðinu stendur til að byggja hér á Akranesi einingahús frá Lettlandi. Held að Byko sé eitthvað blandað í þau mál. Timburhús hljóta það að vera og ég man vel eftir því að einhverntíma á sjöunda áratug síðustu aldar var ég að vinna hjá Hannesi Þorsteinssyni og m.a. að reyna að selja svona hús. Mikill áhugi var þá á innfluttum einingahúsum frá Finnlandi sem Hannes hafði umboð fyrir, en ekki varð úr neinum kaupum þá.
Annars ætti ég að vera að skrifa um hjúkrunarfræðinga eða fjárlög núna. Ef menn eru ekki arfavitlausir útí þá sem voga sér að kalla hjúkrunarfræðinga hjúkrunarkonur, þá geta þeir a.m.k. þráttað um reikningsaðferðir við fjárlagafrumvörp. Ég bara nenni því ekki. Þetta gleymist svo fljótt. Undarlegt að fólk með fullu viti skuli láta svona. Maður gæti haldið að kosningar verði á morgun.
Alltaf er ég jafnsvartsýnn og neikvæður. Það er bara svo fátt sem tekur því að vera jákvæður útaf. Kannski eru menntamál það markverðasta í heiminum. Unga kyslóðin mun óhjákvæmilega taka við. Ef við gætum þess ekki að mennta hana sómasamlega getum við eins hætt þessu öllu saman. Til hvers er lífið ef engar framfarir verða? Hvort sem okkur líkar betur eða verr er framtíðin í þeirra höndum, en ekki okkar gamlingjanna.
Athugasemdir
Bandaríkjaforseti hefur reyndar meiri völd en flestir kóngar. Ég held ekki að málið hafi snúist um að þeir vildu ekki kóng þannig lagað, heldur að þeir vildu geta valið hann sjálfir og sett hann af ef hann yrði ómögulegur.
Þorsteinn Siglaugsson, 23.11.2018 kl. 19:43
Ég veit það ósköp vel að víðast hver í hinum vestræna heimi a.m.k. eru stjórnmálin búin að yfirtaka völdin. Held samt að ég hafi talað um alvaldskónga eins og tíðkuðust áður fyrr, í blogginu mínu.
Kannski eru það bara soldánar og keisarar sem hafa einhver völd núorðið og svo Bandaríkjaforseti í utanríkismálum sérstaklega. Dómstólar og þingið hafa samt einhver völd yfir honum. Víða er samt farið eftir því sem þjóðhöfðingjar segja, nema kannski á Íslandi.
Í Bandarikjunum tíðkast það ekki að þjóðhöfðingjar sitji endalaust. Annars er réttast að líta á Bandaríkin og kannski Kanada lika sem heimsálfu.
Sæmundur Bjarnason, 23.11.2018 kl. 22:20
Það er hæpið að segja að Kanarnir vilji Trump sem eins konar kóng þegar þeir gáfu Hillary næstum þremur milljónum fleiri atkvæði.
Ómar Ragnarsson, 24.11.2018 kl. 22:34
Ekki svo ákaflega hæpið. Atkvæði hafa víða mismunandi vægi. T.d. hér á Íslandi og reyndar miklu víðar.Eftir þeim reglum sem um Bandarískar forsetakosningar gilda sigraði Trump þó hann fengi færri atkvæði samanlagt.
Sæmundur Bjarnason, 29.11.2018 kl. 21:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.