12.11.2018 | 22:48
2790 - Trump einu sinni enn
Um daginn, sennilega á vopnahlésdaginn, heyrði ég í Guðna forseta í einhverjum miðlinum. Mér fannst hann nota málið vitlaust í tveimur tilfellum. Því miður man ég allsekki hvað var þar um að ræða. Sennilega hefur þetta verið hin mesta vitleysa hjá mér. Gamli besserwisserahátturinn afturgenginn. Satt að segja hef ég enga trú á því að téður Guðni hafi talað vitlaust. Til að bjarga sjálfum mér gæti ég svosem haldið því fram að eitthvað sé umdeilanlegt.
Held að ég hafi í síðasta bloggi talað um kaffið sem ógeðsdrykk. Er að hugsa um að standa við það og útskýra mál mitt svolítið. Á sama hátt og það var töluvert átak að venja sig á sínum tíma á sígarettur voru mín fyrstu viðbrögð við kaffi að það væri hræðilega vont á bragðið. Líkt og með tóbakið má búast við því að ekki sé auðvelt að venja sig af kaffiþambinu. Það eru nefnilega áhrifin sem maður sennilega sækist eftir. Auðvitað er kaffið tiltölulega meinlaust sem eiturlyf. Eða það telur maður sér a.m.k. trú um.
Þar að auki er óbein kaffidrykkja svotil óþekkt. Kannski fer það samt svo á endanum að kaffið fer sömu leið og tóbakið. Hvað á þá að bera á borð fyrir gesti? Ekki hætta þeir með öllu að koma. Og þó, eiginlega verður ekki eftir neinu að slægjast. Sykraðar smákökur og brauð með áleggi úr dýraríkinu þýðir ekkert að bjóða á þessum Vegan-tímum.
Vitanlega má halda því fram að það sé hálfgerður dónaskapur að neita sér um kaffi, sem haldið er að manni. Í eina tíð voru það bara skrítnustu og sérkennilegustu karlar og kerlingar sem vildu heldur heitt vatn með mjólkursopa og strásykri útí en hressandi og heilnæmt kaffi. Þessu man ég samt vel eftir. Nútildags er vel hægt að biðja fremur um te en kaffi. Kannski er það ekki eins eitrað og kannski er munurinn bara sá sami og á sígarettum og pípu. Man að einhvern tíma taldi maður sér jafnvel trú um að pípureykingar væru hollar. Kannski væri hægt að losna við mestu hugsanlegu óhollustuna af tedrykkju með því að drekka bara ávaxtate.
Allt öðru máli gegnir um mjólkurdrykkjuna. Mest er þetta vani. Þó er mjólk svosem góð, ekki er því að neita. Fyrst maður gat vanið sig af ropvatnsdrykkjunni ætti manni ekki að verða skotaskuld úr því að hætta mjólkurdrykkjunni. Kemur ekki árans skotaskuldin enn einu sinni eins og skrattinn úr sauðarleggnum. Skulda Skotar svona mikið eða á maður kannski að skjóta allar skuldir niður? Eða sópa þeim útí skot? Skil þetta bara allsekki, og hvað hefur þetta með mjólkurdrykkju að gera? Best að hætta áður en þetta fer útí tóma vitleysu.
Held að síðasta (þriðja) atriðið í lífsreglunum sem ég gat um í síðasta bloggi hafi fjallað um tæknina, sem allt er að drepa. Um hana má margt segja. Sennilega er best að láta þá umfjöllun bíða næsta bloggs.
Í Bandaríkjunum hamast menn við að telja atkvæði. Samt eru úrslitin löngu ljós. Trump tapaði og getur illa að sætta sig við það. Honum hefði verið nær að láta ekki alltaf eins og fáviti. Meirihluti bandaríkjamanna kann ekki að meta svonalagað. Kannski tilkynnir hann fljótlega að hann sækist ekki eftir endurkjöri árið 2020. Þó hann hafi mikið yndi af því að koma á óvart, finnst honum líka gott að ráða og stjórna, svo þetta er fremur ólíklegt. Repúblikanaflokkurinn verður eins og stefnulaust rekald ef hann hættir.
Athugasemdir
Þú varst ekki einn um það að taka eftir þessu, - það gerðist tvisvar og er svo sjaldgæft af hans hálfu að ég veit ekki um neitt annað dæmi.
Ómar Ragnarsson, 12.11.2018 kl. 23:28
Já, ég held að þetta hafi verið vitlausar beygingar eða eitthvað þessháttar. Annars er maður alveg hættur að gera athugasemdir við vitleysurnar í fjölmiðlum. Eiður var ágætur. Kannski hafa samt ekki lesið athugasemdir hans, þeir sem mest þurftu á þeim að halda.
Sæmundur Bjarnason, 13.11.2018 kl. 00:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.