2779 - Laxamál fyrir vestan

Um margt má fræðast með því að skoða alþingisvefinn sæmilega vel. T.d. voru í gær (þriðjudag) greidd atkvæði um frumvarpið hans Kristjáns sjávarútvegsráðherra. Ekki er frásagnarvert hverjir voru meðmæltir því en engir voru á móti. Þeir sem kannski voru á móti pössuðu sig á því að vera fjarverandi eða greiða ekki atkvæði. Þessir voru fjarverandi: Anna Kolbrún Árnadóttir, Ásmundur Einar Daðason, Bjarni Benediktsson, Guðlaugur Þór Þórðarson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Jón Þór Ólafsson, Jón Steindór Valdimarsson, Kolbeinn Óttarsson Proppé, Páll Magnússon, Rósa Björk Brynjólfsdóttir, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Svandís Svavarsdóttir.

Og þessir sátu hjá: Björn Leví Gunnarsson, Guðmundur Andri Thorsson, Halldóra Mogensen, Helga Vala Helgadóttir, Helgi Hrafn Gunnarsson og Snæbjörn Brynjarsson.

Efni málsins ætla ég ekkert að fjölyrða um, enda hef ég mjög takmarkað vit á þessu. Þó má segja að alþingi ætti ekki að vera að setja upp úrskurðarnefndir þar sem ekki er hægt að áfrýja úrskurðum ef ekki er ætlunin að standa við þá, þó það sé e.t.v. óþægilegt. Mikið hljóta alþingismenn samt að vera fegnir því að hafa ekkert með braggaviðgerðir eða endurbyggingar þeirra að gera. Aumingja borgarstjórnin situr uppi með það klúður alltsaman. Nóg er að búa til hæstarétti (úrskurðarnefndir) út um allt og þurfa svo að breyta lögum til að ógilda dóma (úrskurði) þeirra. Og svo ætlast þessir vesalingar til að virðing þeirra aukist.

Á Íslandi lognast flest heykslunarmál útaf með tímanum. Þannig er því farið með þau tvö mál sem ég hef minnst á hér að ofan. Sennilega verða flestir búnir að gleyma þeim eftir nokkrar vikur og í hæsta lagi að minnst verði á þau í næstu kosningabaráttu. Eflingarmálið eða var það kannski kennt við Gunnar Smára er t.d. næstum alveg dottið uppfyrir. Þannig fer fyrir flestum málum. Eiginlega tekur ekki að vera að æsa sig útaf þessu. Ef æsingurinn er mikill enda málin kannski fyrir dómstólum og þegar úrskurður kemur þaðað eru allir búnir að gleyma málinu, en lögfræðingarnir græða eins og venjulega. Menn eru þegar farnir að gíra sig uppí að rífast um kjaramál og mega varla vera að því að tala um annað.

Allir muna eitthvað. Sem betur fer muna ekki allir það sama. Rétt áðan rifjuðust upp tvær vísur fyrir mér. Því miður gerði ég þær ekki, en fleygar urðu þær. Ekki vil ég þó segja um hvern þær eru. Sú fyrri er svona:

Úti í snjónum flokkur frýs
fána sviptur rauðum.
Ólafur Ragnar Grímson grís
gekk af honum dauðum.

Og sú seinni er þannig:

Vanhæfur kom hann að verkinu.
Vigdís plantaði lerkinu.
Bónus hann á
eins og hvert barn má sjá.
það er mynd af honum í merkinu.

IMG 7746Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Davíð Oddsson býsnast nú yfir innflutningi á stráum við bragga í Nauthólsvík, enda þótt strá þessi séu ekki á hverju strái hér á skerinu.

Grjót var hins vegar flutt frá útlöndum í stórum stíl til að prýða umhverfi annars bragga, ráðhússins í Reykjavík, sem þessi sami Davíð Oddson, þá borgarstjóri, lét byggja í Tjörninni.

Það var hins vegar allt í lagi vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn stóð fyrir þessum grjótinnflutningi og ekki mikið til af grjóti hér á Klakanum.

Davíð Oddsson lét einnig smíða hringekju ofan á hitaveitutanka í Öskjuhlíðinni, sem hann kallaði Perlu og er ákaflega montinn af, enda kostaði monthús þetta, bragginn og innflutta grjótið í Tjörninni ekki neitt.

En hér í Reykjavík drýpur nú smjör af hverju strái vegna erlendra ferðamanna og bragginn í Nauthólsvík er til mikillar prýði í einni ríkustu borg Evrópu.

Og það eru Perlan og bragginn í Tjörninni reyndar einnig.

Á Akranesi ganga menn hins vegar enn í sauðskinnsskóm og rífa niður sitt stærsta reðurtákn, gamlan stromp, sem var það eina sem minnti umheiminn á þennan fátæka og flata bæ, sem þykist hafa efni á að gagnrýna aðra. cool

Þorsteinn Briem, 12.10.2018 kl. 20:23

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Aðflutt strá og enginn steinn
Steini flytur boðskap sinn.
Hér er einn og ekki seinn
ofursvalur strompurinn

Sæmundur Bjarnason, 12.10.2018 kl. 22:55

3 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Sæmundur á sauðskinnsskóm
skundar eigin leiðir
en Steini Briem sinn lemur lóm
og lágt til högga reiðir

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 18.10.2018 kl. 18:15

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Jóhannes á jörpum skóm
jafnar skáldið eina.
Hans er vísan fremur fróm
en fælir burtu Steina.

Sæmundur Bjarnason, 18.10.2018 kl. 23:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband