27.8.2018 | 12:16
2763 - Fésbókarfjárinn
Allir þeir sem skrifa athugasemdir við bloggið mitt geta reiknað með því að uppfrá því reikni ég með þeim sem föstum lesendum. Auðvitað þarf ekki svo að vera, en ég reikna með því samt. Fólk verður bara að sætta sig við það.
Álit mitt á fésbókarfjáranum fer sífellt minnkandi. Kannski er það mest vegna þess að ég skil hann bara alls ekki. Þar fyrir utan eru bölvaðar auglýsingarnar alltaf að verða fyrirferðarmeiri og gott ef allir, sem vilja gera einhver óskunda, geta ekki ruðst inn á síðuna manns. Moggabloggið er mun skárra og hentar betur til predikana og íljósskíninga. Það er að vísu erfitt að finna það fyrir óinnvígða en það á að mörgu leyti betur við mig. Sennilega eru mun færri sem vinna þar, kannski bara engir.
Ekki veit ég af hverju það stafar en undanfarið hefur þeim sem vilja gerast vinir mínir á bansettri fésbókinni farið mjög fjölgandi. Flestir þeirra eru útlendingar eftir nöfnunum að dæma og þetta hlýtur að stafa af því að ég hef alveg óvart lent á einhverjum lista. Listamaður er ég samt ekki.
Til talsverðar Þórðargleði finn ég um þessar mundir vegna vandræða Trumps Bandaríkjaforseta. Kosningarnar í haust gætu orðið geysispennandi. Auðvitað eru bandarískar kosningareglur talsvert flóknar, en samt er varla hægt að gera ráð fyrir því að takist að koma honum úr embætti. Fyrsta raunverulega tækifærið til þess er í forsetakosningunum árið 2020, sem nálgast nú óðfluga, eða eins og óð fluga. Hvernig eru þær annars? Þessar maðkaflugur sem hingað villast um þetta leyti vilja óðar komast út aftur.
Hvernig Trump sjálfur breyttist í flugu er mér að mestu hulið. Helvítis maðkafluga er hann samt. Það er ekki að sjá að hann hafi snefil af meðlíðan með öðru fólki. Hann nýtur þess að Bandaríkin eru ennþá eitt af forysturíkjum hins frjálsa heims. Að sú forysta skuli notuð í þágu metnaðar eins manns er með öllu fordæmanlegt. Ekki er hægt að komast til neins skilnings á því fyrirbrigði sem USA er án þess að gera ráð fyrir því að þarna er um heila heimsálfu að ræða. Kannski er Evrópusambandið að reyna að sumu leyti að feta í fótspor þess ríkis, en stendur Brexitlega og tungumálslega ekki jafnvel að vígi.
Hræddur er ég um að Trump hafi varað sig á því að ekki sé hægt að sanna neitt á hann sem valdið geti embættismissi. Hann er auk alls annars háll sem áll held ég. Hugsa að hann vari sig líka á því að náða ekki eða reka þá sem ekki má náða eða reka. Þar er ég t.d. að tala um Manafort og Sessions. Þá yrði nefnilega allt vitlaust. Ekki er víst að Cohen eða Mueller geti sannað neitt á hann og þessvegna eru það sennilega blessaðir kjósendurnir, eins og fyrri daginn, sem geta gert honum lífið leitt. Þó demókratar fái meirihluta í neðri deildinni og jafnvel í öldungadeildinni líka, dugar það sennilega ekki til, því til að koma honum frá þarf aukinn meirihluta.
Það sem helst hann varast vann
varð þó að koma yfir hann.
Þetta vísubrot er það sem er að flækjast fyrir mér þessa dagana. Ég hef líklega notað einhverntíma glósuna góða fólkið í þeirri merkingu sem andstæðingar þess vilja helst að sé notuð. Kannski er ég einmitt einn af góða fólkinu. Þetta segi ég að gefnu tilefni. En förum ekki lengra út í þá sálma.
Óttalegur tittlingaskítur eru þessar sífelldu málfarsaðfinnslur á fésbókinni. Sumar hverjar a.m.k. Málið bara þróast og þó það fari ekki alltaf í þá átt sem við gamlingjarnir viljum er ekki þar með sagt að við höfum réttara fyrir okkur en aðrir. Okkur finnst það bara. Unga fólkið hefur sínar skoðanir og með því að láta af sífelldum kröfum okkar um bætt málfar og margt annað hefur heimurinn skánað mikið á undanförnum áratugum.
Athugasemdir
Sæll Sæmundur.
Vísubrotið sem þú nefnir er úr
Passíusálmum Hallgríms Péturssonar,
27. sálmi, 6. versi.
Til að átta sig á merkingu þessara vísuorða
þá er auðveldast að sjá það þannig:
Sjálfs er hönding hollust og Pílatus óttaðist
að hann yrði settur af héldi hann ekki uppi góðu skikki.
(ef honum yrði úr völdum steypt)
Hann reyndi að mjúklæta lýðinn en sýnist sjálfur sannfærður
um sakleysi Jesú; gerir hvað í hans valdi stendur til
að lægja öldur óánægju og að treysta eigin stöðu þannig að
ekki komi til afskipta keisarans
(Þetta, sem helst nú varast vann)
Pontius Pílatus var þó neyddur til afsagnar og kallaður til Róms
Anno Domini 37 eða nokkru síðar eftir lát Tíberíusar keisara
en Marcellus skipaður landstjóri í hans stað.
Allt fór þetta á einn veg hvernig sem látið var.
(varð þó að koma yfir hann)
Svipað stef og í Íslendingasögunum:
Forlögunum fresta má
en fyrir þau ekki komast.
Húsari. 27.8.2018 kl. 19:00
Þakka þér Húsari fyrir fróðleikinn. Allt er þetta fyrir utan og ofan við mín áhugamál svo ég get lítið sagt. Annars hef ég talsverðan áhuga fyrir sagnfræði og Hallgrímur Péturssaon er mér nokkuð hugleikinn í því ljósi. Skáldskapur hans og mörg hundruð ára gömul guðfræði heillar mig ekki.
Sæmundur Bjarnason, 27.8.2018 kl. 20:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.