2761 - Erdogan eða Trump

Erdogan eða Trump. Ef ég á að vera alveg hreinskilinn þá myndi ég frekar kjósa Trump. Þetta byggi ég alfarið á því sem ég heyrt um þessi svín. Þó Trump sé slæmur þá held ég hinn sé mun verri. Að vísu er heilmikill munur á þjóðfélögunum sem þessir menn (ef menn skyldi kalla) eru uppaldir í. Þó ég hafi enga sérstaka ástæðu til þess, þá treysti ég Bandaríkjamönnum mun betur en Tyrkjum. Kannski er það vegna þess að ég álít þá vera næstum því eins og við erum en Tyrki aftur á móti talsvert ólíka okkur. Hræðumst við ekki alltaf það sem er ólíkt því sem við þekkjum og erum vönust?

Það er víðar en hér á Íslandi sem húsnæði er dýrt. Sagt er að um 15 þúsund manns búi í bílum í Los Angeles borg einni. Þarna er sagt að sé um allskonar fólk að ræða. Hús eru fáránlega dýr víða í Kaliforníu. Svo geysa þar skógareldar með reglulegu millibili, svo kannski er bara best að eiga heima á Íslandi þegar allt kemur til alls. Reyndar er um fleiri staði að ræða en Ísland og Kaliforníu, en það er efni í annað blogg.

Viðtal í útvarpi allra landsmanna:
Spyrjandi: „Hvað er það besta við sjósund hér á Íslandi“?
Svarandi: „Það er að koma uppúr“.
Sp: „???“

Svona held ég að flestallir sannfærðir íslenskir landkrabbar hugsi sér sjósund. Þeir geta svosem farið augnablik í sjóinn ef þeir eru á Mallorca eða Tenerife, en á Íslandi er það allt annað mál. Þar er sjórinn svo fjári kaldur.

Man ennþá að þegar ég hætti mér út í Nauthólsvík á Nýársdag um árið þrátt fyrir hörkufrost varð ég steinhissa á því að sjá hóp fólks svamlandi í sjónum eins og ekkert væri. Svona er þetta bara. Það sem maður hefur ekki prófað er stórhættulegt. Eða það telur maður sér gjarnan trú um.

Að vera fúll eða ekki fúll, það er spurningin. Held að Harpa Hreins sé alltaf fúl þegar hún skrifar á fésbókina. Aftur á móti er ég fúll næstum alltaf nema þegar ég blogga. Þess vegna reyni ég að blogga svona mikið. En það bara þýðir ekkert. Reyni samt alltaf að vera sem lengst að því. Stundum tekst mér það sæmilega. Með aldrinum hefur mér tekist að vera lengi að næstum hverju sem er. Konunni minni finnst ég vera óhemju lengi að vaska upp. En ég held að ég geri það bara svona vel. 

Nú er Sigurður Hreiðar búinn að gefa út sjálfsævisögu. Hún er víst ekki um bíla. Ég er að mestu leyti hættur að lesa bækur. Svo sennilega kaupi ég hana ekki. Hef lesið bækur sem voru í rauninni ekkert nema fremur ómerkileg blogg. Næstum eins og þetta. Les miklu fremur blogg en bækur. Kosturinn við þau er að þau eru venjulega stutt. Stundum (oft) les ég fréttir. Þær eru stuttar líka. Ef ég reyni að lesa blogg eða fréttir sem eru of langdregin gefst ég bara upp og hætti. Niðurlag frétta fer oft framhjá mér.

IMG 7859Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Sumt er of en annað van,
á öllum koppagrundum,
aular Trump og Erdogan,
út það snemma fundum.

Þorsteinn Briem, 25.8.2018 kl. 00:45

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Aulinn þú og aulinnn Trump
aldrei getið þagað.
Allt er þetta eintómt prump
ekkert virðist lagað.

Sæmundur Bjarnason, 25.8.2018 kl. 06:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband