2752 - Frægð er fangelsi

Frægð er fangelsi. Ekkert má fræga fólkið gera. Ekki einu sinni mistök, þá er það komið í fréttirnar. Þetta verðum við hin ófrægu og andlitslausu a.m.k. að telja okkur trú um til að halda sönsum. Sama er að segja um ríkidæmi. Sennilega er alltof streituvaldandi og áhættusamt að vera ríkur. Sífelldar áhyggjur. Best er sennilega að komast sæmilega af og vera þokkalega heilsuhraustur. Sums staðar fylgist þetta að. Þ.e.a.s. ef fólk missir heilsuna getur ríkidæmið verið á förum líka. Annars staðar hefur verið reynt að aðskilja þetta með því að hafa allt lækningatengt sem ódýrast, helst alveg ókeypis. Þá verður að hafa skattana fremur háa því einhver verður að borga. Nú er ég að komast á dálítið hálan ís og svolítið pólitískan.

Um daginn helgaði Morgunblaðið Helgu Völu Helgadóttir heilan staksteinaþátt. Fyrir utan Reykjavíkurbréfið á sunnudögum (eða a.m.k. um helgar) er það einn helsti gallsúri pólitíski þátturinn þar. Leiðarana í Morgunblaðinu les ég aldrei og heyri sjaldan á þá minnst. Helgu hafði orðið það á að gagnrýna (á vitlausan hátt) Píu Glistrup (ég meina Kjærsgaard). Annars mætti skrifa langa og leiðinlega rollu um Þingvallafundinn síðasta og Steingrím Sigfússon. Sennilega er þetta hans svonasöngur í íslenskri pólitík. Vonum bara að Katrín verði eitthvað skárri. Satt að segja er ég ekki ennþá búinn að missa alla trú á henni þó sumir virðist hafa gert það. Gjáin milli þings og þjóðar sem ÓRG talaði sem fjálglegast um virðist sífellt fara breikkandi. Við verðum eiginlega að fara að gera eitthvað í þessu.

Fyrir skömmu heyrði ég eða sá nýtt orð. Skýrslumýri var orðið. Líklega var það kennari sem notaði þetta orð. Held að hann hafi verið að finna að þvi að foreldrar eru í vaxandi mæli farnir að ætlast til þess að skólinn (og þar með kennararnir) sjái um uppeldið á krakkagríslingunum. Að sumu leyti er ég sammála því, en mér fannst hann vera heldur á móti því sem hann kallaði skýrslumýri. Eitt af því sem ég held að okkur Íslendinga vanti tilfinnanlega er meiri og fullkomnari skýrslugerð. Skýrslur sem hér eru gerðar um íslenskt þjóðlíf eru fyrst og fremst um það sem jákvætt er. Neikvæðar skýrslur eru litnar hornauga og helst ekki gerðar og ekki skrifað um í fjömiðla. Þeir eru samt óskaplega hallir undir hverskonar skoðanakannanir og þessháttar.

Það sem Þorvaldur Gylfason skrifar er eitt af því sem ég les næstum alltaf í Fréttablaðinu. Held að þeir Þorsteinn og Vilmundur hafi verið bræður hans. Synir Gylfa Þ. Gíslasonar, sem lengi var ráðherra og formaður Alþýðuflokksins. Í dag skrifar hann um kosningaskyldu og Ástralíu og þar talar hann einnig eins og svo oft áður um Skandinavíu og reyndar Noreg sérstaklega, að mig minnir.

Björn Birgisson skrifar mikið og oft á fésbókina og er sjálfhælinn nokkuð. Það er þó enginn ljóður á hans ráði. Hann fer stundum mikinn þar. Mest skrifar hann í hálfum setningum. Það er bara hans stíll. Býr sér gjarnan til svokallaða strámenn og ræðst á þá af mikilli heift. Man að hann sagðist einu sinni hafa farið á Moggabloggið og þar væru aðallega sannfærðir sjálfstæðismenn og fáeinir sérvitringar. Líklega er ég einn slíkur og þeir sem þó lesa bloggið mitt mega passa sig á því að kommenta varlega þar því Björn og hans menn gætu verið þar yfir og allt um kring. Nú virðist hann hafa tekið miklu ástfóstri við Piu Kjærsgaard sem lengi hefur stýrt þjóðarflokknum í Danmörku. Ekki er ég sannfærður um ágæti hennar og hef kosið Píratana að undanförnu. Kannski hefði ég þó viljað mæta á Þingvöll og hugsanlega ekki mótmælt veru Piu þar á sama hátt og Helga Vala hefði ég haft aðstöðu til og fengið borgað fyrir það.

Þó ég sé sennilega fésbókarvinur nefnds Björns þá þykir mér verra að missa Steina Briem, en að verða hugsanlega úthýst af Birni (hann er slæmur með það). Steini virðist vera hættur að kommenta með vísum á bloggið mitt eins og hann gerði.

IMG 7924Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Mörg nú eru fólin fræg,
fífl á stökum steinum,
Helga Vala hún óþæg,
hlær að þeirra veinum.

Þorsteinn Briem, 27.7.2018 kl. 00:52

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Voðalegur vandi er hér.
Varla nokkur kjatur.
Sturlunin þó stelst frá mér.
Steini er kominn aftur.

Sæmundur Bjarnason, 27.7.2018 kl. 06:46

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Voðalegur vandi er hér
Varla nokkur kjatur.
Sturlunin þó stelst frá mér.
Steini er kominn aftur.

Sæmundur Bjarnason, 27.7.2018 kl. 06:49

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Ætlaði alls ekki að tvítaka þessa vísu. Hún er ekki það merkileg. En úr því ég er byrjaður að skrifa er rétt að breyta henni svolítið og lagfæra hana. Í annarri ljóðlínu aftast á auðvitað að standa "kjaftur" en ekki kjatur og vel má setja "stingst" í stað stelst í þeirri þriðju og þar að auki færi ver á því að hafa síðustu ljóðlínuna innan gæsalappa. Ég var bara dálítið syfjaður.

Sæmundur Bjarnason, 27.7.2018 kl. 07:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband