2738 - Himstrakeppnin í fótbolta

Hverju man maður síst eftir. Eigin afglöpum sennilega. Hugsanlega eigin mismælum einnig. Eru mismæli annars afglöp. Ekki veit ég það, en ég man af einhverjum ástæðum eftir mínnisstæðum mismælum sem ég gerði mig sekan um.

Þannig var að við vorum nokkrir unglingar (já, ég tilheyrði einu sinni slíkum hópi.) að hamast eitthvað á túninu við Reyki í Ölfusi. Þar var ég að vinna eitt sinn, en man þó ekki hvort svo var að þessu sinni. Páll, sem ég held endilega að hafi verið Sigurðsson og var kenndur við Kröggólfsstaði, átti eða nytjaði a.m.k. túnið sem var hinum megin við girðinguna sem við vorum nærri. Krakkarnir hentu eða settu einhvers konar rusl, sennilega heyleifar, yfir girðinguna í því að ég kom aðvífandi. Þá datt mér í hug að nota orðið skemmileggja og átti það víst að vera voða fyndið. Ég sagði semsagt við krakkana: „Þið megið ekki skemmileggja pálið hans Túns.“

Af einhverjum lítt kunnum ástæðum hefur þetta mismæli mitt setið í mér allar götur síðan. Sennilega hef ég ekki sagt frá þessu áður. Ekki veit ég hversvegna, en ég minnist þess að ég átti afar gott með að skilja og vera fljótur að fatta brandarann um hann Ísmann í Kristshúsinu eftir þetta.  

Hvað er það sem einkennir yfirstandandi heimsmeistarakeppni í fótbolta? Eflaust eru allmargir sem spyrja sig þessarar spurningar. Mér finnst mest áberandi hvað Ameríkufótboltinn hefur dalað. Asíu og Afríkuboltinn er á uppleið. Evrópa heldur nokkurnvegin sínu. Rússland fær töluverða athygli og stórþjóðirnar í þessari keppni er alveg úti að skíta. Nema þá helst Spánverjar, Portúgalir og Englendingar. Sama er að segja um stórstjörnurnar eins og Neymar og Messi. Það er helst að Ronaldo blakti svolítið, þrátt fyrir allt sitt mont.

Það eru ekki bara Argentínumenn sem geta lítið í fótbolta nú um stundir. Svipað má segja um marga fleiri. T.d. bæði um Frakka og Þjóðverja ekki síður en Brasilíumenn. Hvað hafa íþróttir að gera með grenjandi smábörn einsog Neymar? Auðvitað reyna allir að brjóta á honum. Aðrir eru þó ekki sívælandi.

Þátttaka Íslendinga er kapítuli út af fyrir sig. Vitanlega fylgist maður mest með keppninni í þeim riðli sem Ísland er. Þar eru Króatar greinilega langbestir og kemur það ekki á óvart. Einhverjir hefðu kannski búist við að Argentínumenn gætu eitthvað, en Messi er víst í hálfgerðu messi og engin von er til þess að þeir komist áfram. Líklega verða það Nígeríumenn sem fylgja Króötum í úrslitin. Gætu samt orðið Íslendingar.

Fjölmiðlaumfjöllunin um þessa himstrakeppni er yfirþyrmandi. Hvernig dettur sjónvarpstöð eins og þeirri Íslensku í hug að færa fréttatímann til um tvo og hálfan klukkutíma bara útaf einni andskotans fótboltakeppni? Jú, eina afsökunin er að í fyrsta (og sennilega eina) skiptið hefur íslenska landsliðinu tekist að fá þátttökurétt á þessari jólahátíð íþróttamanna. Allar þjóðir fá þó rétt til að taka þátt í Ólympíuleikunum en þarna eru fáeinir útvaldir sem fá að taka þátt. Kannski verður þátttökuþjóðunum í þessari keppni fjölgað svo um munar á næstunni.

Á sinn hátt eru fjölmiðlar búnir að gera þessa keppni að allsherjar sirkusi og jafnvel vinsælli en sjálfa Ólympíuleikana. Kannski væri ráð að gera þennan sirkus að árlegum viðburði. Þá mundu sumir fá nóg og fara jafnvel að fjalla um eitthvað sem skiptir máli.

IMG 8032Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Gylfi Þór þar geysi stór,
graður fór í harkið,
ansi þó þar illa fór,
ekki hitti markið.

Þorsteinn Briem, 23.6.2018 kl. 17:10

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Góður með sig Gylfi Þór
glaður fór í sparkið. 
Ákaflega illa fór 
því ekki hitti hann markið.

Já, já hún er óþægilega lík þinni visu þessi, en "paa staaende fod" get ég ekki gert betur.

Sæmundur Bjarnason, 23.6.2018 kl. 23:55

3 identicon

Sæll Sæmundur.

Sigmund Freud samdi heila bók um 
það sem þú gerir að aðalumræðuefni í pistli þessum.

Þar skýrir hann út hvers vegna mönnum verður á mismæli.

Bókin heitir Der Witz (Fyndni >Brandarinn)

Þetta er nokkuð skemmtileg bók(!) 

Húsari. 24.6.2018 kl. 21:31

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Gallinn er bara sá Húsari góður, að ég kann heldur lítið í þýsku. Einu sinni var ég staddur í stórmarkaði þar í landi og gat við illan leik komið því frá mér að ég vildi tala við einhvern sem talaði ensku. Auk þess gataði ég einu sinni illilega í þýsku hjá Herði Haraldssyni að Bifröst, af þeirri einföldu ástæðu að árið áður hafði viðkomandi kafla verið sleppt og var því ekki að finna í glósunum sem ég hafði keypt.

Sæmundur Bjarnason, 24.6.2018 kl. 22:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband