2734 - Knattspyrna og Trump

Nú er það eiginlega orðið svo að mér finnst ég þurfa að blogga. Það er vissulega heimsfrétt að „strákunum okkar“ skuli hafa tekist að halda jöfnu við Argentínumenn á fótboltamótinu í Rússlandi. Verst að nú ætlast flestir til þess að þetta lið sigri Nígeríumenn auðveldlega. Ég er ekki að tala um svokallaða sparkspekinga heldur almenning, sem í rauninni öllu ræður. Svo mega þeir eiginlega alls ekki tapa fyrir Króötum í lokaleiknum. Kannski komast þeir bara uppúr riðlinum eftir allt saman. Leiðinlegt verður að tapa fyrir Dönum eftir það, en kannski er bara kominn tími til að hefna sín á fyrrverandi herraþjóð. Látum allt maðkaða mjölið og aðra niðurlægingu verða okkar lokaorð á þessari sýningu.

Að fótboltanum afgreiddum má ég eiginlega til með að sinna svolítið Trump-blætinu mínu. Fyrrverandi kosningastjóri hans, sem Manafort heitir, situr núna í fangelsi. Sennilega er alltof langt mál að útskýra hversvegna það er. Scott Pruitt forstjóri EPA (environmental protection agency) sem segja má að sé einskonar umhverfismálaráðherra í Trump-stjórninni lætur ekkert tækifæri ónotað til þess að sleikja sig upp við Trump eftir því sem Washington Post segir. Svo á víst Cohen, fyrrverandi einkalögfræðingur Trumps, í einhverjum vandræðum við saksóknara sem auk þess að hafa lagt hald á allar hans eigur hafa meira að segja límt saman skjöl beint úr pappírstætara hans.

Ekki blandast mér hugur um að hluti af vandræðum Trumps stafar af stríði hans við fjölmiðla flesta. Í rauninni er ekkert einkennilegt þó hægri sinnaðir Bandaríkjamenn séu honum hliðhollir. Margt hefur hann gert fyrir þá. Flestir stærstu fjölmiðlar heims eru talsvert vinstri sinnaðir. Þeir sem halda því fram að hægri og vinstri séu með öllu ótæk og alveg merkingarlaus hugtök í nútíma pólitík eru bara að reyna að rugla fólk. Hægri stefna er einangrunarstefna og vinstri stefna er opingáttarstefna. Hvort er meira út úr kú að aðhyllast er ómögulegt að segja. Bil beggja er líka vandfundið.

Ekki ætla ég mér þá dul að ákveða hvort knattspyrnunni sjálfri fer betur að vera hægri eða vinstri sinnuð. Hverjum þykir sinn fugl fagur og kannski sameinast þjóðin ekki almennilega nema geta varpað allri pólitík út í hafsauga.

Hvort skyldi vera íslenskara að tala um fótbolta eða knattspyrnu. Sjálfum finnst mér ágætt að hafa tvö orð um sama fyrirbrigðið. Knattspyrna er svolítið fínna og fótbolti svolítið yfirlætislegt. Stundum er líka ágætt að finna ný og ný orð yfir það sem verið er að tala um. Það þarf þó að skiljast og ekki má það vera hlægilegt eða nokkurs konar tátólogía. T.d. væri með öllu óboðlegt að tala um fótspyrnu eða knattbolta.

Í dag er 17. júní og það er víst þjóðhátíðardagur okkar Íslendinga. Veðrið er alveg sæmilegt núna enda sunnudagur og ekki verjandi fyrir Veðurstofuna að vera með einhvern hryssing. Hátíðahöld verða áreiðanlega einhver hérna á Akranesi en ólíklegt er að ég taki nokkurn þátt í þeim. Einu sinni var ég þó skáti og meira að segja fánaberi á slíkri stundu í Hveragerði.

IMG 8054Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Æði margt er út í hött,
útum víða velli,
stundum bolta kalla knött,
en karlar hafa belli.

Þorsteinn Briem, 17.6.2018 kl. 12:16

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Alltaf Steini uppí loft
allmjög setur stökur.
Jólasveinninn jafnvel oft
étur böll og kökur

Sæmundur Bjarnason, 17.6.2018 kl. 17:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband