2728 - Jón Valur Jensson

Nú er Jón Valur Jensson farinn að athugasemdast svolítið á blogginu mínu. Gaman að því. Á margan hátt er fésbókin sá staður þar sem menn rotta sig saman og fjósamennskan (öðru nafni heimspekin) er allsráðandi. Þorsteinn Siglaugsson var fyrir nokkru fastur liður hérna á blogginu mínu. Og svo hefur fornleifafræðingurinn Villi í Köben stundum litið hingað inn. Allt er þetta að ógleymdum Steina karlinum Briem sem veldur því að ég er sífellt að setja saman vísur núorðið, en það hef ég ekki gert lengi og getan er ekki mikil.

Þó skömm sé frá að segja þá les ég blogg þessara manna alltof sjaldan. Held að Steini Briem bloggi aldrei, núorðið, Jón Valur er sískrifandi og heldur úti mörgum bloggum. Aðrir eru líkari mér og blogga svona öðru hvoru. Engir nema ég veit ég til að númeri bloggin sín. Það er mín sérstaða. Sérstakur, sérsinna og sérvitur vil ég gjarnan vera.

Flestir þeirra sem hér eru nefndir, nema þá helst ég og Steini Briem skrifa gjarnan eins og einhverjir sérfræðingar. Ég er því miður ekki sérfræðingur í neinu, en veit þó ýmislegt. Nenni ekki að safna tölum og staðreyndum til að styðja mál mitt, en hef þó skoðanir á mörgu.

Allgóður þykist ég vera í réttritun og kannski er það þessvegna sem ég skrifa svona mikið. Aftur á móti er ég afleitur í greinarmerkjasetninu. Sömuleiðis er ég nokkuð óklár á hvenær skrifa skal eitthvað í einu orði eða tveimur. Þetta skiptir oftastnær nánast engu máli. Samt get ég alveg viðurkennt að kommur geta stundum skipt máli og t.d. er úranauðgun alls ekki það sama og úra nauðgun.

Sannkallað fótboltaæði hefur nú gripið þjóðina og má gera ráð fyrir að gnístran tanna verði mikil ef Íslendingar tapa öllum leikjunum í sínum riðli. Svo getur hæglega farið og ekki er líklegt að upp úr riðlinum verði komist. Von flestra er þó sennilega sú að leikur í 16-liða úrslitum fáist. Slíkt yrði mikill sigur fyrir litla Ísland. Ég mun líklega láta þessa himstrakeppni að mestu framhjá mér fara, en þó mun ég fylgjast með leikjunum í sjónvarpi og fréttum frá þessum ósköpum.

Veðrið fer sískánandi og líklega er sumarið bara komið. Ekki er ég víst sá fyrsti sem þetta segi, því annar hver maður, og kannski mun fleiri, heyrist mér að tali annað hvort um fótbolta eða sumarið. Þ.e.a.s. veðrið.

Nú hef ég ekkert minnst á Trump í þessu bloggi. Mikið virðist samt vera að gerast í íslenskum stjórnmálum. Erfitt er fyrir alþingi að hætta og Katrín forsætis segist vilja hætta við útgerðarfrumvarpið ef menn verði þá til friðs. Spurning er hvort þingmenn verða það og hvort Katrín kemst upp með þetta fyrir Super-Bjarna.

IMG 8110Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Æði margir ybba gogg,
útum víða velli,
óður Jón með ótal blogg,
í eigin tröllahelli.

Þorsteinn Briem, 7.6.2018 kl. 14:34

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Hellirinn er harla blár
hjá Holu-Jóni snjöllum.
Ofsalega er hann klár
ætli´ hann komi af fjöllum?

Sæmundur Bjarnason, 7.6.2018 kl. 23:28

3 Smámynd: Jón Valur Jensson

Takk, Sæmundur, gefur nafni mínu bara yfirskrift þessa bloggs þíons!

En þú ert ekki eini maðurinn sem númerar blogggreinar sínar; það gerir líka mikill kumpáni þinn og samherji í hægripólitíkinni, hann Björn Bjarnason laughing

Svo er það engan veginn rétt hjá þér, að úranauðgun sé "alls ekki það sama og úra nauðgun". Úra nauðgun er einmitt einn lykilþátturinn á bak við úranauðgun, en hefur bara verið vel geymt hernaðarleyndamál þar til nú, þegar þú í fljótfærni þinni komst svo óvarlega inn á það mál, og er nú búizt við, að ýmsar smáþjóðir fari að koma sér upp kjarnorkuvopnum, m.a. vinir þínir á Gaza.

En Steini fær örugglega sitt svar eins og  vanalegatongue-outyell

Jón Valur Jensson, 8.6.2018 kl. 00:28

4 Smámynd: Jón Valur Jensson

Og svo er bara ort um mann! og ekki í fyrsta sinn á þessu svæði (sbr. gærdaginn).

Aldurhniginn yrkir flím

ósköp lyginn Steini Briem.

Mannorðsvígin ver svo hann,

vill helzt míga á sannleikann.

.

Jón Valur Jensson, 8.6.2018 kl. 00:47

5 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Gazaleg er guðsorðið
gýs úr Holu-Jóni.
Endurskrifar mannsmorðið
mestur allra á Fróni.

Sæmundur Bjarnason, 8.6.2018 kl. 08:03

6 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Það er þetta með úra nauðgunina. Mér finnst það nú ansi bratt hjá þér að kenna mér um útbreiðslu kjarnorkuvopna!! Þannig skildi ég þig.

Hélt endilega að Björn Bjarnason merkti bloggin sín bara með dagsetningu, en ég er enginn sérfræðingur í svoleiðis merkingum.

Spanderar bara hringhendu á Steina. Það er naumast. Fæ ég ekkert?

Sæmundur Bjarnason, 8.6.2018 kl. 08:12

7 Smámynd: Jón Valur Jensson

 Góður! laughing Verð ég nú að fara að senda á þig stöku, ég sem er að bjóða fólki í mat?!

Jón Valur Jensson, 8.6.2018 kl. 17:49

8 Smámynd: Jón Valur Jensson

Af því að þú kallaðir þetta hringhendu, má ekki minna vera en svo, að ég yrki á þig eiginlega hringhendu, þ.e. hringhenda ferskeytlu, Sæmundur!

 

"Mestan" Sæmi mig auman

milt vill dæma´, ei hnekkja, 

enn þó slæmir í mig hann,

eins og næmir þekkja.

 

Jón Valur Jensson, 9.6.2018 kl. 02:45

9 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Allt hjá Jóni um mig snýst
er sá kóni glaður,
enda róni og af því hlýst
ósköp flónskur maður.

Sæmundur Bjarnason, 9.6.2018 kl. 09:04

10 Smámynd: Jón Valur Jensson

Sé ég róni, Sæmi´ er jú

sá slordóni´ að níða

þá ól hér Frón, en fellur nú

fljótt í ónáð lýða.

  

Jón Valur Jensson, 9.6.2018 kl. 15:20

11 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Læsingu ég löngum set
í lok á mínu bloggi.
ógilt þó ég ekki get
allt úr Jónsa goggi.

Sæmundur Bjarnason, 10.6.2018 kl. 09:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband