2713 - Magnús bóndi

Til þeirra sem lesa gamalmennablogg, eins og mitt. Nú loksins er það runnið upp fyrir mér að ástæðan fyrir því hvað umferðin er lítil, er sú að það er Sunnudagur. Það er ekki nærri því eins slæmt veður núna eins og undanfarið. A.m.k. er ágætis „gluggaveður“ í augnablikinu. Það getur vel verið að það sé einhver blástur, en á trjánum sé ég að það getur ekki verið mikið.

Mér sýndist hann Magnús bóndi, í túlkun hins ódauðlega Ladda, vera lifandi kominn á forsíðu Fréttablaðsins um daginn, en það var víst einhver allt annar. Að vísu var hann í kraftgalla, sem var eins á litinn og sloppurinn hans Magnúsar. Og með svolítið flókið hár en samt var það ekki hann.

Er öruggt að allir vilji umfram allt fá „merkjavöru“? Eftir auglýsingum að dæma virðist svo vera. Sjálfur reyni ég yfirleitt að kaupa ó-auglýsta vöru, en ef sparað er á því sviði er oft sparað á öðrum sviðum líka. Það getur endað með því að maður kaupi ómögulega vöru.

Í gamla daga, og ég á ekki við eldgamla Valash-daga, var til gosdrykkur sem hét 7up. Hann var í grænum flöskum og drykkurinn sjálfur litlaus minnir mig. Einu sinni ætlaði ég að stela mér gúlsopa af slíku góðgæti, sem 7up var álitið í þá daga. Þá reyndist vera steinolía í árans flöskunni. Ég var allan daginn á eftir að drepast í maganum, en þetta rjátlaðist af mér.

Klausurnar eru með stysta móti hjá mér núna í dag, en það gerir ekkert til. Ég má hafa þetta eins og ég vil. Verst að halda áfram án þess að hafa neitt að segja.

Bæjarstjórnarkosningar eru eins og veðrið. Hundleiðinlegar en samt er ekki hægt að komast hjá þeim. Ekki einu sinni neitt sérlega spennandi, eins og Alþingiskosningar geta svosem verið. Annars eru það forsetakosningarnar í USA, sem ég hef mestan áhuga fyrir. Sennilega fer þetta mest eftir áhuganum. Sumir, einkum þó frambjóðendur í Reykjavík, sem kváðu víst vera óvenjumargir að þessu sinni, kunna eflaust vel að meta bæjarstjórnarkosningar, en ekki hann ég.

Nú er ég kominn aftur eftir að hafa farið snögga ferð uppí Melahverfishálendið. Á leiðinni þangað hitti ég sex hesta sem voru ófáanlegir til að fara útaf veginum. Að lokum tókst mér þó að komast framhjá þeim og eftir það var leiðin greið. Engin snjóruðningstæki eins og í gær. Enda enginn snjór núna. Veðrið er svona hægt og hægt að skána. Kannski vorið komi bara á endanum. Í Maí á veðrið ekki að vera svona. Nú þegar bjart er orðið mestallan sólarhringinn má vorið og jafnvel sumarið alveg fara að koma.

IMG 8225Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Fyrir mörgu gerir grein,
á gamalmennabloggi,
steinolía mikið mein,
mælir þó með groggi.

Þorsteinn Briem, 6.5.2018 kl. 13:08

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Enn er Steini ekki mát
eða kominn nærri.
Ekkert sýnir fum né fát
þó fjúki margir stærri.

Sæmundur Bjarnason, 6.5.2018 kl. 13:20

3 Smámynd: Már Elíson

Steini er með gamlan gogg,
gerir alla grama.
Flúinn er hann Ómars blogg,
öllum er nú sama.

Már Elíson, 6.5.2018 kl. 23:19

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Svara Steina víst ég vil
og vísur margar hnoða.
Ekkert veit, og ekkert skil
afar fátt að skoða.

Sæmundur Bjarnason, 7.5.2018 kl. 06:53

5 Smámynd: Sigurður Kristján Hjaltested

Þó að vísur megi margar hnoða,

þá er eitt við Steina Briem.

........

Sæmundur þú kemur með botninn...:)

Sigurður Kristján Hjaltested, 7.5.2018 kl. 21:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband