2709 - Andvökur

Svefninn er mikil náðargjöf og hundleiðinlegt að vera andvaka. Aldrei er maður eins einmana og þegar maður er andvaka og einn með hugsunum sínum. Erfitt er að stjórna þeim. Þó má reyna. Kannski er maður þó ennþá meira einsamall í dauðanum, en um hann vil ég helst ekki hugsa, þó ég sé farinn að nálgast áttrætt. Vel gengur yfirleitt að forðast slíkar hugsanir og um forgengileika og tilgangsleysi lífsins. Enda æfingin mikil.

Fussum fei. Mannaþefur í helli mínum, sagði tröllskessan um leið og hún kom inn eftir að hafa verið úti alla nóttina. Naumlega hafði henni tekist að komast hjá því að sjá sólina og verða þar með að steini. Hin brennheita og stórhættulega sól var einmitt það sem tröllin þurftu einkum að vara sig á. Myrkrið og kuldinn eru þeirra ær og kýr. Þessvegna fer afar lítið fyrir þeim í birtunni á vorin og sumrin.

Þannig geta æfintýrin hljómað og með þeim má jafnvel koma tilveruótta og dauðahræðslu til skila til þeirra sem afar lítinn eða engan skilning hafa. Til dæmis til ómálga barna. Þegar börn gera sér í fyrsta skipti grein fyrir dauðanum og forgengileik lífsins má segja að nýr kafli hefjist í þeirra lífi.

Í heimspólitíkinni má segja að það langmerkilegasta sem á sér stað þessa dagana sé það sem er að gerast á Kóreuskaganum. Ef Norður og Suður-Kórea ná einhverskonar samkomulagi má hiklaust gera ráð fyrir að áhrif stórveldanna á heimsmálin minnki umtalsvert. Jafnvel þó Trump bandaríkjaforseti eigni sér allan heiður af því sem gerist í þessu fjarlæga heimshorni. Vel má ímynda sér að þetta auki enn á einangrunarstefnu hans og flóttamannahræðslu. Áhrif þessa á kosningarnar sem verða í bandaríkjunum í haust er þó engin leið að gera sér grein fyrir.

Við landamæri Mexikós og bandaríkjanna eru nú á annað hundrað flóttamenn sem vilja komast til bandaríkjanna. Þetta eru leifar mun stærri hóps, aðallega frá Guatemala og Honduras, sem Trump óttast mikið. Ástæðan til þess að þeir ferðast í hóp er sú að með því er hugmyndin að komast framhjá mexikóskum ribböldum og ræningjahópum, sem reyna gjarnan að ræna og myrða flóttamenn á leið til bandaríkjanna. Örlög þessa hóps gætu haft mikil áhrif á kosningarnar næsta haust í bandaríkjunum. Trump er áreiðanlega ekki skemmt og andstæðingar hans gleðjast mjög þessi dægrin.

Bæjar- og sveitarstjórnarkosningarnar hér á landi, sem verða í lok Maí eru að verða svolítið spennandi. Einkum þó í Reykjavík. Úrslitin þar má með vissum hætti heimfæra á landsmálin, þó ekki sé það einhlítt. Eyþór sjálfstæðismaður er Steina Briem hugstæður eins og sjá má á vísnainnleggi hans á þessu bloggi. Kannski heldur hann áfram að yrkja um Eyþór og vel er hugsanlegt að mér takist að svara í sömu mynt.

IMG 8277Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Sæmi ekki sefur rótt,
í soralegum heimi,
Eyþór dreymdi oft í nótt,
og allt hans ljóta teymi.

Þorsteinn Briem, 30.4.2018 kl. 14:59

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Yrkir Steini uppá grín
afar fínar stökur.
Heldurðu ekki heillin mín
það hafi kostað vökur.

Sæmundur Bjarnason, 1.5.2018 kl. 07:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband