2706 - Harpa Hreinsdóttir

Enginn vafi er á því að í utanríkismálum og skattamálum hefur Bjarni Benediktsson svínbeygt Katrínu Jakobsdóttur. Hvað skyldi hún hafa fengið í staðinn og hvenær kemur það fram? Það er hinsvegar alveg rétt hjá Katrínu að árangur næst ekki nema gefið sé eftir. Mér finnst samt að kjósendur VG þurfi að fá skýringar á hvað komi á móti eftirgjöfinni gagnvart NATO og ríka fólkinu. Annars held ég að það gæti hugsast að sú aðgerð sem mestum deilum hefur valdið nú nýlega verði einmitt til að lengja stríðið í Sýrlandi, en ekki til að stytta það.

Einhvern vegin er það svo að ég á aldrei í neinum erfiðleikum með að svara í ferskeytluformi Steina Briem sem að undanförnu hefur látið ljós sitt skína hér á blogginu mínu. Venjulega á ég ekkert sérlega gott með að semja vísur. Veit þó nokkurnvegin hvernig þær eiga að vera og hef alloft sett saman slíkar. Einu sinni var ég beðinn um að vera hagyrðingur á einhverjum fundi sem átti að halda. Líklega var það Bjarni frændi minn Harðarson sem bað mig um það. Því miður gat ég ekki orðið við þeirri bón og ég hef ekki verið beðinn oftar. Þannig er nú það.

Heimsmálin eru mér alla tíð ofarlega í minni og sinni. Kannski ég láti ljós mitt skína um loftárásirnar sem mest er um deilt þessa dagana. Þó ég sé alls ekki að mæla eiturvopnaárásum bót, virðist sem loftárásir Breta, Frakka og Bandaríkjamanna á skotmörk í Sýrlandi geti í framtíðinni orðið til þess að framlengja stíðið þar. Þar að auki er allsekki víst að þær hafi náð tilgangi sínum. Eiturvopn kunna enn að vera til í Sýrlandi og ekki er útilokað að þeim verði beitt í framtíðinni. Ekki er nein furða þó VG og Katrín Jakobsdóttir hafi fallist á þessa árás. Satt að segja hefði komið mjög á óvart ef á þeim bænum hefði verið tekið öðruvísi á þessu.

Í gegnum tíðina (er þetta ekki dönskusletta?) hef ég lesið margt bloggið. Núorðið hefur þeim fækkað nokkuð og ég hef eytt sívaxandi tíma á fésbókarfjáranum, sem allt ætlar að drepa. Þegar ég var að byrja að fikta við að blogga sjálfur voru blogg ekki nærri eins algeng og núna. Ég kalla það nefnilega blogg sem ýmsir láta frá sér fara á fésbókinni. Sumt þar er að vísu eins og hvert annað kaffispjall, eða jafnvel verra. Já, alveg rétt. Ég ætlaði að fjölyrða svolítið um það hverjir það eru sem hafa haft hvað mest áhrif á þessa bloggnáttúru eða ónáttúru sem ég er greinilega haldinn.

Fyrst þegar ég var að þessum fjára þá fylgdist ég einkum með Salvöru systur hans Hannesar Hólmsteins. Satt að segja er hún frábær bloggari. Seinna meir fylgdist ég vel með Ágústi Borgþóri meðal annars af því að hann vann um tíma uppá Stöð 2 og þar kynntist ég honum smávegis. Það er samt óhætt að fullyrða að helsti mentor minn í bloggfræðum hafi verið Harpa Hreinsdóttir. Hún er gift systursyni mínum, en það er ekki þessvegna sem ég dáist að bloggkunnáttu hennar og frásagnargleði heldur er hún afburða bloggari og segir frá af stakri snilld. Á tímabili var það eitt helst afrek mitt á þessu sviði að kommenta eða jafnvel sníkjublogga hjá henni. Seinna meir hætti ég því og fór að blogga sjálfur og hef síðan átt í mestu erfiðleikum með að hætta því.

IMG 0042Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ljótt er allt nú liðið Sveins,
langverstur þó Moggi,
best af öllum Harpa Hreins,
á hennar góða bloggi.

Þorsteinn Briem, 23.4.2018 kl. 12:33

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Sterkur er Steini núna
stoltur á sinni leið.
Mokar á Moggann lúna
mykju í stórri skeið.

Sæmundur Bjarnason, 23.4.2018 kl. 16:15

3 identicon

Sæmundur. Haltu áfram að blogga, því það er eina lýðræðisleiðin. Takk fyrir þína hreinskilni og gullkorn í gegnum árin.

Hér er eitthvað sem er öllum saklaust dæmdum til varnar sagt, eins og til dæmis "frjálsa" fanganum, sem "strauk" frjáls frá fangelsinu Sogni, fyrir stuttu síðan:

 

 

Mannorðmorðin dynja á

mörgum góðum mönnum

fráleitt er að finna þá

sektinni fyrir sönnun.

 

 

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir 23.4.2018 kl. 23:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband