2701 - Eplið, fésbókin o.fl.

Julian Assagne var sviptur netaðgangi sínum í sendiráði Ekvador eftir því sem ég las einhvers staðar. Hann var víst eitthvað að kommentera á Skribal-málið. Ekki er ég neitt hræddur um að verða sviptur netaaðgangi þó ég segi eitthvað um það mál.

Vel getur verið að sannanlegt sé að um eiturgas hafi verið að ræða þar, en samkvæmt þeim gögnum sem ég hef séð er ekki fullkomlega víst að Rússnesk stjórnvöld hafi vélað þar um. Ég held að frekar hafi þar ráðið aðildin að NATO en traust á Bretum að Íslendingar skárust ekki úr leik með öllu varðandi það mál. Mér datt allsekki í hug að Gulli mundi haga sér neitt öðruvísi í þessu máli. Spurningin í mínum huga er miklu fremur hvort hann geti bannað Guðna forseta að fara á Heimsmeistarakeppnina í fótbolta. Býst fastlega við að Guðna langi þangað. Hvað siðferði snertir hefur hann úr miklu hærri söðli að detta en Gulli. Eftir nýjustu fréttum að dæma þá ætla Rússar að hefna sín með því að reka álíka marga vestræna sendiráðsstarfsmenn úr Rússlandi og ekki er að vita hvar þetta endar. Bretar hafa a.m.k. sannfært einhverja um að þeir hafi rétt fyrir sér varðandi rússnesk stjórnvöld.

Eru viðskiptavinirnir helsta afurð fésbókarinnar? Þessu heldur forstjóri Apple fram. Er Apple annars eitthvað betra fyrirtæki en Facebook. Og svo er Trump sjálfur víst að ráðast á Amazon og finnst það fyrirtæki gína yfir of miklu. Musk sendir bara Tesla-bíla til annarra hatta. Maður veit eiginlega ekki lengur á hvað maður á að trúa. Microsoft er minna á milli tannanna á fólki en oft áður. Kannski er það bara best, eftir allt saman. Alþjóðlegu stórfyrirtækin eru varasöm.  

Nú skilst mér að kominn sé föstudagurinn langi. Samt er þetta víst ekki ryksugudagur þó hann sé langur. Í gær vorum við í fermingarveislu og í dag er fjölskylduhittingur hjá Bjössa og við ætlum að koma við hjá Benna á leiðinni þangað. Helena dóttir hans, sem er 5 ára var ansi fjörug og kunni vel við sig í veislunni í gær, þangað til hún datt og meiddi sig smávegis. Allir eru að kaupa og selja húsin sín núna skilst mér. Annars verður sennilega rólegt hjá okkur eftir þessa systkinaveislu og sennilega förum við ekkert meira um þessa páska.

Ég þyrfti að skrifa smávegis í viðbót til að geta sett þetta á bloggið mitt. Lesendum er sífellt að fjölga, en auðvitað eru þeir fáir ef ég skrifa ekki neitt. Annars er ég ekkert á leiðinni með að skrifa á hverjum degi, eins og einu sinni, þó ég hafi skrifað ansi þétt undanfarið. Sumir hafa ekki annað að gera en lesa um páskana og ekki er ég of góður til að þjóna þeim.

Fréttatengd efni höfða ekki til mín. Engar fréttir eru góðar fréttir. Sumir eru alltaf með símann á lofti, en ég get bara ekki vanið mig á það. Besti vinur sumra er greinilega síminn eða jafnvel fésbókin. Tala nú ekki um ef hægt er að sameina þetta tvennt. Ef enginn hringir eða ekkert er að frétta í fésbókinni má alltaf fara í tölvuleiki (jafnvel spurningaleiki) í símanum.

IMG 0066Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Sæmi varast símann kann,
úr söðli aldrei dettur hann,
á Facebook sjaldan fer í bann,
finnur oft sinn innri mann.

Þorsteinn Briem, 30.3.2018 kl. 12:42

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Undrabarnið eflaust hefur
eitthvað til síns máls.
Afslátt hér hann engan gefur
enda hugur frjáls.

Sæmundur Bjarnason, 30.3.2018 kl. 13:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband