2696 - Nei, ég er ekki dauður

Nei, ég er ekki dauður, en kannski ég breyti um verklagsreglur eins og mikið er í tísku núna um þessar mundir. Ástæðan fyrir því að ég hef ekkert bloggað að undanförnu er sú að ég hef verið í rúma viku í sumarhúsi við Húsafell. Þegar ég blogga eru það talsvert margir sem lesa það sem ég hef að segja. Líka hef ég tapað öllum bréfskákunum mínum því þegar ég fer í frí þá fer ég í frí.

Nú er ég semsagt búinn að vera í hálfan mánuð á Kanarí (í janúar) og rúma viku í/á Húsfelli og sennilega er að vora. Einhvern vegin verða menn að þreyja Þorrann og Góuna. Það er t.d. snjólaust og frostlaust hér á Akranesi núna og kannski kemur ekkert páskahret að þessu sinni.

Í bústaðnum las ég tvær bækur sem mér þótti nokkuð athyglisverðar. Sú fyrri er eftir Helga M. Sigurðsson og heitir að mig minnir: „Frumleg hreinskilni. Um Þórberg Þórðarson og mannlífið á mölinni í upphafi aldar“. Þessi bók er gefið út árið 1992 og fjallar eins og nafnið bendir til um Þórberg Þórðarson. Hann er að mörgu leyti uppáhaldsrithöfundur minn og af einhverjum ástæðum hefur þessi bók farið algerlega framhjá mér á sínum tíma.

Hin bókin sem ég las í bústaðnum var heimspekiritið: „Tilraun um heiminn“ eftir Þorstein Gylfason. Sumt í þeirri bók höfðaði alls ekki til mín, en mér þótti samt margt mjög athylisvert þar. Einkum það sem hann sagði um lýðræði og kosningafræði. Sumt af því hef ég reyndar heyrt áður og reynt að tileinka mér.

Áðan fór ég út að ganga. Þá gerði ég eftirfarandi vísu:

Fésbókin er faraldur,
finnast ekki meiri.
Skelfilegur skaðvaldur,
skaðar sífellt fleiri.

Annars er ekki grín að þessu gerandi. Sumir geta sennilega ekki á hálfum (eða heilum) sér tekið útaf því að þessi eina huggun þeirra lendir í vandræðum. Mér er reyndar alveg sama um fésbókarfjandann.

Ekki get ég látið hér við sitja, eftir allan þennan tíma. Samt er ég nú eiginlega þurrausinn í þetta sinn.

Þurrausinn í þetta sinn
þannig byrjar vísa.
Held ég fast um hausinn minn.
Hef ei neinu að lýsa.

IMG 0111Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Sæmi karlinn út um allt,
ekki hægt að lýsa,
á Akranesi ekki kalt,
undir honum Dísa.

Þorsteinn Briem, 22.3.2018 kl. 13:46

2 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Það er nú gott að þú sért ekki dauður heldur hafir bara verið í sumarbústað. Ekki gleyma samt þeirri aðvörun skáldsins að andlegi dauðinn hefjist með ást á sveitalífi.

Þorsteinn Siglaugsson, 22.3.2018 kl. 20:07

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Þetta með andlega dauðann er athyglisvert. Hvað skyldi Þórbergur segja um það? Þetta með astralplanið var einmitt eitthvað sem hann var spurður um þegar hann lá fyrir dauðanum. Var það annars hann sem sagði þetta með andlega dauðann? Alltaf heyrir maður eitthvað nýtt. 

Steina vildi ég bara spyrja um hver þessi Dísi sé. Kannast ekki við hann.

Sæmundur Bjarnason, 23.3.2018 kl. 16:59

4 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Rétt til getið, það var nú einmitt Sobeggi afi sem sagði þetta um andlega dauðann og sveitalífið

Þorsteinn Siglaugsson, 23.3.2018 kl. 18:01

5 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

... Dísi hlýtur að vera kærastinn þinn :)

Þorsteinn Siglaugsson, 23.3.2018 kl. 18:02

6 identicon

Sæll Sæmundur.

“Andlegi dauðinn hefst með værð, sívaxandi stemningasljóleik, hugsjónahruni og ást á sveitalífi.”

Þórbergur Þórðarson - Bréf til Láru.

Hefði svo sannarlega fellt mig betur við tilvitnun
Þorsteins Siglaugssonar hér að framan svo hnitmiðuð og gegnsæ
sem hún er.

Dásamlega Dísa mín
drottning vona minna
eru blessuð brosin þín
betri en allra hinna.

Ætli Steini hafi ekki haft þessa Dísu i huga?!

Húsari. 23.3.2018 kl. 18:15

7 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já, en Helgi M. Sigurðsson heldur því einmitt fram að þegar Þórbergur lá banaleguna hafi hann eitthvað verið farinn að efast um annað líf.

Margt af því sem Þórbergur heldur fram finnst mér vera argasta bull, en samt var hann mjög góður rithöfundur. Bæði HKL og Gunnar Gunnarsson finnst mér hafa staðið honum að baki.Hann skrifaði þó alltof lítið.

Sæmundur Bjarnason, 25.3.2018 kl. 12:44

8 identicon

Sæll Sæmundur.

Ekki er útilokað að túlkun eða mat á sálarástandi
Þórbergs á þessum tíma hafi verið röng.

Annars vegar er um að ræða þau 5 stig sem flestir/allir
fara í gegnum þá dauðinn er þeim kunnur og vís, -
skiptir engu hvort menn ganga í gegnum þau öll á nokkrum sekúndum
klukkutímum eða hafi til þess nokkra mánuði.

Hins vegar er himinn og haf á milli sáttar og síðan
þunglyndis og reiði sem auðfundið er í byrjun þessa
ferlis og eins og að framan er vikið þá
kann sá hinn sami sem um þetta fjallar að hafa misst af
stigi sáttarinnar og þeirrar uppljómunar er því kann að
hafa fylgt hjá Þórbergi er hann komst nær sínum innsta
kjarna, trúðsleikar að baki og hann gat leyft sér að vera hann
sjálfur ásamt og með því er honum var næst í huga.

Næsta eðlilegur er efinn sem oftast víkur fyrir persónulegri
reynslu og upplifun að lokum.

Húsari. 25.3.2018 kl. 23:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband