2680 - Skrefamælingar o.fl.

Þú og einn til viðbótar í viðbót. Segir fésbókin. Þetta finnst mér vera tátólógía hin mesta og óþarfi vera að tvítaka þetta. Og er ég dálítið hissa á að þeir íslenskufræðingar sem hljóta að standa að þessari bók bókanna skuli ekki koma auga á þetta.

Annars er það helst af mér að frétta að ég er ekki dauður ennþá. Afar lítið hef ég þó bloggað að undanförnu og stafar það annars vegar af því að ég er alveg óstjórnlega latur þegar ég vil það við hafa. Einnig var ég í hálfan mánuð á Kanaríeyjun í einskonar fríi frá öllu tölvu- fésbókar- og bloggtengdu, en afskipti af slíkum málum eru einkum það sem ég geri núorðið. Fyrir utan að klæða mig og hátta auk þess að éta eins og svín.

Kannski segi ég seinna frá þessari ferð minni hér á bloggvöllum. Einkum fer það sem ég sá og heyrði þar samt í reynslubankann og í rauninni er ekki frá mörgu að segja. Íslendingar voru þarna mjög fáir (sem betur fer) og ekki var þetta á ensku ströndinni svokölluðu þó þetta hafi verið á Gran Canary. Maturinn þarna var mjög góður og mikill og aðstaða öll frábær.

Í allmörg ár hef ég notað í símanum mínum forritið Caledos runner til að segja mér hvað tímanum líður og hve langt ég hef farið. Auk þess get ég eftirá séð nákvæmlega hvaða leið ég hef farið. Nú er komið í ljós að með upplýsingum frá forritum af þessu tagi (einkum eru nefnd forritin Fitbit og Jawbone) má fylgjast með ýmsu, því þau eru notuð af mörgum. T.d. gaf bandaríski herinn allmörgum hermönnum Fitbit til að berjast gegn offitu. Nota má upplýsingar frá þessum forritum, sem eru aðgengilegar öllum (eða voru a.m.k.) til þess að finna leynilegar herstöðvar og hvar hermenn gjarnan safnast saman. Skrefamælar eru nefnilega í mörgum þessara tækja og ekki taka allir tækin af sér þegar þeir eru ekki að æfa sig.

Sumir kunna að telja að upplýsingar af þessu tagi séu jákvæðar en aðrir að þær séu neikvæðar. Ég ætla ekki að dæma um það, en mér þóttu þessar upplýsingar athyglisverðar og sýna vel hve tæknin getur verið margslungin.

Ætli ég hafi þetta ekki bara í styttra lagi að þessu sinni.

IMG 0376Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband