2673 - "MeToo"

Sennilega er þetta „MeToo“ mál stærra en flestir (karlmenn) gera sér grein fyrir. Þetta með feðraveldið er ekki neinn orðaleikur. Heldur bláköld alvara. Karlmenn hafa kúgað konur í aldaraðir. Undanfarin ár og áratugi hefur, a.m.k. hér á Vesturlöndum, miðað nokkuð í réttlætisátt og við karlmenn, það er að segja þeir sem ekki eru sekir um að viðhalda þessu, höfum getað huggað okkur við það að kannski sé hægfara þróun best. Kvenfólki finnst það greinilega ekki og við því er ekkert að segja.

Í framtíðinni gæti árið 2017 orðið það ár sem konur (og karlar) minnast sem ársins þegar feðraveldinu var veitt „MeToo“-sárið hræðilega. Vonum það.

Ef maður hefði ekki tölvuna og Internetið til að hugga sig við þegar maður verður óvænt virkilega andvaka þá veit ég ekki hvernig andlega líðanin yrði. Áður fyrr hefur fólk kannski notað bækur á svipaðan hátt. Það versta við þessar andvökur hjá mér er að þær eiga sér einkum og kannski eingöngu stað af hugrænum ástæðum. Heilinn er kannski eitthvað að bila. Kannski liði mér betur ef ég gæti kennt einhverju öðru um. Svo undarlegt sem það er þá er kaffi einhvert besta svefnmeðalið sem ég þekki. Imovan eða Stillnoct vil ég helst ekki taka. Ekki frekar en verkjatöflur. Hinsvegar er ég veikur fyrir plástrum eins og krakkarnir og vil helst setja þá sem víðast.

Aldraðir, sumir a.m.k., hafa lítið annað fyrir stafni á daginn en að fylgjast með fréttum, veðri, tónlist eða öðrum ósköpum. Leiðinlegt er að fréttir virðast vera næstum því óþrjótandi og mest fer það eftir fésbókaráhuga og stjórnmálaskoðunum hvaða fréttir er mest hlustað eða horft á. Sumir lesa helst blogg eða eitthvað þessháttar og sem betur fer hafa sumir (fáeinir) gaman af að skrifa slíkt. Fésbókin er aftur á móti... Æ, ég nenni ekki að fara að fjasa um hana einu sinni enn. Held svei mér þá að Morgunblaðið sé skárra. Læt samt duga að lesa mbl.is stöku sinnum. Það er að segja þegar allt um þrýtur. Það ryðst þó ekki inná mann saklausan eins og dévaffið gerir.

Stundum skrifa ég oft. Stundum sjaldan. Eiginlega er engin regla á þessu. Skrifa að því er mér finnst sjálfum líka oftast nær á þann hátt að ég er ekki eingöngu að bregðast við fréttum. Stundum dettur mér jafnvel eitthvað frumlegt í hug. Ekki er það þó algegnt. Best er að hafa bloggin stutt. Þá eru meir líkur á að þau séu lesin til enda. Kannski þetta sé bara að verða nógu langt að þessu sinni.

Auðvitað á Sigríður Andersen að víkja sæti sem ráðherra. Það er einfaldlega ekki boðleg röksemd í siðferðilegum efnum að halda því fram að einhver annar hafi áður lent í svipuðum málum og þá hafi hitt og þetta verið gert. Við verðum að gera ráð fyrir að siðferðilega sé um framfarir að ræða. Annars heldur bilið milli þings og þjóðar áfram að aukast. Punktur og basta. (eða pasta.)

IMG 0328Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þvílíkt kjaftæði. 
Karlmenn hafa það almennt verra í samfélaginu en konur. Strákar og unglingar sérstaklega. 
Alls stðar í samfélaginu fá konur frekar sérmeðferð heldur en hitt. 
Samkvæmt öllum rannsóknum og könnunum er kynferðisleg áreitni mjög lítil, sbr. rannsókn Reykjavíkurborgar 1/500 sem höfðu orðið fyrir áreitni yfir heilt ár. 

90% karlmanna sem verða fyrir ofbeldi.
Síðan getum við talað um tálmunarmál, sem er stórt vandamál meðal kvenna, og margfalt stærra vandamál, en meint grasserandi kynferðisleg áreitni. 

Ekki vera reyna gera þig stærri, þó að þú álitir sjálfan þig karlpung sem óalanadi og óferjandi. 

Samskipti kynjanna verða alltaf að einhverju leyti á gráa svæðinu. 

Arnar Bj. 22.12.2017 kl. 06:25

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Ég er bara alls ekki sammála þér Arnar Bj.

Þessar tölur sem þú nefnir eru hugsanlega slitnar úr samhendi.

Að sjálfsögðu hefur þú leyfi (frá mér og öðrum) til að hafa þínar skoðanir, en persónulegar svívirðingar ætti af forðast.

Gleðileg Jól.

Sæmundur Bjarnason, 23.12.2017 kl. 09:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband