27.9.2017 | 23:27
2649 - Pólitík o.fl.
Ég álít síðustu ríkisstjórn hafa fallið vegna tilrauna formanns Sjálfstæðisflokksins til hins venjulega leynimakks. Ef Bjarni Benediktsson hefði hunskast til að segja tvíeykinu Benedikt og Óttarri frá þessu með pabba sinn, þá sæti þessi ríkisstjórn líklega ennþá og ekki væri neitt fararsnið á henni.
Þetta er sannleikurinn í málinu. Það er leyndarhjúpurinn sem Bjarni vildi setja á málið sem felldi ríkisstjórnina. Framhjá því verður ekki komist. Sama hve miklu moldviðri Sjallar reyna að þyrla upp. Kannski tekst þeim einu sinni enn að verða stærsti flokkurinn að kosningunum 28. október afstöðnum, en ólíklegt er að þeir sitji í næstu ríkisstjórn. Andstæðingar þeirra munu reyna eftir mætti að koma í veg fyrir það. Og kannski eru allir hinir flokkarnir það.
Hanaslagur í Mosfellsbæ. Þetta er greinilega margslugið mál, sem vafist hefur lengi fyrir mönnum. Gefnar hafa verið út bækur um ómerkilegri mál og nú bíð ég málþola eftir frekari upplýsingum um þetta mikilsverða mál. Æviágrip hanans og hænanna hef ég t.d. hvergi séð. Tilgangslaust er að halda því fram að svo mikilsverð atriði skipti ekki máli. Sömuleiðis þarf ítarlega greinargerð um upphaf þessa máls og ferðalag þess um völundarhús valdsins fram að þessu. Hvernig hæstiréttur getur dæmt í þessu máli án aðstoðar sérfræðinga er mér með öllu hulið. Ég fer fram á að opinberir aðilar og sannanlega óvilhallir skýri frá öllum hliðum þessa máls og ljúki því fyrir komandi kosningar, því þar getur það haft veruleg áhrif.
Kannski Bjarni Ben. gæti fengið vinnu vesturfrá hjá Tromparanum, Hann er hvort eð er alltaf á leiðinni þangað. Annars finnst mér spáin hjá Birni Birgissyni (enn eitt BB-ið) um þingsætafjöldann hjá flokkunum ekki svo vitlaus. Verst að með því fá íhaldsflokkarnir tveir (Sjallar og VG) hreinan meirihluta. Við því er samt ekkert að gera og það er óskastjórn BB og kannski Katrínar líka.
Miðað við síðustu fréttir úr henni Amríku er spurning hvað Tromparanum kemur við. Í stað þess að formæla íþróttamönnum gæti hann t.d. reynt að skilja „elflaugamanninn“ betur. Trump og hann láta eins og óþekkir krakkar, sífellt öskrandi á hvorn annan. Allir eru löngu hættir að taka mark á þessu. Þeir einu sem skaðast er almenningur í Norður-Kóreu. Ekki er samt líklegt að hann snúist af svo miklu afli gegn einræðisherranum að það endi í byltingu. Til þess er heilaþvotturinn of mikill.
Það er ekki að ófyrirsynju að Sjálfstæðismenn eru oft kallaðir íhaldsmenn. Yfirleitt vilja þeir engu breyta, hvort sem um er að ræða stjórnarskrá eða útlendingalög. Auðvitað er það út af fyrir sig virðingarverð afstaða að vilja ekki breyta því sem reynst hefur sæmilega. Það er samt hægt að ganga of langt í þessari viðleytni. Mér finnst Sjálfstæðismenn yfirleitt ganga of langt í þessum málum. Vitanlega er líka varhugavert að breyta bara til þess að breyta. Sjá jafnvel ekki fyrir hver áhrif breytingarinnar verða. Þar finnst mér að vinstri menn gagni stundum of langt. Breytingar sem þeir boða eru stundum greinilega bara settar fram til að valda íhaldsmönnum í öllum flokkum vandræðum. Hjá því getur hins vegar aldrei farið að ýmsu þurfi að breyta í ljósi reynslunnar.
Athugasemdir
Er ekki langbest að D+V fari saman í stjórn? Er ekki betra að í ríkisstjórninni sé jafnvægi milli hægri og vinstri en að sífellt sé verið að breyta um stefnu í landsstjórninni?
Þorsteinn Siglaugsson, 28.9.2017 kl. 08:59
Þorsteinn
D+V mundi núllast út í epísku aðgerðaleysi. Það yrði ofuríhaldsstjórn.
Sigþór Hrafnsson 28.9.2017 kl. 12:23
Aðgerðaleysi er mikill kostur á ríkisstjórn :)
Þorsteinn Siglaugsson, 28.9.2017 kl. 21:04
já, en Þorsteinn minn, stefnan hjá þessum flokkum er hérumbil sú sama.
Sæmundur Bjarnason, 4.10.2017 kl. 08:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.