2639 - Bullandi góðæri um allt

Í dag er okkur sagt að sé bullandi góðæri á Íslandi. Það góðæri er fyrst og fremst fyrir þá sem mikla peninga eiga fyrir. Þegar þeir eru búnir að græða aftur allt sem tapaðist hugsanlega áður fyrr á árunum mega þeir fátæku og smáu ef til vill fara að éta annað en það sem úti frýs. Það er allsekki útilokað að einhvern vegin þannig hugsi þeir sem minna mega sín í þjóðfélaginu eða þjófafélaginu og að mörgu leyti hafa þeir rétt fyrir sér. Allt sem snýr að þeim efnaminnstu mætir afgangi. Fyrirtækin og þeir sem þeim stjórna og þau reka verða fyrst að fá sitt svo hjól atvinnulífsins fari að snúast aftur. Svo má fara að huga að hinum.

Vegna hinna félagslegu miðla hafa hinir sem minni máttar eru hærra en áður. Fésbókin er fjömiðill hinna fátæku og einhvern vegin er það svo að þeir sem eitthvað eiga undir sér eru skíthræddir við hana. Sumir fjölmiðlar taka mikið mark á henni og þó hún geri stundum fullmikið úr hlutunum er því ekki að neita að með þessu hafa þeir sem ekki gátu látið til sín heyra áður fyrr, vegna hliðvarðanna á flokksfjölmiðlumum, nú öðlast rödd sem margir taka mark á. Hugsanlega hefur þetta breytt mjög stjórnmálunum og ekki harma ég það.

Sennilega eru risaeðlur svona vinsælar hjá börnum og unglingum af því að þær stærstu þeirra minna óneitanlega á drekana úr margskonar ævintýrum. Eðlur þessar er álitið að hafi dáið út fyrir milljónum ára. Einnig er á það að líta að víða hafa bein úr þeim fundist og af þeim má ráða að sumar þeirra hafi verið geysistórar. Eðlur nútímans er flestar fremur lítil kvikindi, hægfara og láta lítið fyrir sér fara. Undantekningar eru þó til.

Þorvaldur Gylfason bloggar þindarlaust í Fréttablaðið. Margir lesa það efalaust. Oftast er það mjög vel samið hjá honum. Blaðið gerir því sem hann skrifar fremur hátt undir höfði. Satt að segja finnst mér það sem hann skrifar stundum fullpólitískt. Það er að segja flokkspólitískt. Í sjálfu sér eru allir hlutir pólitískir ef út í það er farið. Oft getur verið erfitt að líta á hluti án flokkspólitískra gleraugna. Oftast reyni ég það þó.

A.m.k. í tvö undanfarin skipti hef ég kosið Píratana og vel er hugsanlegt að ég haldi því áfram. Afstöðu verður að taka þó erfitt sé. Öll mál eiga að vera opin og gagnsæ sé þess nokkur kostur. Yndi stjórnmálamanna af gamla skólanum er að gera sem allra flesta hluti leynilega. Og reyna svo að stjórna með hótunum, lygi og þjófnuðum.

Minning úr Hveragerði. Sennilega frá því um 1950 eða svolítið fyrr. Þegar Bjarni á Bóli rak kýrnar niður að réttum á morgnana eltum við krakkarnir hann og beljurnar gjarnan því það var þó allavega tilbreyting. Þegar einhver beljan í hópnum lyfti upp halanum og gerði sig líklega til að skíta var það íþrótt hjá okkur að setja hendina undir og kippa henni svo að sér á síðustu stundu þegar klessan var lögð af stað. Einhverju sinni varð Gaggi aðeins of seinn við að kippa að sér hendinni og fyrr en varði var hann með fulla lúkuna af nýskitinni kúadellu og vissi ekkert hvað hann ætti að gera við hana. Við hin hlógum að þessum atburði.

IMG 1114Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband