2629 - Æsingsóráðsheilkenni

Þetta er greinilega orð dagsins. Ég treysti mér varla til að skrifa það aftur. Æsingsóráðsheilkenni. Þegar stjórnvöld eru komin út í horn finna þau bara upp nýtt orð. Halda greinilega að það útskýri allt. Aldrei hef ég heyrt þetta orð fyrr og því er greinilega slengt fram til þess að rugla fólk í ríminu. Kannski er þetta viðurkennt orð í einhverjum fræðum, en mér er alveg sama. Þetta útskýrir ekki neitt. Dómstóll götunnar er það sem gildir. Stjórnvöld vilja greinilega deila og drottna. Eiginlega er þetta dálítið Trumplegt orð.

Þessi áhugi minn á Trump er óheilbrigður. Eiginlega er mér alveg sama um hann. Heimsfriðurinn veltur kannski dálítið á honum, en allsekki á mér. Auðvitað hagar hann sér stundum furðulega og segir kjánalegustu hluti en eitt er alveg rétt hjá honum. Pressan (og þá á ég við fjölmiðlana í víðum skilningi) er á móti honum og satt að segja er það engin furða. Hann hagar sér allsekki eins og forsetar eru vanir að gera. Sennilega álítur pressan að þannig eigi allir forsetar að vera. Að umbætur á stjórnkerfinu skuli koma frá hægri er snöggtum meira en við Evrópubúar getum almennilega sætt okkur við. Umbætur eiga að koma frá vinstri. Bandaríkjamenn eru bara svo skrítnir. Þeir virðast halda að ríkið megi allsekki skipta sér af nokkrum hlut. Auðvitað verður það til þess að þeir sem ríkastir eru ráða því sem þeir vilja.

Alltaf er það eitthvað sem maður á ógert og vill þó gjarnan koma í verk. Röðin á því sem maður vill þó gera skiptir líka töluverðu máli og furðulegustu hlutir geta haft áhrif á hvernig maður vill hafa þá röð. Það sem maður gerir eða gerir ekki og í hvaða röð maður gerir það sem maður þó gerir, hefur sömuleiðis mikil áhrif á samband manns við annað fólk. Útfrá því dæma margir aðra. Fólk er þó furðulega líkt, en á sama tíma einkennilega ólíkt hvert öðru.

Bjarni fór í ferðalag í gær með fjölskylduna. Lék sennilega túrista og fór víða um Suðurland. Líklega hefur margt í því ferðalagi komið Tinnu á óvart og sömuleiðis kannski Charmaine líka. Bjarni sjálfur er Íslendingur á besta aldri og eflaust hafa hlutirnir ekki komið honum jafnmikið á óvart. Safnið á Skógum skoðuðu þau m.a. og eflaust hafa þau hrifist af því eins og fleiri.

Annars er sennilega best að koma þessu frá sér sem fyrst. Annars gæti ég fengið æsingsóráðsheilkenni. Þykkvabæjarheilkenni talaði Atli frændi einu sinni um, en það er víst alltöðruvísi.

IMG 1379Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gòđur og skemmtilegur penni.

gudlaug hestnes 5.8.2017 kl. 00:06

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk. Þetta verður til þess að ég man vel eftir þér. Sú var þó tíðin að mun meira var kommentað hér. En það var áður en fésbókin varð svona gríðarlega vinsæl.

Sæmundur Bjarnason, 7.8.2017 kl. 11:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband