22.2.2017 | 10:35
2577 - Þetta sagði Styrmir:
Ég er búinn að fylgjst með þessu þjóðfélagi í 50 ár. Þetta er ógeðslegt þjóðfélag, þetta er allt ógeðslegt. Það eru engin prinsipp, það eru engar hugsjónir, það er ekki neitt. Það er bara tækifærismennska, valdabarátta.
Ætli þetta séu ekki frægustu ummæli allra tíma. A.m.k. nú um stundir og hér á ísa köldu landi. Vissulega hafði hann sem Moggaritstjóri betra tækifæri en flestir aðrir til að fylgast með þessu öllu saman. Margir hafa tekið þessum orðum fagnandi, enda eru þau svosem á margan hátt alveg sönn. Margt annað er auðvitað líka ansi þreytandi, fyrir utan spillinguna og hrossakaupin. Nenni ekki einu sinni að telja það upp.
Aftur á móti segir Jónas Kristjánsson þetta um fésbókina. Og ég er eiginlega alveg sammála honum. Samt er ég ósammála báðum þessum mönnum um margt annað.
"Ég nota fésbókina. Ekki því hún sé svo góð, heldur því hún er svo stór. Stærsti fjölmiðill heimsins. Gerir mér kleift að birta skoðanir á ýmsum sérsvæðum, til dæmis pírata. Gerir fólki kleift að dreifa skoðunum mínum með því að tengja þær inn á sín svæði. En fésbókin er ekki mín eign. Má loka á mig, hvenær sem er. Má sóa tíma mínum við að komast aftur í samband. Fésbók sýnir mér það efni, sem hún telur mig vilja sjá. Magnar þannig hugsanlega fordóma mína. Bloggið er að mörgu leyti betra. En nafnlausir virkir í athugasemdum ganga þar um á skítugum skóm. Svo ég loka á þá, hef opið á fésbókinni."
Sverrir Stormsker er sóðakjafur. Kannski tilheyri ég góða fólkinu hans en því fer oftast fjarri að ég sé sammála honum. Þó ég sé Moggabloggari nenni ég ekki að lesa slíkt sorprit sem Mogginn er. Les samt mbl.is stundum. Mér er sagt að Sverrir sé farinn að skrifa í Moggann beint og ekki er ég hissa á því. Auðvitað er hann orðheppinn og allt það, en skoðanir hans tek ég ekki undir. Illa er komið fyrir frjálshyggjupostulunum eftir að Hannes Hólmsteinn hætti að mestu með sína Davíðssálma. Ekki er gæfulegt að þurfa einkum að treysta á Sverri og Pál Vilhjálmsson.
Þrátt fyrir allt gæti ég þó stutt sumt sem Ástþór hefur sagt um forsetaembættið. Er Sverrir annars ekki helsti stuðningsmaður hans? Sennilega bætir hann svona litlu fylgi við sig þessvegna.
Einhversstaðar heyrði ég að búast megi við úrskurði svokallaðrar Endurupptökunefndar um Guðmundar og Geirfinnsmálið næstkomandi föstudag. Eflaust munu margir fylgjast með þeim úrskurði. Landsmenn vita vel að sá dómur var rangur. Samt er það alveg augljóst að úrskurður þessarar nefndar skiptir miklu máli. Þó ekki væri annað þá skiptir hann eflaust máli hvað skaðabætur varðar og opinbera sakaruppgjöf. Lögregluna og dómstóla alla getur þetta líka skipt miklu máli og svo auðvitað þolendur og skyldmenni þeirra. Hvað sem öllu líður ætti þetta eldgamla mál að fara úr opinberri umræðu við þetta. Mannshvörf eru alltaf grunsamleg. Vel getur verið að eftir þetta komi fram nýjar upplýsingar.
Ekki var það ætlum mín í upphafi að hafa þetta blogg mitt mestmegnis tilvitnanir. Mér gengur samt illa að taka upp léttara hjal. Þó vildi ég það gjarnan. Ekki er ég hissa á þessari kröfu margra um að hamast við að skemmta sér. Kannski væri það bara best. Einhverjir lesa samt bloggið mitt. Ekki lái ég þeim það. Um að gera að hætta að bölsótast. Sumir gera varla annað.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.