2565 - Obama og Trump

Var lengi vel að vona að Birna sú Brjánsdóttir sem leitað er að núna væri ekki dóttir Brjáns Guðjónssonar, sem ég kannast nokkuð vel við af netinu þó ég hafi aldrei séð hann. Nú áðan þorði ég í fyrsta sinn að fara inná fésbókarsíðuna hans og sé að sú von mín er ómark. Ég þarf ekki að taka fram að hugur minn er hjá honum og ég vona svo sannarlega að hún finnist lifandi. Þetta er þyngra en tárum taki. Að undanförnu hefur samband okkar á netinu minnkað en samt man ég vel eftir honum. Megi allar góðar vættir styðja þig Brjánn minn.

Obama Bandaríkjaforseti hamast nú við að taka til á skrifborðinu hjá sér áður en Trump og hans menn taka við þann tuttugasta janúar, eða á föstudaginn kemur. Ekki getur hann víst staðið við að loka Guantanamo-fangabúðunum eins og hann lofaði, en ýmislegu öðru má reyna að koma í verk áður en óvinurinn sjálfur tekur við.

Ekki er víst að Trump takist að afturkalla allt sem Obama hefur gert en vissulega mun hann reyna. Margt bendir til að óánægjan með Donald Trump sé meiri en venjulegt er með forseta þar um slóðir. Stórblöðin flest, demókratar næstum allir, meira að segja margir repúblikanar og fleiri eru alfarið á móti honum, en samt styðja ýmsir hann og þó búast megi við að honum verði stórlega á í alþjóðasamskiptum er því ekki að neita að margir Bandaríkjamenn styðja hann þó og óttalegir trúarnöttarar og fordómafullir einstaklingar eru áreiðanlega þar á meðal.

Rétt kjörinn forseti er hann líka þó margir vilji kenna ýmsu öðru en heiðarleika um kosningasigur hans. Andstæðingur hans Hillary Clinton hefur viðurkennt ósigur sinn fyrir honum. Sagt er að Obama forseti hafi verið því fylgjandi að hún gerði það. Þegar kjörmennirnir komu saman í höfuðborgum ríkjanna í desember s.l. kusu líka mun fleiri Trump en hana eins og þeim var uppálagt. Atkvæði vega misjafnlega mikið þar í Guðs eigin landi ekki síður en annarsstaðar m.a. hér á Íslandi.

Átta menn eiga meiri eignir en helmingur mannkyns. Þetta fullyrðir Newsweek og hefur eftir öðrum. Ískyggilegt er að fáir hrökkva við. Allir vita að auðæfum heimsins er ákaflega misskipt milli landa, þjóða, svæða, heimsálfa og einstaklinga. Svo hefur lengi verið. Fyrr eða síðar mun þetta valda miklum vandræðum. Það eru þeir allra ríkustu sem eru manna ólíklegustir til að skilja þetta og er það skaði því þessvegna mun seint verða ráðin bót á þessu nema með miklum látum. Kommúisminn er ekki lausnin. Kapítalisminn ekki heldur. Skandinavisminn sem ég vil kalla svo er líklegri. Með öðrum orðum þá held ég að t.d. að það skipulag sem í gildi er í Svíþjóð og Noregi og fleiri ríkjum, sé mun líklegra til að koma í veg fyrir þriðju heimsstyrjöldina en Bandaríkin, Rússland og Kína. Þá miða ég ekki sérstaklega við Trumpismann eða Merkelismann.

Auðvitað getur Trump valdið miklum skaða á fjórum, svo ég tali nú ekki um átta árum. Hætt er við að andstæður Norðurs og Suðurs muni aukast. Bandaríkin einangrast. Kalda stríðið magnast o.s.frv. á þessum tíma. Pútín muni koðna niður og Kínverskir leiðtogar koma fram á sjónarsviðið. Nú er ég farinn að spá en það vil ég helst ekki. Enda er sem betur fer oftast lítið að marka það.

Til eru þeir Íslendingar sem virðast halda eða vilja gjarnan halda, að boltaleikir hvers konar séu það sem veröldin snúist um. Vitanlega er þægilegt að sýna slíkum leikjum sem mestan áhuga en nauðsynlegt er að skilja að þó íslendingum gangi sæmilega í sumum boltaleikjum í bili og jafnvel í öðrum íþróttagreinum einnig, þá hefur það lítið að gera með hvernig þjóðinni farnast á þeim sviðum sem meira máli skipta um afkomu hennar.

IMG 2278Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er góð grein. Vel skrifuð, á góðu máli og sanngjörn.

Trump á eftir að valda ómælanlegum skaða fyrir fyrir allt mannkynið. 

Einasta von okkar Bandaríkjamanna er að hann verði leiður á starfinu og hætti, áður en hann gerir of mikið af sér. Allir ráðherrar hans eru eins og úr revíu eða skopþætti. Til dæmis er tilvonandi menntamálaráðherra kona, sem er milljarðamæringur vegna arfs. Hún hefur aldrei komið nálægt kennslu- eða menntamálum og aldrei gengið í barnaskóla. Margir öldungadeildarmenn repúblikana, sem eiga að dæma um hæfni hennar í næstu viku, hafa þegið morð frá frá henni í kosningasjóði sína. Dómsmálaráðherraefnið var dæmdur óhæfur í alríkisdómarastöðu fyrir mörgum árum vegna kynþáttahaturs. Hann er öldungadeildarmaður og hfur alltaf verið á móti hagsmunamálum kvenna og minnihlutahópa..Ráðherraefni umhverfismála hefur staðið í málaferlum við yfirvöldin vegna mengunar og loftslagssóðaskaps. Sama gildir um alla hina, óhæfir í þau störf, sme þeim eru ætluð.

Útlitið er ekki gott hér vestra.

geir magnusson 18.1.2017 kl. 10:16

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk Geir. Ég er ekki svo viss um að Trump valdi miklum skaða í Bandarísku þjóðlífi. Allskonar ákvæði valda því að völd hans þar eru ekki mjög mikil. Áhrifavald hans ætti þó að vera mikið. Andstaðan við hann er líka mikil. Óvenjumikil held ég. Aftur á móti getur hann haft mikil áhrif á utanríkisstefnu Bandaríkjanna og þar held ég að aðrir leiðtogar geti haft áhrif til batnaðar. Verst ef Trump hlustar ekkert á þá!!

Sæmundur Bjarnason, 18.1.2017 kl. 10:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband