2563 - Mannréttindi

Nú er ekki lengur nóg að vera tattóveraður, kolefnisjafnaður og aflitaður heldur þarf víst að vera vegan og í rauðakrossfötum líka. Allt er þetta gert til þess að ná hugsanlega hundrað ára aldri. Eina afsökunin fyrir því að fá að deyja fyrir aldur fram er nútildax sú að vera poppsöngvari eða frægur leikari/leikkona. Auðvitað er það ekki öllum gefið og sumir grípa til þess örþrifaráðs að farga sér tímabundið án þess að hafa öðlast nægilega frægð. Það nefnist geðveiki og er víst allra meina bót.

Ef ég væri í fullu fjöri og fengi borgað fyrir það, mundi ég kannski skrifa meira, því segja má að skrif allskonar séu mínar ær og kýr. Jafnvel væri hægt að segja að ég sé bara alveg sæmilegur bloggari. Auðvitað finnst mér að miklu fleiri ættu að lesa það sem ég læt frá mér fara. Ekki get ég þó neytt neinn til þess.

Samt er mesta furða hve margir lesa þetta. Stundum veit ég varla sjálfur hvað er raunveruleiki og hvað er ímyndun. Auglýsingastarfsemi og promotion hverskonar á þó fremur illa við mig og jafnvel er of seint að stunda slíkt núna því ég gerist það aldraður að hugsalega er lífinu að ljúka hjá mér og að sumu leyti má segja að ég hafi sólundað því. Hálfkæringur og kaldhæðni eru samt eiginleikar sem ég þykist hafa á valdi mínu. Alvarlegur er ég þó alltaf inn á milli.

Mannréttindi eru á undanhaldi í heiminum. Sigur Trumps í forsetakosningunum í Bandaríkjunum er til marks um það. Segja má að hann hafi komist til valda með ófyrirleitni, skítkasti, lygum, kynþáttafordómum og ýmsu öðru miður fallegu. Engu að síður verður að taka tillit til hans og sjónarmiða hans. Segja má að andúð sú á flóttamönnum og hælisleitendum sem vart hefur orðið víða í Evrópu, framkoma Dutertis á Filippseyjum og annarra harðstjóra og ríkisstjórna víðsvegar um heiminn t.d. í Kína og Rússlandi ógni á ýmsan hátt mannréttindum. Já, jafnvel má segja að lýðræðið sé ekki sú allra meina bót sem haldið hefur verið fram.

Viljandi hef ég ekkert minnst á stríðið í Sýrlandi. Þar má segja að stórveldin takist á. Rússar eru að mínu viti að reyna að gera sig gildandi aftur eftir að hafa tapað eftirminnilega í kalda stríðinu. Við verðum að sæta því að vera á áhrifasvæði Bandaríkjanna fremur en Kína og Rússlands. Mannréttindin margumtöluðu eru samt ekkert betur komin hjá Saudi-Arabíu en í Kína eða Rússlandi. Já, eða t.d. í Tyrklandi. Um þetta allt saman ætla ég ekki að fullyrða mikið enda skortir mig þekkingu til þess.

IMG 2380Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Sagði ekki Churchill að lýðræðið væri versta stjórnarformið - fyrir utan öll hin?

Líklega gengur lýðræði aldrei upp nema í samfélögum þar sem djúpstæð virðing ríkir fyrir grundvallarréttindum einstaklingsins. Annars endar það væntanlega í skrílræði - eða þá einræði.

Þorsteinn Siglaugsson, 13.1.2017 kl. 19:20

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Jú, lýðræðið getur verið meingallað. Hægt er að færa sannfærandi rök fyrir því að menntað einveldi geti verið betra. Líkurnar fyrir því eru samt minni en með lýðræðinu og auðveldara að losna við lýðræðislega kjörnar stjórnir.

Sæmundur Bjarnason, 14.1.2017 kl. 11:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband