2540 - Hannesarholt og Doddsson

Ég fer ekki ofan af því, að stærsta ástæðan fyrir sigri Trumps í Bandaríkjunum hafi verið andstaða hans við hin hefðbundnu stjórnmál. Þeir sem kusu hann kusu hann þrátt fyrir alla hans galla vegna þess að þeir voru hundleiðir á ríkjandi stjórnvöldum og fannst þau ekki hafa gert neitt fyrir sig á undanförnum árum. Sama finnst mér hafa gerst varðandi Brexit og ég á von á því að svipað gerist í Frakklandi næsta sumar.

Nú getum við snúið okkur að stjórnarmynduninni hér heima. Sennilega tekst Katrínu Jakobsdóttur að mynda fimm flokka stjórn, þó mikið hafi verið reynt að halda því fram að slíkt væri ekki gerlegt. Ein af ástæðunum fyrir þessu haldi mínu er sú að með því móti má halda Sjálfstæðisflokknum frá stjórnartaumunum og líka er kominn tími til að sýna fram á að þetta sé hægt. Íhaldssamastir allra í þeirri stjórn verða sennilega Vinstri grænir. Þeir eru nauðalíkir Sjálfstæðismönnum að því leyti að þeir vilja helst ekki breyta neinu.

Enn er verið að telja atkvæði í Bandaríkjunum. Nú er heildarstigafjöldi Clinton kominn í hálfa aðra milljón framyfir Trumparann. Ekki dugar það til að koma kjaftaskinum frá því hann nýtur þess sama og Framsóknarflokkurinn hér að sveitaatkvæði eru öðrum fremri.

Skelfing er fésbókin annars leiðinleg. Ég mundi missa af öllum safaríkustu kjaftasögunum ef ekki væri fyrir DV. Þó kaupi ég þann leiðindasnepil alls ekki. Hann ryðst samt inná mig á fésbókarfjáranum og fræðir mig m.a. á því að Salvör systir hans Hannesar sé nú búin að móðga gjörvalla listaelítuna á Íslandi. Ég fylgist bara hreint ekkert með. Man þó vel eftir Salvöru og Netnáttúru hennar. Man ekki betur en maðurinn hennar hafi farið til Afghanistan einhvern tíma í fyrndinni og að hún og Ólína Kerúlf hafi fyrir margt löngu ætlað í samvinnu við mig að koma þjóðsögum Jóns Árnasonar á framfæri við almenning á Netinu.

Er ekki Hannesarholt annars kennt við Hannes Hólmstein? Eða var það kannski Hannes Hafstein. Allavega tengdist það eitthvað Guðföðurnumm Doddssyni. Og þaraðauki steini eða steinum. Svo sá ég um daginn að búið var að breyta Innnes-skiltinu hérna skammt frá Akranesi í Hannesarskilti. Það þótti mér fjandi hart.

Einhverntíma sá ég ljósmynd. Ætli það hafi ekki verið hjá Kollu í Álfafelli. Þar vorum við Erla Trausta og Jósef Skafta ofan í vatnslausri sundlaug. Þessi mynd kann að hafa verið tekin í skólaferðalagi endur fyrir löngu og sundlaugin gæti hafa verið í Lundarreykjadal. Aftan á þessa mynd var skrifað: Erla sæta, Jobbi gáfaði og Sæmi sniðugi. Lögreglurannsókn á því hver skrifaði þetta er ekki lokið ennþá.

IMG 2884Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Held að Hannesarholt sé kennt við Hannes Hafstein, frekar en Hólmstein. Hann var mikið í tísku fyrir nokkrum árum og þá var þetta búið til. Kannski kemst Hannes Hólmsteinn einhvern tíma í tísku hjá þeim sem gera svona hús og þá verður gert þannig handa honum. En það er örugglega langt í það.

Held að greining þín á kosningu Trumpsa sé hárrétt. Mikið af þeim sem kusu Hillary voru reyndar líka komnir með hundleið á pólitíkinni og höfðu þess vegna kosið Sanders en ekki haft erindi sem erfiði. En þeim fannst Trumpsi enn verri en Hillary. Fólk valdi sumsé þarna um kúk eða skít og svo er það gáfumannanna að komast að niðurstöðu um hvort vann.

Þorsteinn Siglaugsson, 21.11.2016 kl. 21:38

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

Góð rúsína hjá þér í pulsuendanum í skondinni færslu, Sæmi sniðugi!

En Hannesarholt (þar sem ég var einmitt á píanótónleikum í kvöld í því fallega húsi við Grundarstíg) er kennt við þann, sem lét reisa það, Hannes Hafstein, skáldið góða, fyrsta ráðherra Íslands. Honum blöskraði svo bruninn mikli, sem geisaði í miðbæ Reykjavíkur 25. apríl 1915 (Hótels Reykjavíkur bruninn), að hann fann það sem knýjandi nauðsyn að reisa steinhús fyrir fjölskyldu sína. Tveir menn fórust í brunanum, og ekki færri en tólf hús við Austurstræti og Austurvöll brunnu til grunna í þessum mesta eldsvoða á Íslandi fram til þess.

Og reyndar sé ég í þessu samhengi eftirfarandi óvæntar upplýsingar í hinni ágætu aldarkróniku Jakobs F. Ásgeirssonar, 20. öldin, brot úr sögu þjóðar (Rv. 2000), s. 49: "Eftir mikla bruna víða um land var bannað um tíma að byggja úr timbri."

Jón Valur Jensson, 22.11.2016 kl. 00:45

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk báðir tveir. Auðvitað vissi ég að Hannesarholt væri frekar kennt við Hafstein en Hólmstein. Gat samt ekki á mér setið.

Sæmundur Bjarnason, 22.11.2016 kl. 13:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband