27.10.2016 | 10:43
2526 - Ísland og Bandaríkin
Því fer víðsfjarri að ég læki allt á fésbókinni sem ég les þó. Les eða skoða ekki einu sinni allar tilkynningarnar sem ég fæ þar. Finnst óþarfi að séra minningar. Fer alltaf nokkrum sinnum á degi hverjum inná fésbókina. Þar er oft margt að finna, en óttalegur tímaþjófur er þetta.
Á svolítið erfitt með að ákveða hvort ég hef meiri áhuga á íslensku kosningunum eða þeim bandarísku. Þær íslensku eru þó mun tvísýnni. Þessir spádómar um þingsæti og mögulegar ríkisstjórnir eru að engu hafandi. Ráðandi öfl hafa af einhverjum ástæðum ákveðið að hafa þingkosningar svo flóknar að engin leið sé að botna í neinu. Þjóðaratkvæðagreiðslur má alls ekki hafa, því þá er allt hið mikla starf við kjördæmaskiptingu og jöfnuð milli flokka (fjórflokka) unnið fyrir gýg. Alþingi starfar svo eftir reglum sem kannski hafa verið ágætar fyrir 100 árum en eru ónothæfar með öllu nú.
Á vissan hátt er hægt að segja að kosningarnar nú snúist um endurræsingu vs stöðugleika. Sá stöðugleiki sem blasir við í heilbrigðismálum og á fjölmörgum öðrum sviðum hugnast mér ekki. Tölvan er það heimilistæki sem ég hef oftast mest samskipti við. Ef eitthvað bjátar á þar er endurræsing venjulega það fyrsta sem mér dettur í hug. Venjulega fylgir því lítil áhætta. Kannski er því líkt farið með þjóðfélagið. Endurræsingin sem framkvæmd var hér á landi í kjölfar Hrunsins virðist hafa tekist bærilega.
Árangur Trumps í Bandaríkjunum er að ég held einkum tilkominn vegna andstöðu hans við ríkjandi stjórnmála- og fjármálaöfl. Skiljanlegt er að Bandaríkjamenn vilji fremur lúta kerfinu í 4 til 8 ár í viðbót, en að setja allt sitt í hendurnar á einum dyntóttum manni. Sumt af því sem hann hefur haldið fram er líka fráleitt með öllu.
Læt ég svo kosningahugleiðingum lokið og reyni að snúa mér að einhverju öðru.
Horfði á þáttinn hjá Agli Helga í gær. Ég get ekki að því gert að mér finnst hann vera á réttri hillu þar. Les reyndar oft bloggið hans líka og finnst honum stundum takast vel upp þar. Í Kiljunni nýtur hann sín samt best. Þó hann byrji venjulega á einhverjum bókmenntapáfum sem oftast eru alveg að míga á sig af hrifningu yfir einhverjum misheppnuðum og illskiljanlegum bókum sem þeir hafa fengið til yfirlestrar má hann eiga það að öðrum hliðum bókmenntanna sinnir hann líka. Að vaða svona úr einu í annað líkar mér vel. Furðulegt hvað hann er fundvís á merkilega hluti.
Sagnfræði sú bandaríska sem við fáum að heyra um þessar mundir í þáttunum sem kallaðir eru að mig minnir The seventies, er alveg ágæt að mínum dómi. Sú upprifjun á Watergate-heykslinu og Viet Nam stríðinu sem ég hef séð er að mörgu leyti alveg ágæt. Ekkert er reynt að fegra og það myndefni sem sýnt er virðist ágætlega valið. Sá tími sem valinn er til sýninga á þessu efni hentar mér ágætlega. Enn er ég samt ofurseldur valdi þeirra dagskrárstjóra sem ráða tímasetningu efnis og horfi afar sjaldan á kvikmyndir þar.
Eins og flest önnur skrif þá eru bloggskrif komin að verulegu leyti undir æfingu. Miðað við að þetta blogg er númer 2526, ætti ég að vera kominn í talsverða æfingu. Kunnátta er ekki sjálfsögð hjá þeim sem mikla æfingu hafa en án þess að hafa hana er ekki hægt að komast langt.
Athugasemdir
Flott Blogg ég hef einmitt verið að spekúlera í þessum tölum en aldrei lagt þær á minnið en auðvita grunaði mig að þetta væru númer á Bloggunum þínum. Þú hlítur að vera methafi hér.
Valdimar Samúelsson, 27.10.2016 kl. 11:21
Takk, Valdimar. Sumir eru búnir að blogga hér ansi lengi. T.d. Jens Guð. Held samt að hann hafi reynt að hætta, en þetta er ávanabindandi,
Sæmundur Bjarnason, 27.10.2016 kl. 18:28
Satt Sæmundur. Ég var að horfa á þetta hús á myndinni hjá þér. Það er dálítið kunnuglegt.
Valdimar Samúelsson, 27.10.2016 kl. 20:58
Já, þetta er reisulegt hús og stendur vestarlega á Kársnesinu í Kópavogi ef ég man rétt.
Sæmundur Bjarnason, 28.10.2016 kl. 06:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.