2456 - Guðni Th., Andri Snær og Ólafur Ragnar

Þeir sem hætta skyndilega núna og eru í áhrifastöðum hljóta að fá á sig Tortóla stimpilinn. Athyglisvert er að RUVið styður ekki núverandi ríkisstjórn eins og það hefur oftast gert. Ríkismennirnir reka þessvegna upp ramakvein. Annars er það athyglisvert að fjölmiðlar flestir eru á sömu línu og RUVið, nema auðvitað Mogginn sem sér ekkert nema útgerðarauðvaldið og Davíð Oddsson. Og eitthvað var DV að spangóla.

Fáir efast samt um að núverandi ríkisstjórn hafi margt gott gert. Jafnvel hörðustu andstæðingar hennar efast ekki um það í hjarta sínu. Furðuvel hefur gengið að koma landinu á réttan kjöl eftir hrunáfallið. En það er ekki nóg. Illvirkin og mistökin eru svo mörg og margvísleg að þau skyggja alveg á hin hugsanlega góðu verk. Auk þess eru kjósendur mun betur upplýstir núna en verið hefur. Enda er það hverjum manni ljóst að ríkisstjórnarflokkarnir munu tapa stórlega fylgi í næstu alþingiskosningum. Þessvegna mun hún sitja eins lengi og hún mögulega treystir sér til. Afgerandi og traustverðar skoðanakannanir eða æsilegustu mótmælaaðgerðir kunna að flýta kosningum eitthvað. Fjórflokkurinn allur mun þó sennilega tapa rækilega eins og skoðanakannanir hafa spáð allt kjörtímabilið. Varla breytist það. Skysamlegast hefði verið fyrir ríkisstjórnina að segja af sér áður en Sigmundur hrökklaðist frá.

Annars er íslensk pólitík ekkert spennandi núna. Eftir að tókst að koma Sigmundi Davíð frá eru menn þreyttir og móðir. Ríkisstjórnin notar þetta með dagsetninguna sem vopn í baráttunni við stjórnarandstöðuna. Þó má búast við að þingkosningar verði í haust og fyrir mig og mína þýðir það líklega að við verðum að fara til Kópavogs að kjósa. Vegna þess að flutingstilkynningin misfórst.

Donald Trump og Hillary Clinton eru nokkuð viss um að fá útnefningu flokka sinna í bandarísku forsetakosningunum og aðalspurningin er þá sú hvort stuðningsmenn Bernie Sanders verði svo reiðir að þeir muni sitja heima. Þannig gætu kosningarnar orðið tvísýnar. Annars ætti sigur Hillary að vera auðveldur.

Ef Guðni Th. ætlar sér í framboð gegn Ólafi Ragnari þarf hann að fara að ákveða sig. Satt að segja er ég farinn að halda að hann ætli ekki að gera það. Þá er Ólafur Ragar svotil öruggur um sigur. Guðni Th. hefði hinsvegar vel getað unnið hann. En ef hann þorir ekki er ekkert við því að gera. Andri Snær vinnur hann varla en saman hefðu þeir náð af honum talsverðu magni atkvæða.

IMG 2366Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Maður nokkur sem ég er málkunnugur þekkir þokkalega vel til í USA og pólitíkur þar og fylgist - að eigin sögn allavega - með umræðunni í fjölmiðlum þar. Hann segir að það sé ekkert útséð með hvort Mrs. Rodham Clinton muni ná að verða í framboði fyrir demokrata. Þar geti ráðið úrslitum hvaða niðurstaða verður í máli eftirlitsaðila þar gegn meintri misnotkun hennar á aðstöðu utanríkisráðherra meðan hún sinnti því starfi. Það mál snýst ekki síst um að hún hafi notað netfang embættisins í eigin þágu. Það myndu líklega fáir gera sér rellu út af slíku hér í allri spillingunni á skerinulaughing  Þannig að það er alltof snemmt að dæma Mr. Trump úr leik strax.

Ellismellur 27.4.2016 kl. 16:50

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Þetta e-mail mál hefur fylgt Hillary lengi. Kannski blossar það upp einu sinni enn á flokksþinginu, kannski ekki. Hugsanlega er Sanders samt alveg eins sterkur frambjóðandi.Varla koma aðrir til greina. Trump skoraði nýlega á Sanders að fara í sjálfstætt framboð. Það gerir hann ekki. Lykill demókrata að sigri eru sættir á milli Clinton og Sanders. Fjöldi repúblikana sættir sig alls ekki við Trump.

Sæmundur Bjarnason, 28.4.2016 kl. 00:07

3 identicon

Á RÚV að taka afstöðu með ríkisstjórn eða á móti ríkisstjórn?  Er ekki lög um RÚV með skýrum ákvæðum um að RÚV eigi að leitast við að sýna hlutleysi og hlutlægni.  Þetta er skrýtið samfélag að verða. Menn eru teknir af lífi fyrir að brjóta ekki lög heldur eitthvert meint siðleysi sem tekst að sannfæra fólk um með miklum upphrópunum (þar sem RÚV er fremst í flokki). Hinsvegar þykir ekki tiltökumál að ríkisfjölmiðill þverbrjóti þau lög sem um hann gilda og reyndar landslög líka. Tilgangurinn helgar víst meðalið.

Stefán Örn Valdimarsson 28.4.2016 kl. 09:10

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Venjulega hefur RUV tekið afstöðu með ríkisstjórnum (sennilega í öryggisskyni) Nú er svo komið að allir marktækir fjölmiðlar hafa snúist gegn stjórninni og kjósendur líka. Stundum er eifaldlega ekki hægt að taka afstöðu sem allir eru sammála um að sé hlutlaus. Afstöðuleysi er ekki það sama og hlutleysi. Menn geta alveg verið á móti löglegum gjörningum án þess að brjóta hlutleysisreglur.

Sæmundur Bjarnason, 28.4.2016 kl. 22:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband