2421 - Borgunarplatið

Já, já. Það getur vel verið að það verði Sanders og Trump sem komi til með að berjast í sumar og haust um bandaríska forsetaembættið. Ég er einmitt talsvert hræddur um að þá hafi Trump flest trompin á hendi. Þó er það allsekki víst. Sanders gæti alveg eins sigrað. Hugsanlega eru Bandaríkjamenn mun vinstri sinnaðri nú en þegar McGovern tapaði fyrir Nixon árið 1972. Ef ég ætti að velja mér frambjóðendur þá yrðu það Rubio og Sanders. En ég er nú svo vinstri sinnaður að það er lítið að marka.

Máttur endurtekningarinnar er mikill. Margir foreldrar verða fyrst og fremst varir við þetta hjá börnum sínum þegar þau sýna sérstakan áhuga fyrir nauðaómerkilegum auglýsingum. Mér hefur dottið í hug að þessi máttur endurtekningarinnar fari uppeftir aldursstiganum á þann hátt að fyrr en varir verði þetta að áhuga unglingannna á popplögum hverskonar. Fleira blandast auðvitað inn í þetta s.s. minningar o.fl. Einnig virðist sumu ungu fólki þykja nauðsynlegt að fylla tómið sem umlykur það dagsdaglega með sem mestum hávaða og hvað er þá heppilegra en ærandi popplög?

Yfirleitt er það ekki sérstakt fréttaefni þó einhver eða einhverjir láti plata sig. Ef platið er mjög stórt getur samt verið öðru máli að gegna. Einhverntíma í fyrndinni lét ég plata mig til að flytja mín bankaviðskipti, sem ekki eru ákaflega mikil, til Landsbankans. Ekki var ég samt plataður um fjóra til sex milljarða eins og mér skilst að bankastjórn téðs banka hafi gert. Verst er sennilega að bankastjórnin átti ekkert í þessum milljörðum. Ekki er samt efast um að hún hafi haft lagalegan rétt til að láta plata sig. Ýmsir hafa samt látið í sér heyra útaf þessu, en kannski samsvarar þetta ekki nema svona 5000 venjulegum plötum.

Stundum er sagt að vísnagerð okkar Íslendinga rísi hæst í hestavísum, klámvísum og drykkjuvísum. Hestamaður er ég enginn. Við hitt hef ég stundum fengist en orðið svolítið afhuga með aldrinum. Vísnagerð er samt eitt af mínum áhugamálum. Víngerð var það einu sinni sömuleiðis. Einhverskonar samsláttur virðist hafa orðið hjá mér í þessu vísukorni. Kannski hefur vísnagerðinni þó fremur slegið saman við víndrykkju, en við því er erfitt að gera:

Yndislegt finnst ávallt mér
áfengt vín að smakka.
Brennivínið blessað er
Bakkusi að þakka.

Mikið er fjargviðrast útaf lélegri málfræðikunnáttu þeirra sem mest hafa sig í frammi á bloggi, samskiptamiðlum o.þ.h. Fjölmiðlun öll er, fyrir tilverknað netsins, mjög að breytast. Ein af breytingunum er sú að miklu fleiri tjá sig en áður var. Ef óheflað orðbragð kemst uppá yfirborðið við það er ekkert við því að segja. Orðaval það sem elsta kynslóðin hefur vanist er ekkert endilega það besta. Hugsanlega er of mikið lagt uppúr því að allir eða sem allra flestir geti lesið sem elstan texta.

WP 20160217 10 51 45 SmartSnjór.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það á enginn frambjóðandi demókrata neinn séns á móti Trump nema Sanders. Unga kynslóðin vill ekki sjá Hillary Clinton. Sérstaklega ekki ungar konur. Fylgi hennar er mest hjá efnuðu eldra fólki. Sama unga kynslóð og fyrirlítur Hillary hyllir Sanders eins og rokkstjörnu. Ef demókratar missa af Sanders, þá er Trump einfaldlega búinn að vinna þessar kosningar. Bandaríkjamenn vilja allt nema meira af því sama, og telja kyrrstöðu meiri áhættu en jafnvel vitfirringslega áhættu eins og fleiri en einn af valkostunum í boði hjá repúblikönum eru. Það er því miður bara algjörlega rétt mat á stöðunni hjá þeim. 

Jón 18.2.2016 kl. 04:31

2 identicon

Held að það sé dagljóst að Trump verður næsti forseti USA verði ekki einhver maniac búinn að skjóta hann áður.

Ellismellur 18.2.2016 kl. 07:57

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Ekki er einu sinni víst að Trump vinni útnefningu repúblikanaflokksins. Þó hann hafi lofað að bjóða sig ekki sjálfstætt fram er vel líklegt að hann geri það ef hann fær ekki útnefninguna. Síðan á hann eftir að sigra frambjóðanda demókrataflokksins og þar er ekkert öruggt.

Sæmundur Bjarnason, 18.2.2016 kl. 12:40

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Það er alveg rétt hjá þér Jón að það hefur komið á óvart hve fylgi Sanders er mikið meðal unga fólksins. Sennilega eru það fremur konur úr eldri aldursflokkum sem kjósa Clinton vegna þess að hún er kona. Annars er ekki víst að mikið sé að marka þær foskosningar sem búnar eru. Svæðisbundinn munur á stjórnmálaskoðunum er afar mikill í Bandaríkjunum.

Sæmundur Bjarnason, 18.2.2016 kl. 12:44

5 identicon

Það er búið að gera kosningar um hvernig færi ef Clinton er í framboði eða Sanders. Ef Clinton fer á móti Trump sýna virtustu og bestu skoðanakannanir að þau verða nánast hnífjöfn og brugðið getur til beggja vona. Ef Trump þarf að takast á við Sanders aftur á móti á hann enga möguleika. Vinni Cruz þá á Clinton engan séns og hann malar hana. Cruz á aftur á móti heldur engan séns á móti Sanders. Ríka fólkið sem vill ekki kjósa Sanders er ekki að kjósa Clinton afþví að hún sé kona, heldur vill það ekki kjósa gyðing í þetta embætti, sem eru leyfar af gömlum McCarthyiskum fordómum, en meira en 90% allra sem McCarthy lét varpa í fangelsi fyrir "rangar" skoðanir voru gyðingar. Rót mikils stuðnings Evrópubúa, sérstaklega Þjóðverja, við Clinton, er eflaust líka gyðingahatur. 

Jón 18.2.2016 kl. 20:44

6 identicon

Gyðingahatur efri stétta Bandaríkjanna er landlægt og útbreitt og sterkt dæmi um það er að vitað er í dag að allir elstu og virtustu háskólar Bandaríkjanna höfðu þá stefnu taka inn sem fæsta gyðinga í skólana og þetta var ekki leiðrétt fyrr en seint á síðustu öld. Gyðingar áttu líka lengst af á síðustu öld litla möguleika á mörgum störfum í Bandaríkjunum, bæði hjá ríkinu og eins innan akademíunnar. Nú er búið að takast á við og gera upp þessa fortíð í ótal ritgerðum, greinum og bókum, en það eymir eftir af henni og gamlar konur sem vilja endilega kjósa Clinton eru mjög mótaðar af þessum viðhorfum. 

Jón 18.2.2016 kl. 20:49

7 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Ég skoða Moggabloggið mitt ekki nærri nógu oft. Athugsemdirnar koma mér oftast á óvart.

Það er alveg rétt að áhrif einstaklinga á framvindu heimsmála hefur farið minnkandi í marga áratugi. Áhrif þeirra á hraða þróunar geta samt verið töluverð, að mínu mati.

Hvað skoðanakannanir í USA snertir er því ekki að leyna að kosningabaráttan og þá sérstaklega forkosningarnar og útnefningin hefur oft talsverð áhrif á úrslitin.

Sæmundur Bjarnason, 20.2.2016 kl. 17:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband