2409 - Köturnar tvær

Hvað skyldi vera lífseigasta orðatiltækið úr hruninu? Kannski er það „Helvítis fokking fokk“ svo má segja að „Vanhæf ríkisstjórn“ komi til greina. Annars er ég varla til þess bær að skera úr um það. Þessi tvö eru mér samt ofarlega í huga. Ég sótti af áhuga fundina hans Harðar Torfasonar á Austurvelli á sínum tíma. Kalt var í veðri og alveg upplagt að hlýja sér í Kolaportinu þó það væri andskotann ekkert kolaport lengur. Svo var „bæjarins bestu“ á næstu grösum og oftast biðröð þar. Já, það var nú þá. Margir hafa ætlað að nota sér Austurvöllinn síðan en mér finnst það alltaf hafa mistekist ef ég hef ekki nennt þangað sjálfur.

Hvað fésbókina varðar er ég sífellt að verða „hægrisinnaðri“. Það er nefnilega þannig með það eðla forrit (eða app – ef einhverjir skilja það betur) að ef maður fer hægra megin í dálkinn (viðkomandi dálk) fær maður gjarnan ýmsa möguleika. Hvað svonefndar tilkynningar varðar er ég farinn að nota meira og meira möguleikann „merkja sem lesið“. Það er m.a. vegna þess að sumir „séra“ eða „læka“ allskyns auglýsingar og þessháttar sem ég hef engan áhuga fyrir. Auðvitað á það ekki við um eitthvað sem ég hef skrifað sérað eða lækað. Auk þess má benda á að til þess að skrifa vísur á fésbókina er best að nota ctrl-enter til að ekki lendi allt í belg og biðu.

Var að enda við að lesa grein á fésbók eftir Eirík Rögnvaldsson þar sem hann fjölyrti mjög um setningafræði og málfræði. Satt að segja þykist ég betri en margir aðrir í íslensku. Samt er ég illa að mér í greinarmerkjafræði og sennilega þar af leiðandi í setningafræði.

Styrmir segir að Samfylkingin sé að drepast. Kannski er það rétt hjá honum. Vinstri grænir eru samt að eflast. Píratarnir eru bara millibilsástand. Flokkur sem hefði Köturnar tvær og kannski t.d. Dag B. og Birgittu í forystu gæti sem hægast sópað til sín fylgi. Ef jafnaðarmenn og kvótagreifar færu í kapp held ég að jafnaðarmenn mundu vinna. Annars er pólitíkin undarleg tík og ekki allt sem sýnist þar. Peningarnir blíva og þeir eru hjá kvótakóngunum.

Kannski eru Moggabloggarar að komast í tísku aftur. A.m.k er ég ekkert að hætta ef ég fæ einhverju um það ráðið sjálfur. Mér er alveg sama þó ég sé ekki meðal þeirra vinsælustu. Nenni ómögulega að leggja mikla vinnu í þetta. Virðist samt að sumir geri það.

WP 20151011 09 49 17 ProSveppir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband