2410 - Hagafrumvarpið

Hef tekið eftir því að ef ég set myndir í bloggið mitt eru þær úr fókus nema smellt sé á þær. Veit ekki hvernig á því stendur. Ég er vanur að flíka mjög þeim myndum sem ég tek. A.m.k. Moggabloggslega séð.

Hart mun á næstunni verða deilt um áfengisfrumvarpið svonefnda. Á margar hátt er það einkennandi fyrir Íslendinga að deila um það sem óflókið er. Í sjálfu sér er það ekkert flókið að neysla áfengis mun aukast verði matvöruverslunum leyft að selja það. Ef ég væri á þingi mundi ég áreiðanlega greiða atkvæði á móti þessu. Eðlilegt væri samt að leyfa þjóðinni (frekar en þinginu) að ákveða þetta. Vel er hægt að hugsa sér að taka einkaleyfið til sölu áfengis af ríkinu, án þess að leyfa matvörubúðum að selja það. Eflaust verða þá bara bónusvín seld í Bónus.

Ef Vilhjálmur og félagar í Sjálfstæðisflokknum hleypa markaðnum lausum á lýðheilsu landsmanna er hætt við að frjáls markaður éti upp sitthvað fleira. Til dæmis fylgi Sjálfstæðisflokksins.

Þetta segir erki-íhaldsmaðurinn Páll Vilhjálmsson um áfengisfrumvarpið og hefur sennilega nokkuð til síns máls í þessu efni. Við þurfum ekki á Trumpisma að halda hér á klakanum. Bandaríkjamenn mega sjálfir grafa sína einangrunarholu í friði.

Auðvitað er ekki mikið að marka mig. Ég man að hægt var að gera sér vonir um að „bjórfrumvarpið“ eða eitthvert þeirra lenti í þjóðaratkvæðagreiðslu því alþingi langaði til þess að ganga af þessari þjóðaratkvæðagreiðslu-veiru dauðri í eitt skipti fyrir öll. (Án aðstoðar forsetans.) Á sínum tíma hefði ég greitt atkvæði gegn bjórnum. Einfaldlega vegna þess að aukin neysla áfengra drykkja var fyrirsjáanleg. Kannski má þó segja að það að leyfa bjórinn hafi ekki orðið til að auka áfengisvandann og það sama má e.t.v. segja um að taka einkaleyfið til sölu áfengra drykkja af ríkinu. Að leyfa sölu þeirra í öllum búðum er samt e.t.v. of stórt skref.

Ég er nú svo svartsýnn að eðlisfari að ég hef enga von um að vetrarveðrunum sé lokið á þessum vetri. Að vísu er veðrið ágætt hér á Akranesi núna, sólskin og hiti. (Jæja bara tvö stig, en hiti samt.) Snjór á gangstéttum ekki mikill og maður gæti næstum haldið að það færi bráðum að vora. Illviðri eiga þó eftir að koma. Vonandi verður samt ekki mikill snjór og klaki sem þeim fylgir.

Atburðirnir í Köln eru engin ímyndun. Andúð á innflyjendum á sennilega eftir að fara vaxandi, bæði á meginlandi Evrópu og hér á Íslandi. Pólitískt séð eru þeir aðburðir sem orðið hafa að undanförnu vatn á myllu útlendingahaturs og þjóðrembu. Völd peningaaflanna eru mikil. Samtakamátt hinna snauðu má heldur ekki vanmeta.

Eflaust væri hægt að hafa fullt starf við að leiðrétta verstu ambögurnar sem maður sér á fésbókinni, en sem betur fer sér maður þær ekki allar. Það er samt ætlað öllum sem skrifað er á netmiðlana, en þar úir og grúir af allskyns vitleysu í málfari. Ekki finnst mér taka því að eltast við það allt saman. Sumir misnota líka þá hópa sem stofnaðir hafa verið um bætt málfar. Slæmt líka hvað hóparnir eru margir.

Svo er fésbókin sett upp með þeim endemum að erfitt er að henda reiður á aldri athugasemdanna. Ætli það sé ekki bara reiknað með því að allir skrifi eftir eigin höfði. Það er bara ágætt og gott að sem flestir skrifi. En netmiðlana er eðlilegt að gagnrýna.

Ha, engin mynd? Ég verð að fara að gera eitthvað í þessu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband