37. blogg

Merkilegt hvað margir virðast lesa þetta blogg. Líklega væri betra að blogga frekar oft og lítið en sjaldan og mikið. Athuga það. Ekki eru fréttir dagsins eða þingkosningarnar að flækjast fyrir mér. Ég geri mér far um að minnast helst ekki á þann ófögnuð. Bloggvinasóttin sem greinilega hrjáir marga hér hefur heldur ekki náð tökum á mér. Ég er búinn að minnast á þessi mál oft hér á blogginu, best að hætta því.

Í dag er býflugnadagurinn mikli. (Eða var hann í gær.) Blessunarlega hafa býflugurnar ekki komið hingað inn að þessu sinni, en ég er búinn að sjá margar þeirra á flögri fyrir utan gluggann. Stórar og voldugar hlussur og ekki beint geðslegar þó ég hafi aldrei heyrt dæmi um að þær geri flugu mein. „Hrun í geitugastofninum" er eftirminnileg fyrirsögn úr Mogganum frá því fyrir nokkrum árum. Jæja, farið hefur fé betra.

Áslaug, Charmaine, Bjarni, Benni, Hafdís og Jói fóru á Ask í gærkvöldi, en ég komst ekki vegna vinnunnar. Charmaine fór síðan af stað heimleiðis til Bahama í morgun. Fyrst reyndar til London en síðan til Nassau.

 

Minning sem tengist brunanum að vissu leyti er eitt lítilfjörlegt atvik frá sumrinu okkar að Laufskógum 1 - eða þegar við áttum heima vesturfrá eins og við sögðum jafnan sjálf.  Þessi minning er ljóslifandi í minni mínu þó ég skilji ekki af hverju svo er:

Það er kosningadagur. Pabbi og mamma hafa farið að kjósa og við Vignir erum einir heima og erum báðir í herberginu í suðausturhorni hússins sem sennilega hefur verið stofan þó mig minni endilega að þar hafi verið koja.

Eins og stjórnmálanördar geta auðveldlega fundið út eru þetta forsetakosningarnar þar sem Ásgeir Ásgeirsson vann frækinn sigur á séra Bjarna.

Vignir er að leika sér á gólfinu í einhvers konar bílaleik og þarf að bregða sér í ýmis hlutverk. "Má ég kjósa?" segir hann og svarar síðan með svolítið breyttri röddu: "Já, þú mátt kjósa". Þetta endurtekur hann hvað eftir annað og eiginlega er minningin ekki lengri en þetta.

Ég held að ég hafi síðan sagt Ingibjörgu frá þessu og að við höfum notað þetta atvik lengi á eftir til þess að stríða Vigni með, en það má segja að hafi verið eftirlætisíþrótt okkar. Ef til vill er það ástæðan fyrir því að ég man þetta svona vel. Við stunduðum það að herma þetta eftir honum og ég man ennþá vel áherslurnar á orðunum og raddblæinn.

Einhvern vegin finnst mér að á sínum tíma hafi staðið til að Vignir yrði skírður Guðlaugur Viðar Vignir, en ekki bara Guðlaugur Vignir. En kannski er þetta tóm ímyndun í mér.

Þegar að því kom á sínum tíma að skíra Björgvin þá var Ingibjörg hörð á því að hún tæki ekki í mál annað en hann héti bara einu nafni. Hún væri sú eina í systkinahópnum sem héti bara einu nafni og léti ekki bjóða sér það lengur. Hún hafði sitt fram.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband