36. blogg

Já, það er gaman að skrifa og lítill vandi að fimbulfamba endalaust. Flestir mundu þó gefast fljótt upp á að kíkja hingað ef ég reyndi ekki að vanda mig pínulítið. Teljarinn heldur því statt og stöðugt fram að einhver hópur fólks líti hingað reglulega. Einhverjir þeirra verða eflaust stundum fyrir vonbrigðum þegar þeir koma hingað. Við því er þó ekkert að gera því ég blogga bara þegar mér sjálfum sýnist.

 

Bjarni og Charmaine fóru til Sauðárkróks í dag. Mér skilst að Bjarni hafi átt að taka þátt í einhverju körfuboltamóti. Þau fóru á Subarunum. Líklega fara þau og einhverjir fleiri út að borða annað kvöld (sunnudag) því ég held að Charmaine fari heim á leið á mánudagsmorgun.

Ég er nú að baksa við að þýða Atlas-skjal um Tyrkland og gengur það sæmilega. Þyrfti helst að klára það fyrir mánudag.

 

Það mætti skrifa margt um mál sem mér eru minnisstæð og komu upp í framhaldi af brunanum sem ég skrifaði um hér fyrir stuttu.  Eitt af því sem ég veitti athygli var að tímaviðmiðanir allar breyttust. Einkum var þetta áberandi í tali mömmu. Eftir brunann var það einlægt byrjunarviðmiðunin hjá henni hvort eitthvað hefði gerst "áður en brann" eða "eftir að brann". Áður hafði hún einkum notað tímaviðmiðunina "þegar ég gekk með - Sigrúnu - Ingibörgu - Sæmund" o.s.frv.

Ég man líka vel eftir því að okkur barst mikið af allskyns dóti og fatnaði að gjöf og vorum við lengi að koma því öllu í lóg og neyddumst meira að segja að lokum til að henda einhverju af því.

Sagt var að pabbi hefði fengið 80 þúsund króna greiðslu frá tryggingafélögum vegna brunans. Ekki veit ég hvort það var mikið eða lítið, en staðreynd er að strax sumarið eftir reisti hann nýtt hús á grunni þess gamla og stendur það enn.

Nágranni okkar Jón Guðmundsson frá Blesastöðum, sem pabbi kallaði jafnan Jón blesa, var byggingameistari við gerð hússins. Mér er það minnisstætt að ég  sá  hann  einu sinni detta ofan af þaki meðan á smíði hússins stóð, en sem betur fer meiddi hann sig lítið eða ekkert.

Fyrst um sinn eftir brunann héldum við öll til í einu herbergi hjá Sigmundi Guðmundssyni en fljótlega fengum við hús til leigu að Laufskógum eitt.

Trúr þeim vana mínum að skrifa ekki alltof langt mál hverju sinni læt ég hér staðar numið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband