2352 - Fitnessfríkið segir frá

Eitthvað var nú Akraneshöllin minni en til stóð í síðasta bloggi. (Sú mátti nú minnka. Skyggir á hafið af svölunum á nýju íbúðinni okkar) En samt var þetta nú útaf einhverri gleymslu að mér láðist að miðja og stækka hana.

Enn er ég við gönguferðaleistann minn. Það er eiginlega engin leið að spá fyrir um hvernig gangan muni þróast fyrr en eftir fyrstu 5 mínúturnar. 5 km hraði virðist vera minn hraði ef ég flýti mér svolítið og er á sæmilega góðum (útjöskuðum) skóm. Það er svolítið að brjótast í mér hvort ég eigi að lengja morgungönguna svolítið meðan veðrið er svona gott. Kannski fer ég alla leið niður í skógrækt á morgun ef ég verð í stuði til þess.

Mér leiðist staglið í mál-vöndunar-ræktunar-aðfinnslu-þáttunum á fésbókinni. Skyldu menn ekki hafa neitt annað að skrifa um en skilning sinn á einstökum orðum. Eflaust þykir sumum það fróðlegt að vita hvernig algeng (eða sjaldgæf) orð dreifast um landið. Býst við að ég geti hæglega hætt í þeim hópum sem ég hef (samkvæmt reyslunni) skráð mig óvart í. Fésbókin er annars að verða svo aðgangshörð að það  „hálfa væri nóg“ eins og krakkarnir segja. Mikið er þetta samt þægilegur og auðveldur miðill. Bloggið er óttalegur fyrirlestrar-miðill í samanburðinum. Þó kann ég betur við bloggið. Aldrei getur maður verið viss um að fylgjast með allri vitleysunni sem þrífst á fésbókarbleðlinum. Kannski heldur ekki á blogginu.

Einhvern tíma hef ég skrifað um Pál Vilhjálmsson, ef ég man rétt. Minnir að hann sé Moggabloggari einsog ég og að hann skilgreini sig þannig að hann sé ekki Baugsmiðill. Kannski þarf hann líka að taka fram núna að hann sé ekki Bingó (eða Binga) miðill heldur. Hef annars enga sérstaka skoðun á þessum sviptingum í fjölmiðlaheiminum. Fjármagnið er bara að leika sér. Kannski var Björn Þorláksson eitt sinn skólastjóri á Grenivík og þá getur vel verið að ég hafi einhverntíma haft einhver samskipti við hann.

Hér áður þurfti bara að vera klár á símhringingum. (Stutt-löng-stutt o.s.frv.) Nú heyrist mér að allskyns heimilistæki, símar og annað þessháttar sé sípípandi og engin leið að átta sig á hvaðan pípið kemur eða tíðninni eða neinu þessháttar. Svo koma kannski gestir í heimsókn og þá bætist enn í píp-flóruna.

Minnir að ég hafi síðast bloggað á föstudaginn var. Held áfram að fara í u.þ.b. klukkutíma morgungöngu en er hættur að setja met í hverri ferð, enda væri það fullmikið af svo góðu. Í gær minnir mig að hafi verðið rigning og ég hafi farið frekar stutt. Í morgun var ég svo 59,26 mínútur með 5 kílómetrana.

WP 20150712 23 09 56 ProBlokkir í kvöldskini.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband