2346 - Bjarni Valtýr Guðjónsson

Í dag (laugardag) fórum við til Borgarness. Þar var í Borgarneskirkju jarðsunginn Bjarni Valtýr Guðjónsson. Margir þóttust hafa komist mun lengra en hann í lífinu. Hann giftist aldrei og átti enga afkomendur. Var af mörgum talinn skrýtinn og sérkennilegur, en stóð áreiðanlega flestum framar um gáfur og atgerfi allt. Forn í skapi og þjóðlegur mjög. Organisti af lífi og sál. Kirkjurækinn mjög. Skáld gott.

Frægt fólk var þarna eins og mý á mykjuskán og útförin fjölmenn mjög. Ekki komust nærri allir fyrir í kirkjunni. Meðal frægðarmann sá ég þarna forseta Íslands Ólaf Ragnar Grímsson. Ekki vissi ég að þeir hefðu þekkst.

Ekki er þetta á neinn hátt hugsað sem minningargrein og eftir athöfnina þegar við fórum í menntaskóla þeirra Borgnesinga til erfidrykkju hittum við fyrrverandi heimilislækni okkar Guðmund Guðmundsson og á eftir fórum við í veitingastaðinn Baulu við Varmalandsvegamótin en þar er konan mín með málverkasölusýningu. Þar fengum við okkur fisk og franskar og þó fiskurinn hafi verið umlukinn óhollustu og löðrandi í feiti þá var hann ágætlega bragðgóður.

Nú er ég andvaka. Klukkan er um 6 á mánudagsmorgni og ég hef sofið illa í nótt og svitnað mikið. Held samt ekki að þetta sé neitt alvarlegt. Er í ágætis-skrifstuði og fer sennilega út að ganga á eftir. Það er fullsnemmt að fara núna. Náði ekki 5 kílómetrunum í gær en næstum því. Veðrið er alltaf bjart og fallegt núna um þessar mundir. Þá er það eins og við manninn mælt það er farið að hamast við að spá rigningu.

Veit lítið um þetta blessaða Grikklandsmál sem orðið er alltumlykjandi í fréttum dagsins. Mín skoðun er aðallega sú að úr því að bæði Grikkir og ESB vilja endilega að Grikkland verði áfram innanborðs í ESB þá verði endirinn sá. Gallinn miðað við okkur Íslendinga er sá að gríska ríkið skuldar þessa peninga sem um er rætt. Held að þeir hafi verið færðir til ríkisins, frá einkaaðilum, með talsverðum afslætti. Nú er hætt við að hægi mjög á öllum vexti ef of harkalega er farið í endurheimtu skuldanna.  Grikkland er alvöruþjóð, en Ísland ekki. Þar var ágætt að gera allskyns tilraunir en upphæðirnar þar voru ekki óviðráðanlegar.

Horfði að miklu leyti á þátt Ómars Ragnarssonar um Kverkfjöll og nágrenni í sjónvarpinu í gær. Mærðin og þjóðremban er að vísu yfirþyrmandi í þessum þáttum, en samt minnti hann á margt athyglisvert. Get ekki verið að rekja það nákvæmlega hér og nú, en þrátt fyrir alla mærðina þá er ég að mestu sammála honum. Kannski ég fari bara að hætta þessu skrifelsisfikti. Þeir sem á annað borð lesa krumsprangið eftir mig hafa þá kannski eitthvað að lesa með morgunkaffinu.

WP 20150621 09 35 30 ProFrá Akraneshöfn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Bjarni Valtýr var ljúflingur mikill, ötull í menningunni og ævinlega góður viðræðu, þá við hittumst. Votta ég vinum hans og vandamönnum samúð mína. Minning góðs manns lifir.

Jón Valur Jensson, 13.7.2015 kl. 15:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband