2.5.2015 | 17:57
2327 - Eru verkföll og vinnudeilur vilji ríkisstjórnarinnar?
Einkennilegt er af ríkisstjórninni að hunsa verkafólk. Öruggur meirihlutavilji er fyrir miklum kjarabótum. Ef forseti ASÍ segir ríkisstjórnina hafa svikið samkomulag sem gert hafi verið, þá trúir fólk því að sjálfsögðu. Meirihlutavilji er einnig fyrir því að taka upp nýja stjórnarskrá í stað þeirrar hálfdönsku sem við höfum. Sömuleiðis fyrir þjóðareign á auðlindum landsins. Þýðingarlaust er til langframa fyrir ríkisstjórnina að berja höfðinu við steininn hvað þetta varðar.
Washington Post (blaðið sem frægt varð fyrir að koma Nixon Bandaríkjaforseta frá völdum) segir eftirfarandi í umfjöllun sinni um óeirðirnar í Baltimore.
These kids represent what modern-day freedom fighting looks like. The revolution will be tweeted, Periscope-d and Snapchatted.
Kannski er þetta haft eftir einhverjum öðrum. Man það bara ekki. Byltingin verður semsagt ekki fésbókuð. Erum við bara svona mikið á eftir tímanum?
Á Íslandi finnst mér að síðasti leiðtoginn sem gat talað beint til þjóðarinnar og var skilinn af henni allri hafi verið Steingrímur Hermannsson. Aldrei varð ég samt svo frægur að kjósa hann, en bar mikla virðingu fyrir honum. Las ævisögu hans líka með mikilli athygli. Þess vegna voru það mér mikil vonbrigði þegar hann lýsti því yfir að hann skynjaði breytingu í þjóðlífinu í átt til aukinnar misskiptingar og vildi koma í veg fyrir hana, en gæti það ekki. Stjórnmálamenn og leiðtogar geta haft áhrif á þróun en þeir stjórna henni ekki. Sumir leiðtogar og harðstjórar virðast gera það. Færa má þó rök fyrir því að þjóðirnar geri það sjálfar. Flestir stjórnmálamenn vilja gera vel en eru að sjálfsögðu mislagðar hendur. Vantraust á stjórnmálamönnum er mikið. Opið og beint lýðræði vilja flestir en túlka það misjafnlega. Þetta breytist áreiðanlega ekki fyrr en gömlu flokkarnir hafa farið í gegnum þá hundahreinsun sem þeir ljóslega þurfa á að halda. Ef til vill getur formaður vinstri grænna gert það skammlaust en strákagreyin í hinum flokkunum geta það alls ekki.
Skólafélagi minn einn á Bifröst spurði eitt sinn fyrir langalöngu: Hvers vegna er dauður tannlæknir meira virði en dauður verkamaður? Þessi spurning var aktúel þá og er það kannski enn í dag. Mér er ekki kunnugt um að viðhlítandi svar hafi fengist við henni ennþá.
Verðtryggingin er alls ekki sá bölvaldur sem margir álíta. Hingað til og næstu áratugina (vonandi) verður hún til þess að gamla fólkið tórir hér á landi. Þannig er hún í reynd dulbúin sátt milli kynslóða í landinu. Blikur eru samt á lofti um að sú sátt geti ekki haldist endalaust. Sá hluti þjóðarinnar sem telst til ellilífeyrisþega fer sífellt vaxandi. Minnist þess sérstaklega að starfsfólk á einni lífeyrissjóðs-skrifstofunni lýsti því fjálglega fyrir mér að það mundi hiklaust fara á eftirlaun eins fljótt og það mögulega gæti. Annars er ellilífeyrislífið alls ekki eftirsóknarvert. Það er ekki einu sinni gaman að geta sofið út á hverjum morgni og stilla vekjaraklukkuna bara stöku sinnum. Auk þess verða helgarnar fljótlega alveg eins og rúmhelgir dagar.
Það kom bara alltíeinu til mín áðan af hverju Þórbergur kallaði eitt herbergið í íbúðinni á Hringbraut 45 alltaf umskiptingastofuna. Hef aldrei velt þessu sérstaklega fyrir mér en líklega hefur hann haft þarna fataskipti áður en hann fór í sínar daglegu göngur og æfingar. Já, Þórbergur var alltaf svolítið skrítinn. Hann var bæði kallaður ofviti og meistari og gekkst upp í því. Upphaflega hefur þetta kannski verið gert í háði, en hann var í rauninni engum líkur og ákaflega sérstakur. Ég man vel eftir því þegar Þórbergur var að koma í Silla og Valda búðina á Hringbraut til að kaupa drottningarhunang. Hann kom sjaldan þangað, en Magga hinsvegar mjög oft.
Athugasemdir
Sammála þér með Steingrím Hermannsson. Stjórnamálamenn dagsins í dag eru gufur, fjarstýrðar af hagsmunaaðilum.
Axel Jóhann Hallgrímsson, 2.5.2015 kl. 18:29
Tek heilshugar undir með Axeli. Skýrasta dæmi núlifandi dæmið er fjármálaráðherrann. Stórvaxinn maður með stórt nafn sem hann rís engan veginn undir. Íslands óhamingju verður allt að vopni.
Fv. Ybbar-gogg 2.5.2015 kl. 23:39
reyndar er STÓR hluti þessarar ríkisstjórnar sem núna situr ekki ósátt við að STÓR hluti almennings séu bara 'þrælar'
Rafn Guðmundsson, 2.5.2015 kl. 23:56
Já, ég er alveg sammála ykkur, en reyni þó að vera bjartsýnn. Held að ástandið mjakist til rétts vegar.
Sæmundur Bjarnason, 3.5.2015 kl. 05:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.