2315 - Meirafíflskenningin

Held að það hafi verið Margeir Pétursson, sá útsjónarsami og eitilharði skákmaður, sem ég sá eða heyrði fyrst fjalla um „meirafíflskenninguna“ margfrægu sem segja má að hafi sett Ísland á hausinn, eða allavega næstum því. Nafnið sjálft ber með sér hvernig kenningin er hugsuð. Svo lengi sem þú getur reiknað með því að selja aftur á hærra verði það sem þú kaupir, þá kaupir þú það. Annars er það að verða úrelt að fjalla um Hrunið. Nær væri að tala um eitthvað annað.

Til dæmis stjórnarskrána. Núverandi stjórnarflokkar vilja ekki með nokkru móti að drögin sem samþykkt voru um árið, verði að veruleika. (Og reyndar má segja það sama um fjórflokkinn allan) og kannski einnig um Bjarta framtíð eða Besta flokkinn. Rugla þessu oft saman. Samþykkt hennar mun nefnilega draga verulega úr valdi alþingis. Ekki er heldur víst að forsetinn geti haldið áfram að túlka skrána að vild sinni. Neitunarvald hans er þó nauðsynlegt. Ekki má láta núverandi forseta villa sér sýn í því efni.

Látum sem eitthvað sé að marka andstæðinga Pírata á alþingi þegar sagt er að þeir séu bæði hysknir og latir. Í hvaða stöðu setur það þá sjálfa? Ef meirihluti fólks styður píratana eru þá ekki þessir gagnrýnendur þeirra jafnvel verri, eða a.m.k. jafnslæmir.

Í sjálfu sér er ekkert athugavert við að fólk skapi sér fantasíuveröld á borð við Bíldalíu eins og Karl Einarsson Dunganon heitinn gerði. Líta má á Bíldalíu sem aðalstað gufupönksins. Andri Snær Magnason rithöfundur hefur tekið að sér að auka vinsældir staðarins eftir getu og verður eflaust gerður að heiðursborgara þar fljótlega.

Af einhverri tilviljun fór ég að horfa á lok undanrásanna í söngvakeppni framhaldsskólanna síðastliðinn laugardag. Hugsanlega sá ég einnig einhverja kynningu á keppninni. Keppnina sjálfa sá ég alls ekki. Enda hef ég ekkert vit á tónlist, söng eða neinu þessháttar. Kynnarnir vöktu samt athygli mína, einkum annar þeirra sem ég held endilega að heiti Steiney. Hún er greinilega fædd til þess að vera sjónvarpsstjarna. Framkoma hennar var svo áreynslulaus og eðlileg að með ólíkindum var. Tvö atriði stóðu uppúr fannst mér. Annað var að sjálfsögðu blokkflautudúettinn og hitt var þegar hún var að borða pitsuna.

Kaupi alveg læknisfræðilegu og vísindalegu rökin fyrir því að bólusetja og er þess vegna algjörlega sammála þeim sem eru á móti því að hunsa bólusetningar. Samt sem áður er ég líka á móti því að hegna þeim sem vilja ekki bólusetningar með því að niðurgreiða t.d. ekki veru þeirra barna á leikskólum sem ekki eru bólusett. A.m.k. finnst mér alls ekki að sú upphæð sem þar er notuð megi vera mjög há. Ég er þeirrar skoðunar að fyrir þroska barnanna sé leikskólinn nauðsynlegur.

WP 20150328 08 37 36 ProSteinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það er rangt hjá þér að í stjórnarskrá stjórnlagaráðs sé dregið úr völdum Alþingis. Þvert á móti er með henni reynt á margan hátt að efla vald Alþingis á kostnað framkvæmdavaldsins.  

Ráðherrar mega ekki sitja samtímis ráðherradómi á þinginu, vald forseta Alþingis og nefnda þingsins aukið og tiltekið, en það er ekki í núverandi stjórnarskrá. 

Til hliðsjónar við myndun ríkisstjórnar eru hafðar stjórnarskrár í nokkru Evrópuríkjum þar sem þingræðisreglan er tryggð það vel að ekki þurfi að koma til myndunar stjórnar án atbeina Alþingis. 

Þarf ekki annað en að nefna myndun utanþingsstjórnarinnar 1942-44 í því sambandi. 

Ómar Ragnarsson, 13.4.2015 kl. 23:11

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Það er mín skoðun að með því að koma í veg fyrir þjóðaratkvæðagreiðslur og/eða hunsa úrslit þeirra, eins og gert hefur verið lengi, tryggi alþingi endanleg völd sín.

Sæmundur Bjarnason, 14.4.2015 kl. 10:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband