2217 - Reynir Traustason

Sennilega verður Reynir Traustason látinn hætta. Ekki þarf það að þýða endalok frjálsrar blaðamennsku. Hún er einkum að færast inná netið. DV er sennilega búið að vera, enda hefur það stundum gengið fulllangt. Hinsvegar lekur virðuleikinn af Morgunblaðinu og sannfærðum sjálfstæðismönnum finnst sjálfsagt að kaupa blaðið þó ómerkilegt sé. Mér finnst það raunar ekkert gera neitt til þó einhverjir hati DV (eða Morgunblaðið) útaf lífinu. Verst af öllu er að DéVaffið ber sig alls ekki fjárhagslega. (Gerir Morgunblaðið eða Fréttablaðið það kannski?) Prensverta, pappír og dreifing eru alltof dýrir póstar og auglýsendur hafa ekki ennþá uppgötvað að netið er framtíðin. Fáir vilja setja góða peninga í þetta þegar hægt er að fá allt mögulegt ókeypis á netinu. Netverjar þurfa auðvitað að borga fyrir netsambandið en þó þeir lesi fréttir eða annað þar kostar það ekkert aukalega.

Auðvitað skiptir það alheiminn engu hvort við lifum eða deyjum. Samt látum við oft eins og það sem við gerum skipti einhverju máli. Svo er alls ekki. Allt sem lífsanda dregur er forgengilegt. Líf okkar mannanna er svo stutt að það er aðeins örstutt augnablik í sögu jarðarinnar. Sólin sem ber ábyrgð á öllu lífi á jörðinni er aðeins einn örlítill dropi í vetrarbrautinni okkar sem aftur er ein af ótölulegum fjölda slíkra. Hversvegna við látum eins og líf okkar skipti einhverju máli er allsekki gott að segja. Jú, við getum ráðið við flestöll önnur dýr á jörðinni. Það er raunar það eina sem við getum stært okkur af. Vitanlega látum við eins og það skipti öllu, en er sú raunin? Ég held ekki.

Hér fer á eftir frásögn sem áhugmenn um DV, pólitík og mínar hugleiðingar geta vel sleppt.

Löggubíll í árekstri – söguleg frásögn

Fyrri hluta níunda áratugar síðustu aldar stjórnaði ég ÚSVB (útvarps- sjónvarps- og vídeófélagi Borgarness). Margt eftirminnilegt gerðist þar og e.t.v. væri saga þess félags betur sögð en ósögð. M.a. stunduðum við um eitthvert árabil gerð áramótaþátta að hætti RUV. Eitt af því minnisstæðasta við gerð slíkra þátta var atburður sem átti sér stað í Hafnarskógi og hefur e.t.v. ekki verið færður í letur fyrr.

Þannig var að á einhvern hátt (hugsanlega með hjálp lögreglunnar) hafði okkur tekist að komast yfir gangfæran bíl sem samt var talinn alveg ónýtur og átti að henda. Á þessum árum voru bílar yfirleitt keyrðir út og gangfærum bílum var helst ekki hent. Frekar að reynt væri að troða þeim inná partasölur.

Engin afskipti hafði ég af mögulegri handritsgerð slíks þáttar, en ákveðið var að nefndur bíll ætti að velta og taka átti þá veltu upp á videótökuvél félagsins. Síðan voru einhverjir snillingar sem ætluðu að klippa þá upptöku til og nota í áramótaþátt félagsins. Á þessum tíma var klipping videóupptakna alls ekki á færi nema mjög fárra og möguleikarnir sem slíkt opnaði ótakmarkaðir. Í dag þykir þetta ekki vitund merkilegt.

Nú var haldið út í Hafnarskóg. Sjálfsagt hefur Borgarfjarðarbrúin verið komin í gagnið um þetta leyti, annars hefði okkur eflaust þótt of langt að fara þangað. Til halds og trausts var lögreglan með í för. Þegar búið var að finna hentugan stað var bílunum, sem líklega voru fleiri en lögreglubíllinn og sá sem átti að velta, lagt á heppilegan stað og byrjað að undirbúa atriðið.

Þegar allt var tilbúið, og búið að útbúa hól nokkurn sem álitinn var nægilega stór til að bíllinn mundi velta við að keyra uppá hann, var bíllinn settur í gang, steinn á bensíngjöfina og videóvélin í gang. Síðan var losað um handbremsuna og bíllinn settur af stað. Auðvitað vildi enginn vera í honum.

Til allrar óhamingju reyndist hóllinn ekki nógu stór til að velta bílnum og hann keyrði áfram og hvarf útí buskann. Liðið safnaðist nú saman og fór að rífast um hvers vegna bílskömmin hefði ekki oltið. Ekki kom mönnum að öllu leyti saman um ástæðu þess og fyrr en varði kom ónýti bíllinn æðandi aftur eftir að hafa snúið við og stefndi beint á hópinn. Hópurinn  tvístraðist að sjálfsögðu, en bíllinn hélt áfram og lenti að lokum á lögreglubílnum.

Því miður náðist þessi atburður ekki á myndband, því slökkt hafði verið á upptökuvélinni þegar veltan misheppnaðist, en eflaust hefði verið gaman að sjá þetta. Hugsanlega er frásögn af þessu ekki allskostar rétt í skýrslu þeirri sem líklegast er að hafi verið gerð til að fá viðgerðina á lögreglubílnum endurgreidda.

IMG 1577Sléttur sjór.

IMG 1578Baujur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Skemmtileg frásögn. "Auðvitað vildi enginn vera í honum."

Ég er enn skellihlæjandi. Takk fyrir.

Haukur Kristinsson 28.8.2014 kl. 22:15

2 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Reynir Traustason ól ritsóðana upp í athugasemdadálkunum, með dyggri aðstoð Heiðu HREIÐARS.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 28.8.2014 kl. 23:32

3 identicon

Hvað ætli kaupmaðurinn Heimir Fjeldsted hafi kennitöluflakkað oft?

Sjálfstæðisflokksgengið sem kann ekki að skammast sín frekar en aðrar glæpaklíkur. Sem betur fer fækkar þeim óðum.

Birna Sigurðardóttir 29.8.2014 kl. 08:44

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk, Haukur.

Sæmundur Bjarnason, 29.8.2014 kl. 09:44

5 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Heimir, ég er alveg sammála þér í því að sumar athugasemdir, bæði á DV og annarsstaðr, eru mjög sóðalegar og ómarktækar.

Sæmundur Bjarnason, 29.8.2014 kl. 09:49

6 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Birna, ég er eiginlega með öllu ófróður um kennitöluflakk, en hef þó heyrt á það minnst og finnst það mjög ósiðlegt ef það er stundað í óhófi. Aðstæður geta samt verið þannig að það sé nær óhjákvæmilegt. Það er rétt held ég, að samkvæmt skoðanakönnunum fer fylgi Sjálfstæðisflokksins minnkandi.

Sæmundur Bjarnason, 29.8.2014 kl. 09:54

7 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Birna Sigurðardóttir. Svar við spurningu þinni er aldrei.

Hvað kemur þér til að vega að mér með jafn ósæmilegum hætti?

Heimir Lárusson Fjeldsted, 29.8.2014 kl. 12:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband