2214 - Úlfur, úlfur

Hingað til hefur Jón Steinar Gunnlaugsson fyrrum hæstaréttardómari notið álits (a.m.k. sumra) sem góður lögfræðingur. Sennilega er því nú lokið. Hann virðist vera kominn í stríð við DV og þar að auki fyrrum samdómara sína við hæstarétt. Hann hefur haft mörg orð um það hve ómerkilegur pappír DV væri og nú heimtar hann af blaðinu að það hagi sér eins og honum dettur í hug. Hvernig hann getur komist að þessari niðurstöðu er langt fyrir ofan eða neðan skilning venjulegs fólks. Vel ætti að mega ætlast til þess að hann væri sjálfum sér samkvæmari en þetta ber vitni um.

Ekki er hægt að ætlast til þess af fjölmiðlum að þeir haldi endalaust áfram að flytja fólki fréttir af því hvort skjálftavirkni í Bárðarbungu fari minnkandi eða vaxandi. Mér finnst vanta skilning á því hjá blaða og fréttafólki að vísindamenn gætu allt eins vel átt við ár eða mörg ár þegar þeir segja „bráðum“. Annars leiðast mér skelfilega þessar eldgosafréttir sem þó eru ekki eldgosafréttir. Flesta virðist orðið langa í eldgos.

Ástandið í Ukraínu er miklu alvarlegra fyrir heimsfriðinn en þetta venjulega í Palestínu. Ekki er að sjá neina verulega breytingu þar, en hinsvegar er útþenslustefna Rússa nýnæmi og ástæða til að hafa áhyggjur af henni. Sennilega er í vændum líkt ástand og var í kalda stríðinu. Ekki er sjáanlegt að Bandaríkjastjórn ætli að gefa neitt eftir.

Heimsmálin ættu þó ekki að vefjast fyrir fólki. Það eru frekar megrunarmálin sem gera það. Sjálfur fer ég oft í gönguferð á morgana og ét mun minna en áður, enda hrynja kílóin af mér. Þar er líka af nógu að taka. Bráðum þarf ég að setja aukagat á beltið ef þessu heldur áfram. Menningarnóttin (sem stendur allan daginn) fór alveg framhjá mér, þó heyrði ég eitthvert glamur í sjónvarpinu og þá reyndist standa yfir bein útsending frá flugeldasýningu. Sú útsending þótti mér ekki merkileg. Ég er líka búinn að sjá svo margar flugeldasýningar um ævina að ein má missa sig.

Nú er sunndagsmorgunn og kannski upplagt að öplóda þessu.

IMG 1556Smáhýsi.

IMG 1557Sveppur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já, Sæmundur, það er mikil hreyfing í gangi. Jón Steinar hristir sig, fjöllin skjálfa og titra, Rússar þenja sig og við lítilmennin reynum að skakkalappst til að geta notað sama gatið í beltinu aftur og aftur.

Mikil óvissa í gangi, enda óvissulögmál Heisenbergs (the uncertainty principle) eitt af grundvallarlögmálum náttúrunnar.

Haukur Kristinsson 24.8.2014 kl. 11:29

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já, Haukur. Alveg sammála því. Allt er óvissu háð.

Sæmundur Bjarnason, 24.8.2014 kl. 20:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband