2199 - Canary

Þó fésbókin sé kannski lítið annað þá er hún a.m.k. oft ágæt dægrastytting. Var t.d. áðan að lesa Feneyjafrásögn eftir Sigurð Hreiðar. Hún minnti mig á atvik sem henti mig á Kanaríeyjum.

Held endilega að það hafi verið á Tenerife frekar en Gran Canari. Við hjónakornin vorum á vakki niður við ströndina  innanum allan mannfjöldann. Auðvitað þreyttumst við fljótlega og settumst á bekk fyrir rest. Þegar við stóðum upp hefur myndavélin mín orðið eftir og það uppgötvaði ég ekki fyrr en nokkuð löngu seinna. Sennilega svona klukkutíma seinna. Með öndina í hálsinum hljóp ég samt og gekk eins hratt og ég gat að bekknum, en auðvitað var engin myndavél þar.

Þetta varð til þess að ég þurfti að gera mér ferð á lögreglustöðina. Ágætlega gekk að finna hana en verra var að þar talaði enginn neina ensku. Íslensku prófaði ég ekki og ekki kunni ég neitt í spænsku sem mér virtist þó að lögreglumennirnir töluðu sín á milli. Ég reyndi ýmis afbrigði og önnur mál sem ég kunni eitthvert hrafl í, en ekkert dugði. Lögreglustöðin var dálítinn spöl frá annarri byggð og þó allir þjónar á veitingahúsum og afgreiðslufólk í verslunum talaði eitthvert hrafl í ensku gerðu lögregluþjónarnir það ekki. Þeir skiptu samt sem áður nokkrum tugum eða hundruðum þarna á stöðinni.

Ég vissi að tryggingafélögin á Íslandi mundu aldrei bæta mér myndavélina, ef ég hefði ekki lögregluskýrslu um málið. Þess vegna datt mér ekki í hug að gefa mig. Eftir mikið japl og jaml og fuður var mér þó fenginn í hendur einhver bréfmiði og vísað í biðröð við síma einn og eftir því sem mér skildist gæti ég þar fengið samband við enskumælandi lögregluþjón í Madrid. Sennilega hefur það bara verið gert til að losna við mig.

Þetta stóðst samt alveg og ég útlistaði allt mjög nákvæmlega fyrir manninum í símanum. Að lokum sagði hann mér að halda vel uppá miðann sem hann gerði ráð fyrir að ég hefði fengið í hendur og ég gæti sótt skýrsluna eftir einn eða tvo daga með því að framvísa honum.

Þetta stóðst allt saman eins og stafur á bók og ég geymdi skýrsluna vel og vandlega. Gott ef ég á hana ekki ennþá einhversstaðar. Og reyndar er mjög líklegt að ég hafi bloggað um þetta áður.

Svo vildi til að konan mín var einnig með myndavél. Og nokkrum dögum seinna þegar hún var að skoða vörur í búð einni vatt sér kona að henni og spurði hana hvort hún hefði ekki týnt myndavél. Hún neitaði því. Konan gaf sig ekkert og kom fljótlega aftur og spurði hvort hún væri viss um að hafa ekki týnt myndavél. Enn þverneitaði hún og sýndi ókunnu konunni meira að segja myndavélina sína. Þegar konan kom svo í þriðja sinn mundi hún eftir að ég hefði týnt myndavél fyrir nokkrum dögum og sagði henni það.

Á krá einni skammt frá búðinni var maður konunnar (þau voru bresk) og þar var myndavélin mín einnig. Fundarlaun vildu þau engin, en konan mín fékk þó að taka mynd af þeim. Undrun minni þegar ég sá myndavélina mína aftur þarf ekki að lýsa.

Ókey. Jónas Kristjánsson er gamalmenni og besservisser. Áhrifamikill og skoðanamyndandi samt. Ég er bara fyrrverandi besservisser og þar að auki ekkert þekktur, en hef samt gaman af að skrifa eins og beturviti. Getur maður verið fyrrverandi gamalmenni? Bara hugmynd. Jú, kannski þegar maður er dauður.

IMG 1181Á Akranesi.

IMG 1204Hurð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband