2196 - Culpepper cattle company

Nú eru þau tímamót orðin að ég get ekki lengur birt myndir á blogginu mínu. Ekki veit ég af hverju það er, en einhverja orðsendingu fæ ég um að sprettigluggi geti gert það. Veit bara ekki hvernig á að ná í hann. Best að bíða og sjá til. Kannski verða einhverjir óánægðir með að fá ekki myndir með blogginu mínu eins og þeir eru vanir, en við því er ekkert að gera. Þetta er semsagt ástæðan, en ekki myndaskortur.

Er munur á hugsunarhætti eftir trúarskoðunum? Getur það verið að uppeldi hafi mikið að segja um hugsunarhátt eftir að fullorðninsaldri er náð? Að alast upp í ríki þar sem trúarskoðanir hafa mikið að segja um daglegt líf gæti þá valdið ólíkum hugsunarhætti þegar fullorðinsaldri er náð. Hvenær hættir fólk að breytast? Er ég að nálgast rasískar hugsanir með þessu? Get ekki að því gert að ég hugsa svona. Hefur Jónas Kristjánsson þessi áhrif á mig? Mér finnst hann vera að breytast í kynþáttahatara. Talar illa um Salman Tamini. Alltaf er hægt að finna rökstuðning fyrir skoðunum sínum, hversu vitlausar sem þær eru. En Salman Tamini þyrfti að gera betur grein fyrir skoðunum sínum. Það er alls ekki þýðingarlaust hlutverk að vera talsmaður múslima á Íslandi. Sverri Agnarsson kannast ég vel við og er næsta viss um að þar fer enginn öfgamaður.

Á sínum tíma neyddi Clinton Bandaríkjaforseti þá Rabin og Arafat til að semja. Nú held ég að báðir aðilar sjái að sá samningur hefði verið gáfulegur. Á þeim tíma voru samt báðir aðilar fegnir að sleppa frá honum. Fannst hann vera mikil mistök. Áhrifamikil öfl innan og utan Palestínu og Ísrael vilja alls ekki semja um nokkurn skapaðan hlut. Álíta núverandi ástand vera sér og sínum heppilegast.

Auk mannslífanna og efnahagslega tjónsins fyrir báða aðila, sem auðvitað er tilfinnanlegra og meira fyrir veikari aðilann, er stríðið fyrir botni Miðjarðarhafs, einsog öll stríð, fyrst og fremst áróðursstríð. Spurningin er aðeins um það hvort þau öfl sem vilja umfram allt spilla friðarumræðum  hafi hugsanlega gengið of langt að þessu sinni.

Eitt sinn áttu Gyðingar samúð heimsins. Svo er ekki lengur. Nú eiga Palestínumenn hana og hafa vissulega unnið áróðursstríðið.

Þegar ég vann á Stöð 2 kom það fyrir að Goði henti í mann lista yfir kvikmyndir og miniseríur sem átti að sýna í einhverjum tilteknum mánuði og bað mann að finna íslensk nöfn á fyrirbærin. Þetta gat verið dálítið snúið þó þýðendurnir létu stundum fylgja nafn sem þeim hafði dottið í hug. Man eftir að hafa hugsað vel og lengi um hvað ég ætti að skíra kvikmyndina sem heitir: „Culpepper cattle company“ og man ekkert hvað ég gerði á endanum. Pétur Hanna stakk upp á nafninu: „Kemur maður ríðandi“, en það var bara of seint. Þá var ég búinn að skila listanum. Annars hefði ég líklega samþykkt það.

Man ekki hvort ég hef andskotast útí sjálfspilun myndbanda á fésbókinni. Ef ég hef ekki gert það þá er það bara einhver yfirsjón, því ég er alltaf eins mikið á móti fésbókinni og ég get. Held reyndar að þau hætti að spilast ef maður skrollar yfir þau. Svo er líka afar auðvelt að afvelja sjálfspilun myndbanda. Sýnist það reyndar vera öllu flóknara í símum, en ég er nú blessunarlega laus við svo fullkomna síma.

IMG 0857Fífill.

IMG 0880Gatnaframkvæmdir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

"Er munur á hugsunarhætti eftir trúarskoðunum? Getur það verið að uppeldi hafi mikið að segja um hugsunarhátt eftir að fullorðninsaldri er náð?"

Við hljótum að mega ganga út frá því að svo sé, ekki síst ef við lítum á menntun sem þátt í uppeldinu. Menntun og aftur menntun - ævina út.

Menntun skapar vellíðan, er eins rækt fyrir heilann og sálar tetrið. Þeim mun meiri menntun, þeim mun minni trú -"faith". 

"There is in every vilage a torch - the teacher: and an extinguisher - the clergyman."

Victor Hugo

Haukur Kristinsson 25.7.2014 kl. 09:15

2 identicon

Ahlam Tamimi, þjóðhetja í augum Hamasliða og stuðningsmanna þeirra í Palestínu, "státar" af að hafa myrt fjölda barna í árásum á veitingahús og skóla, en hún gleðst mikið yfir þessu og er þekkt sem brosmildi morðinginn og er sérlega ánægð þegar henni tekst að myrða börn. Ein krafa Hamas samtakanna er að allir fangar henni líkir verði tafarlaust látnir lausnir annars verði aldrei friður. Það tókst að fá hana laus með að hóta að myrða saklausa Ísraela í hennar stað og hún hefur nú sinn eigin sjónvarpsþátt á þessu málgangi Hamasmanna og hvetur þar upprennandi hryðjuverkamenn til ódáða.

Ungfrú Tamimi montar sig af hryðjuverkunum: http://www.youtube.com/watch?v=Iq28f0VztYw

Um hinn nýja sjónvarpsþátt Ahlam Tamimi á sjónvarpsstöð Hamas samtakanna. http://www.jewishpress.com/tag/ahlam-tamimi/

Ofsafenginn gleðihlátur Ahlam Tamimi fyrst þegar hún frétti henni hefði tekist að myrða fleiri börn en ætlunin var: http://www.youtube.com/watch?v=xLXAwETtu0Q

Palestínska sjónvarpið heiðrar sjálfsmorðsárásarmann sem réðst á fjölskyldufólk á Sbarro og myrti börn og foreldra (sama Sbarro og var í Kringlunni?): http://www.youtube.com/watch?v=0_IxSlbDTBI Sá maður var samverkamaður Ahlam Tamimi við ódæðisverk.

Í lok þessa viðtals við Ahlam Tamimi er viðtal við foreldra þessa samverkamanns hennar sem lýsa stollti og gleði yfir syni sínum og ánægju með hans verk og "píslarvotts" dauða hans og hve mörg börn hann hafi myrt: http://www.youtube.com/watch?v=uSj8SiEkUz0

Hamas heimtar nú að fá fjölda slíka lausa í viðbót við þessa nýju Ophruh Winfrey Palestínumanna ef svo má segja (í kaldhæðni), og þið skiljið kannski frekar núna hvers vegna Ísraelar geta ekki auðveldlega fallist á slíkt vopnahlé.

Frú Tamimi er bara ein af mörgum, mörgum.

http://www.youtube.com/watch?v=uSj8SiEkUz0

http://www.youtube.com/watch?v=uSj8SiEkUz0 26.7.2014 kl. 00:33

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Haukur, ég held að við vitum lítið um hvernig hugsunarháttur okkar verður til og hvernig hann þróast. Setningin sem þú eignar Victor Hugo er mjög athyglisverð. Ég held reyndar að öll trúrækni geti leitt fáfróða og þá sem þurfa á henni að halda til betri hegðunar ef henni er rétt stýrt. Líka getur hún verið til hinnar mestu bölvunar og alið á fordómum og það gerir hún áreiðanlega í Palestínu og Ísrael.

Nafnleysið í seinni greininni gerir það að verkum að ég vil alls ekki svara henni og frábið mér slíkt. 

Sæmundur Bjarnason, 26.7.2014 kl. 03:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband