2177 - Vitaskuld

Baggalútur talar um mannætumúslima og vissulega er það ein leið til að skrifa sig frá þessum ósköpum að gera bara grín að öllu saman. Gallinn er sá að kosningar eru dauðans alvara. Auðvitað eru það samt margir sem vilja standa fyrir utan og ofan við þetta allt saman. Leyfa þeim sem þykjast vera voða gáfaðir að heimska sig sem mest. Gamalmennum eins og mér gerir það samt ekkert til. Gáfurnar eru löngu hættar að aukast. Þeir sem fjálglegast skrifa um komandi kosningar er samt sumum hverjum a.m.k. vorkunn því þeir virðast halda, að því fleiri stóryrðum og blótsyrðum sem þeim tekst að tvinna saman, þeim mun „betri“ verði þeirra samsetningur. Með slíku háttalagi nálgast þeir bara sífellt þann stimpil sem áhrifaríkastur er og verstur um þessar mundir. Þ.e. þeir eiga það á hættu að verða kallaðir „virkir í athugasemdum“.

Þar tekst fésbókinni best upp sem minnst alvara fylgir skrifunum. Þetta hefur mér lengi verið ljóst. Þessvegna er mér svona uppsigað við hana. Ég er nefnilega alltaf svo alvarlegur. Sumir mundu vilja segja „fúll“, eða jafnvel „Fúll á móti“, en halda kannski að ég verði ennþá fúlari (fúlli) við það. Konan mín er að búa sig undir að hafa málverkasýningu í vitanum á Akranesi í júní næstkomandi. Um það má margt segja. Hálfvitalegt er það ekki. Enda er þetta heilviti. Vitaskuld væri vitlegra að hafa hana ekki í vita. Baggalútsmenn gætu jafnvel búið til einhvern fyndinn texta um þetta. Það get ég ekki. Því ég er svo ófyndinn og alvarlegur.

Af einhverjum undarlegum ástæðum las ég í morgun úr dagbók Björns Bjarnasonar eitthvað sem hann hafði sett á netið. Þar sá ég eftirfarandi:

Önnur hvít tófa sást hér í nágrenninu snemma í morgun og kunnugir segja að tófur sjáist víða þar sem þær hafi ekki verið áður. Það er greinilega nauðsynlegt að grípa til harðra gagnaðgerða. Að minnsta kosti eitt höfuðlaust lamb hefur fundist“.

Mér finnst þetta undarlegt orðalag og sýna vel hve nauðsynlegt það er að gæta að hugsunarhætti mögulegs lesanda. Auðvitað hefur Björn ekki ruglast á hvítri tófu og höfuðlausu lambi. Það er samt örugglega það sem einhverjum hefur dottið í hug. (Varla er ég alveg einstakur.) Björn gerir ráð fyrir því að allir hugsanlegir lesendur reikni með að tófan hafi bitið hausinn af lambinu. Það er þó ekkert víst. Kannski er þetta bara lævíslegur andtófuáróður.

Kosningarnar um næstu helgi gætu orðið svolítið áhugaverðar. Kannski má þakka framsóknarmönnum það. Sennilega verða þær þó hundleiðinlegar. Það er að segja svona almennt. Eins og vant er geta þó líklega allir fundið eitthvað jákvætt í sambandi við þær til að gleðjast yfir. Kannski verður samt minnst ástæða fyrir þá til að gleðjast sem eru það jákvæðir í okkar garð að vilja flytjast hingað.

IMG 0580Skokkað á hjólum.

IMG 0595Illuga heilsað.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband