2152 - Áróður hefur áhrif

Týnd er æra, töpuð sál
tungl veður í skýjum.
Sunnefunnar sýpur skál
sýslumaður Wium.

Sumar vísur eru þannig að maður lærir þær samstundis. Þessi vísa er þeirrar gerðar. Alveg er ég viss um að ég hef bara lesið hana einu sinni. Reyndar man ég ákaflega lítið um Sunnefumálin svokölluðu. Eflaust mætti þó gúgla ýmislegt um þau og þykjast gáfaður. Held að Sunnefa þessi hafi verið ákærð fyrir að eignast barn með bróður sínum. Meira veit ég ekki um þau mál en vísuna kann ég og er nokkuð viss um að hún er lítið afbökuð. Í þessari vísu er ýmislegt sem bendir til þess að þó Sunnefumálin hafi ugglaust verið þeim Sunnefu og bróður hennar erfið, hefur talsvert verið horft á óþægindi valdsmanna af þessu.

Sagt er að Páll Ólafsson hafi með einni vísu komið í veg fyrir að þegnskylduvinnu yrði komið á hér á Íslandi. Vísan er svona:

Ó, hve margur yrði sæll
og elska mundi föðurlandið heitt.
Mætti hann vera í mánuð þræll.
og moka skít fyrir ekki neitt.

Þessi vísa er greinilega af gerðinni sem ég nefndi. Einnig varð vísa um Þostein sýslumann í Dalasýslu sem komst á flug við lát hans mjög fræg. Hún er svona:  

Fallega Þorsteinns flugið tók
fór um himna kliður.
En Lykla-Pétur lífsins bók
læsti í skyndi niður.

Kannski er þessi vísa ósanngjörn í garð Þorsteins, en það er greinilega hún sem lifir en bókasöfnun hans síður. Held samt að hún hafi verið mjög merkileg.

Alls kyns áróður er nú stundaður af miklu kappi. Fésbók er undirlögð af þessu og auglýsingum allskonar. Fimmaurabrandarar fjúka þar líka um ýmist í myndum, hreyfimyndum eða texta og lyftir það áreiðanlega geði einhverra.

Stjórnmálaáróðurinn hefur sennilega aldrei verið verri. Best er að láta hann eiga sig að mestu, en erfitt er að forðast hann. Ef grannt er skoðað er öll viðleitni pólitísk og alls staðar smjúga stjórnmálin inn. 

Ekki er samt allur áróður pólitískur. Áróður gegn þunglyndi er t.d. mjög áberandi núna. Einn af mínum helstu gúrúum í bloggskrifum er Harpa Hreinsdóttir. Lengi vel las ég blogg hennar með mikilli athygli og geri jafnvel enn í dag. Lærði margt og sníkjubloggaði þar stundum, en var kannski ekki meðal þeirra verstu sem það stunduðu. Hún er líka fésbókarsnillingur, eða virðist vera það. Ég er aftur á móti „analfabeti“ þegar kemur að fésbókinni, þó ég kunni vel að uppnefna hana. Harpa benti nýlega á grein þar sem rætt var um ráð við þunglyndi. Þrátt fyrir ágæt ráð þar svo sem að minnka kaffidrykkju og sykurát, var í lokin sagt: Hvernig líður líkamanum í dag?

Það er þessi áhersla á líkamann og útlitið sem er helsta ástæða þunglyndis i dag að því er ég held. Það dugar skammt að hafa ótakmarkað álit á sinni andlegu getu, ef samanburður, kvíði og ófullnægjukennd stafar mest af líkamanum og útlitinu.

Þegar ég var unglingur var það talsverð útilega að skreppa upp í Reykjadal og jafnvel alla leið í skátaskálann í Klambragili. Seinna meir fauk hann nú í burtu og nú er svo komið að varla er hægt að þverfóta þar fyrir túrhestum ýmisskonar. Í gestabókinni í þessum skála fann ég eitt sinn þessa vísu:

Harðna tekur tíðarfar
Theresía spáir byl.
Hver sem verður tittlings var
veiti honum skjól og yl.

Sennilega hefur þessi vísa haft meiri áhrif á mig en ég hef gert mér grein fyrir. Það eru bæði gæði vísunnar og tvíræðni orðanna sem höfðu mikil áhrif á mig. Man ekki hvort það var um þetta leyti eða síðar sem ég lærði í skólanum undir handleiðslu eftirminnilegra kennara þau grundvallaratriði bragfræði sem hafa fylgt mér síðan.

Ásgautsstaðmálið er orðið mitt mottó í lokin og ég er ekkert að hugsa um að hætta því.

IMG 0227Trampólín með unga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Þú átt væntanlega við Pál J. Árdal en ekki Pál Ólafsson sem höfund þegnskylduvísunnar.

Sigurður Þór Guðjónsson, 13.4.2014 kl. 14:29

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk Sigurður. Já, eflaust. Þetta er allt skrifað bara eftir minni og ekki tékkað á nokkrum hlut.

Sæmundur Bjarnason, 13.4.2014 kl. 14:33

3 identicon

Fyrsta hendingin í Teresíu-vísunni er skráð í heimild frá höfundi: "Tökin herðir tíðarfar" en framhaldið er eins og hjá þér.

Ellismellur 13.4.2014 kl. 16:47

4 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Sunnefumálin voru á Austurlandi um miðja 18.öld og stóði í mörg, mörg ár. Byrjunin markast af því að Sunnefa Jónsdóttir var borin þeim sökum að eiga barn með bróður sínum. Þau voru þá um 14 og 16 ára. Eftir skamman tíma og eftir að systkinin voru látin játa þetta dæmdi Jens Wium þau bæði til dauða í héraði. Skömmu uppúr því deyr Jens og Hans Wium tekur við sýlunni og það lendir í hans verkahring að halda áfram með málið. Í þá daga var hlutverk sýslumanna að halda sakamönnum föngnum og var svo í telfelli systkinanna.

Þá gerist það sem ekki hefur fengist almennilega skýringa á, að málið fer að þæfast allt og einkennilegur dráttur fer að verða á öllum málaferlum. Því það þurfti að halda áfram með málið fyrir efra dósstigi, alþingi, eftir að Jens dæmdi í héraði.

Svo gerist það að einhverjum árum liðnum að Sunnefa eignast annað barn í varðhaldinu. Hún ber þann vitnisburð fyrir alþingi að Hans eigi barnið.

Þá tekur málið enn aðra stefnu og snýst nú um þetta atriði og Hans er vikið frá embætti meðan málaferli standa.´

Áður en malaferlin, sem orðin voru umtalsvert flókin, var lokið deyr Sunnefa. Jón er seinna dæmdur til lífláts en konungar mildaði æfilanga þrælkun.

Vísan hefur verið eignuð Sveini Sölvasyni sem var á þessum tíma varalögmaður og af sumum talin hafa verið ort eftir að Sunnefa bar á þingi að Han væri faðir seinna barnsins.

Svo er að skilja á sögum seinni tíma að almannarómur hafi talið líklegt að Hans hafi í raun verið faðir seinna barnsins.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 13.4.2014 kl. 17:44

5 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk Ómar Bjarki. Ég þóttist vita að Sunnefumálin hafi verið mjög umtöluð á sínum tíma. Þakka þér fyrir að glöggva skilning minn á þeim.

Sæmundur Bjarnason, 13.4.2014 kl. 18:12

6 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Ekkert að þakka.

En má bæta við, að munnmæli á Austurlandi segja að Hans hafi í raun drepið Sunnefu og það hafi gerst í Drekkingarhyl eða Sunnevuhyl sem er við gilsmynni Bessastaðaár við Skriðuklaustur.

http://www.landogsaga.is/section.php?id=55&id_art=1985

Að öðru leiti er þessi saga öll hin merkilegast ef farið er að skoða og mikil heimild um tíðarandann sem er ekkert fyrir svo löngu síðan.

Hans, sem var um 25 ára þegar hann tók við Sunnefumálinu, hefur verið lýst þannig: ,,Hann var stór maður vexti og þrekinn, harðgjör og óvílsamur, hvatur til hvers hlutar og allra manna orðfærastur, gefinn fyrir ölföng og pá óstýrilátur mjög. Hann var fremur illa þokkaður, einkum eftir Sunnefumálið."

Ómar Bjarki Kristjánsson, 13.4.2014 kl. 18:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband