Tuttugasta blogg

Blogg, blogg, blogg, blogg og blogg. Nei, svona einfalt er það ekki. Einhverri lágmarkshugsun verður að beita við bloggskriftir. Þó skiptir eflaust mestu ef hugmyndin er að fá einhvern fjölda lesenda að blogga reglulega, um mál sem fólk hefur áhuga á og að bloggið sé hæfilega langt.

Bjarni var með Volvoinn á verkstæði hjá Ingvari á Krókhálsinum í dag, hann og Áslaug þurftu líka að skúra í Aðföngum, Áslaug og Hafdís að fara til Benna að gera íbúðina hæfa til myndatöku fyrir sölumeðferð, Bjarni að fara á körfuboltaæfingu og ég í vinnuna fyrir kl. sex, svo það veitti ekki af að hafa tvo bíla í takinu, þegar leið að kvöldi.

Fjölskyldublogg er eiginlega ný blogghugsun sem ég er að hugsa um að einbeita mér að. Þá meina ég það að bloggið er bara fyrir mig og mína fjölskyldu og ef einhverjir aðrir rekast hingað inn þá er það bara þeirra mál hvort þeir skilja mikið eða lítið í því sem hér er sagt frá. Ég er að hugsa um að gefa öðrum blogghugsunum frí í bili að minnsta kosti. Auðvitað getur það verið að ég finni hvöt hjá mér einhverntíma í framtíðinni að blogga um eitthvað annað og þá geri ég það náttúrlega. Aðrir í fjölskyldunni geta að sjálfsögðu fengið að blogga hér ef þá langar til og svo er kommentakerfið náttúrlega alltaf opið.

Semsagt, hér er ekki um neina samkeppni við opinbera eða hálfopinbera fjölmiðla að ræða. Það sem hér er sagt er að mestu leyti útúr kú og á að vera það. Heimurinn hefur sinn gang hvort sem ég æsi mig eitthvað yfir því eða ekki.

Í kvöld sá ég í fyrsta skipti eintak af blaðinu "Sagan öll" og það er greinilegt bæði á kápumynd og allri uppsetningu á blaðinu að því er alfarið beint gegn Lifandi Vísindum. Mér finnst Illugi Jökulsson leggjast frekar lágt með því að taka að sér að vera ritstjóri þessa blaðs.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband