Nítjánda blogg

Nítjánda blogg

og þessvegna er líklega það títjánda næst, eða hvað? Ég man að mér fannst það góð skýring á nafngiftinni 19:19 á sínum tíma að aðstandendur þáttarins kynni ekki að telja með raðtöluendingum nema upp að nítján. Raðtöluendingar eru annars dálítil ólíkindatól og sumir sem forðast þær. T.d. er ekki öllum ljóst hvernig háar tölur taka raðtöluendingum. Þarf ekki einu sinni sérlega háar tölur til. 120. og 121. hafa t.d. ekki samskonar raðtöluendingu. En nóg um það.

Ekki eru þessir örfáu lesendur mínir mjög duglegir við lesturinn frekar en ég við skriftirnar. En þetta er allt að koma. Sígandi lukka er best. Eiginlega veit ég ekkert hvað ég á að blogga um. Líklega leggst mér þó eitthvað til. Ef ekki get ég bara hætt við að gera þetta að bloggfærslu. Ég er nefnilega svo séður að ég er búinn að venja mig á að blogga í Word-skjal og peista það svo á bloggið eftirá.

Eins og athugulir lesendur þessa bloggs taka eflaust eftir þá er ekki að sjá að ég eigi neina bloggvini. (Og vonandi ekki neina bloggóvini heldur) Ég hef ekki beðið neinn um að gerast bloggvinur minn og enginn hefur haft samband við mig með hliðstæða beiðni. Enda er það varla  von því þetta er nú eiginlega hálfgert leyniblogg. Mér er svosem sama um bloggvinina, gæti best trúað að það yrði svolítið leiðigjarnt til lengdar að hafa mikið af þeim. Hins vegar eru athugasemdirnar vel þegnar og ég hef fjölyrt nokkuð um þær fáu slíkar sem ég hef fengið og þær mættu vel vera fleiri. Það sakar meira  að segja ekki að segja þeim sem hugsanlega lesa þetta að það er ágætis leið að sníkjublogga  pínulítið með því að skrifa  í athugasemdakerfin. Það er bæði létt og einfalt og ég stundaði það svolítið áður en ég byrjaði sjálfur að blogga. Nú tími ég því varla en geri það samt, en ekki í þeim tilgangi sem sumir gera, það er að vekja athygli á sínu eigin bloggi.

Í nótt sem leið (þ.e. aðfaranótt miðvikudags) var á tímabili mögnuð norðurljósadýrð hér yfir höfuðborginni. Það er ekki oft sem maður sér slíkt hér og kannski er það mest vegna þeirrar gríðarlegu ljósmengunar sem hér er. Fyrir nokkrum árum keypti Benni sér lítinn stjörnukíki og þá kom í ljós að almennilegt myrkur er erfitt  að finna í Reykjavík og nágrenni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband