21.2.2014 | 09:50
2125 - Pussy riot
Að vera með lambhúshettu á hausnum (gjarnan öfuga) og í litfögrum sokkabuxum í Rússlandi er eins og að veifa rauðri dulu framan í óðan tudda. Mér finnst þetta ekkert fyndið heldur bara sorglegt. Ólympíuleikarnir í Sochi eru þegar orðnir Rússum til skammar þó framkvæmdin hafi á flestan hátt tekist vel. Ástandið í Ukraínu er grátlegt. Kannski fer það samt batnandi. Innviðir ríkisins eru þó ákaflega feysknir. Þetta stóra land sem ætti að vera Evrópu allri til fyrirmyndar er nánast ónýtt vegna þjónkunar við Kremlarvaldið nær alla tuttugustu öldina. Lýðræðishefð er þar engin og fólk flýr þennan sælureit (sem ætti að vera) unnvörpum og hefur lengi gert. Jafnvel Ísland er skárra.
Þar er þó tíma alþingis, sem í raun stjórnar landinu, eytt í fánýtt karp um trúarleg atriði (ESB). Rætt er um að draga umsóknina um aðild að ESB til baka. Það held ég að komist aldrei til framkvæmda. Að láta það mál danka án þess að gera nokkuð held ég að sé það sem heldur núverandi ríkisstjórn saman. Þó utanríkisráðherra og Vigdís Hauksdóttir vilji helst hætta þessu þá hef ég enga trú á að það dugi ekki til. Af hverju er ekki tíminn notaður til að gera eitthvað af viti? Kannski er slíkt aðallega gert í nefndum, og haldið vandlega leyndu fyrir almenningi. Flókin og umdeild mál eru afgreidd í skyndingu og tímahraki. Við þá vinnu er mörg vitleysan gerð. Löngum tíma er svo varið í leiðréttingar og lagfæringar. Löggjafar- og fjárveitingavaldið (alþingi) treystir alfarið á framkvæmdavaldið (ríkisstjórnina) til að haga sér skynsamlega. Nei, pólitíkin er mannskemmandi og flokkakerfið á Íslandi ónýtt. Tölum um eitthvað annað.
Ægir Þór Eysteinsson skrifar grein í nýjasta Kjarnann um misrétti sem víða tíðkast í garð kvenna. Lokaorð has eru þessi: Því það eina sem við eigum ekki sameiginlegt í raun er að strákar eru með typpi og stelpur eru með píku. Því miður er þetta ekki alveg rétt hjá honum. Munurinn er meiri. Hvoru kyninu hann er í hag er ómögulegt að segja og fer eftir því hvað um er rætt. Það getur vel verið að við Íslendingar séum þjóða fremstir í því sem kalla má jafnrétti kynjanna. Samt er það svo að tækifærin eru mjög mismunandi og er það greinilega konum í óhag. Því er engan vegin hægt að mótmæla. Munurinn fer þó minnkandi og sennilega erum við á réttri leið. Ágreiningur um það atriði finnst mér þó það eina sem réttlætanlegt er í þessu sambandi. Auðvitað finnst sumum hægt miða en öðrum hratt. Ég man vel eftir þeim tíma að konur fengu ekki einu sinni sama kaup fyrir sömu vinnu. Álitið á því hve hratt ferlið ætti að vera kann að vera kynbundinn. Þeim karlmönnum sem finnst á sig hallað að þessu leyti í núverandi kerfi tel ég að þjáist mjög af minnimáttarkennd.
Veit þessi kynslóð sem nú er að vaxa úr grasi eitthvað meira en þær kynslóðir sem á undan hafa komið? Hún hefur a.m.k. betri aðgang að öllu mögulegu, lærir meira og stritar minna. Ég vil trúa því að mannkynið sé á framfarabraut. Líklega er svo þegar á heildina er litið. Það er samt með ólíkindum hve framfarirnar eru miklar á þeim sviðum sem helst ættu engar framfarir að vera. Endimörk vaxtarins var einu sinni talað um og nú er því haldið fram að við séum að drukkna í eigin skít eða ganga af gufuhvolfinu dauðu á næstu áratugum. Flest vandamál sem mannkynið hefur hingað til glímt við hingað til hafa þó að mestu leyti endað farsællega og heimsendaspámennirnir hvað eftir annað reynst hafa rangt fyrir sér. Vonandi verður svo áfram. Þeir eru samt nauðsynlegir, því ekkert kemur í staðinn fyrir það að vera vel á verði.
Í dag er föstudagur og á margan hátt er það besti dagur vikunnar. Svoleiðis var það a.m.k. þegar hægt var að taka sér frí um helgar. Hjá mörgum er það svo enn. Þegar maður hættir að vinna verða allir dagar eins, en þó eru heimsóknir tíðari um helgar og þær eru það sem við gamla fólkið lifum fyrir.
Auk þess legg ég til að Ásgautsstaðir við Stokkseyri verði friðaðir og máefni jarðarinnar komist á dagskrá hjá Árborg eða réttara sagt Selfosshreppi.
Athugasemdir
Þetta finnst mér eikennileg afstaða til Pussy Riot. Það er ekki við þær að sakast heldur tuddana.
Sigurður Þór Guðjónsson, 21.2.2014 kl. 13:46
Hvað áttu við með "einkennileg afstaða"? Getur ekki verið að þú sért að gera ráð fyrir einhverju sem bara á sér stað í þínu hugskoti. Ég hef séð myndir af þeim í einhverri kirkju, einnig á tveimur stöðum eða svo utanhúss og klæðnaður þeirra kemur mér svona fyrir sjónir. Ef þú lest einhverja "einkennilega afstöðu" útúr því þá er alveg fyrir hendi að það sé þinn vandamál frekar en mitt.
Sæmundur Bjarnason, 21.2.2014 kl. 15:14
Mér finnst að með þeim orðum að þær séu eins og að æsa upp tudda og það sé bara sorglegt vera fremur litilsvirðandi út í þær og ekki velviljað. Fremur litilsvirðingarblandið eins og þú sért að taka stöðu með tuddunm og býsnast yfir þeim sem eru að mótmæla og það út frá klæðnaði þeirra. Það finnst mér einkennilegt. En mér finnst líka einkennilegt hvað þú bregst harkalega við þessari athugasemd.
Sigurður Þór Guðjónsson, 21.2.2014 kl. 17:01
Þessar stelpur eru ekki að reyna að vera fyndnar. Þær hafa fórnað miklu fyrir málstað sinn og tekist að einhverju leyti að vekja athygli umheimsins á honum og mér finnst óþarfi að gera lítið úr þeim eins og þær séu bara að veifa rauðri dulu fyrir óða tudda. Eins og þær séu einhverjar gálur sem með klæðnaði sínum veki upp ofbeldi.
Sigurður Þór Guðjónsson, 21.2.2014 kl. 17:07
Mér finnst upphafleg athugasemd þín bæði óviðeigandi og óþörf. Ég held því fram að það sé bara í þínum huga sem ég er með orðum mínum að "sakast" eitthvað við stelpurnar.
Sæmundur Bjarnason, 21.2.2014 kl. 21:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.