2115 - Verðtrygging eða ekki verðtrygging

Ég get ekki annað en hugsað svolítið um ESB. Auðvitað var það ógnarleg vitleysa hjá vinstri grænum að samþykkja að sækja um inngöngu ef þeir voru algerlega á móti því. Með tímanum verður það langstærsta málið sem þarf að semja um við hver stjórnarskipti hvort sækja skuli um inngöngu eða ekki. Á margan hátt hlýtur öfgavinstrifólk og það sem telja má til öfgahægri að vera sammála um andstöðuna við inngöngu. (Þó ekki væri nema vegna þjóðrembu) Þó slík andstaða sé í meirihluta núna og hafi verið um nokkurt sinn, er ekki víst að svo verði alltaf. Kannski verður innganga í ESB framsókn að þakka að lokum. Um miðjumoð verður þá að ræða en það er það eina sem getur bjargað okkur. Þó utanríkisráðherra og kannski forsætisráherra líka vilji helst að þetta mál hverfi og hætti að vera til, þá er ólíklegt að þeim verði að þeirri ósk sinni.

Verðtrygging eða ekki verðtrygging, virkjun eða ekki virkjun, Greenvichtími eða ekki Greenvichtími. Allt þetta og margt fleira má hugsanlega semja um eða tala sig niður á einhverja lausn á sem bæði andstæðingar og fylgjendur geta sætt sig við. Varðandi ESB-aðild er ekki neinu slíku til að dreifa. Annað hvort göngum við í Evrópusambandið eða ekki. Þetta mál er því vel fallið (eins og hermálið á sínum tíma) til að skipta þjóðinni í tvær andstæðar fylkingar. Þess vegna er þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild góð hugmynd. Verst er ef margir lýsa því yfir fyrirfram að þeir muni ekki sætta sig við niðurstöðu slíkrar atkvæðagreiðslu. Útfærslu hennar mætti hugsanlega semja um.

Ég fæ ekki betur séð en sú ríkisstjórn sem nú situr stefni að auknum ójöfnuði í þjóðfélaginu. Það er ekki þar með sagt að þeir sem hana styðja vilji ekki gera vel við okkar minnstu bræður. Það er bara þannig að hvernig sem horft er á málin er veruleg hætta á því að ójöfnuður aukist sé þeirra stefnu fylgt. Sú stefna á sér samt verulegar málsbætur því næsta ríkisstjórn á undan, sem kennd var við vinstri, jók hann ekki heldur og vinstri stjórnir ganga oft hættulega langt í ríkisafskiftum allskonar. Auðvitað glímdi sú ríkisstjórn sem var við mikinn vanda sem orsakaðist af bankahruninu 2008, en hefði samt átt að gera betur.

Núverandi ríkisstjórn reynir með ýmsu móti að auka fjárfestingu í landinu og auka hraðann á „hjólum atvinnulífsins“. Takist henni ekki fljótlega að ná marktækum árangri í því efni á hún sér engar málsbætur og ætti að fara frá.

Um daginn varð ég alveg steinhissa. Hildur Lilliendahl Viggósdóttir bauð mér bloggvináttu. Sennilega hefur það nú verið alveg óvart hjá henni. En hvað um það ég ákvað að samþykkja það tilboð og fá að auki tilkynningar um innleggin hennar og sennilega gera það fleiri því mig minnir að hún sé með yfir 3500 fésbókarvini, sem þýðir að hún hefur sennilega enga yfirsýn yfir hverjir það eru. Ég fékk svo fljólega tilvísun í grein eftir hana sem hún kallar „Kvalarar“ og hefur svo birst á Knúz.is og margir mælt með.

Ekki neita ég því að þessi grein er áhrifamikil og vel skrifuð. Get samt ekki gert að því (ég er svo mikið karlrembusvín) að mér finnst hún öðrum þræði vera hugsuð sem réttlæting á því (að sumra áliti a.m.k.) vanhugsaða verki sem hún vann ásamt með annarri konu með því að kæra ráðningu JBH til Háskóla Íslands. Það mál kom aftur uppá yfirborðið einmitt um daginn og sýnir ljóslega vanmátt núverandi háskólarektors. Grein Hildar er líka hugsanlega svolítið ýkt og færð í stílinn þó ég viti auðvitað ekkert um það.

Skilst að fljótlega verði haldinn fundur um Ásgautsstaðamálið, svo ég ætla að reyna að stilla mig um að hallmæla Sýslumanninum á Selfossi og bæjarstjórn Árborgar. Þeir sem vilja fræðast meira um þetta mál geta gert það hér: http://saemi7.blog.is/blog/saemi7/day/2013/12/10/ eða með samtölum við málsaðila. Fjölmiðlar hafa engan áhuga á þessu máli og er það á vissan hátt skaði því margt í sambandi við það snertir einmitt samskipti þéttbýlis við strjálbýli og embættismanna við almenning.

Þetta mál er að afar litlu leyti sambærilegt við Vatnsendamálið svokallaða. Greiðslur þær sem Kópavogsbær innti af hendi til Þorsteins Hjaltested voru þó greiddar þinglýstum eiganda jarðarinnar. Ekki var heldur um eignarnám að ræða. Þar að auki eru peningaupphæðir allar miklu lægri í Ásgautsstaðamálinu.

IMG 5880Snjór á sólarströnd? 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ágætar pælingar hjá þér, Sæmundur. Ég á nú ekki von á að innganga okkar í Evrópusambandið verði framsókn að þakka nema þá með því móti, að allur almenningur snúist á sveif með inngöngu vegna andstöðu framsóknar við hana! Hvað varðar Hildi Lilliendal þá fannst mér grein hennar, "Kvalarar" sem þú minnist á, vera athygliverð og fráleitt hægt að tala um að hún sé öfgakennd, því miður. Suma daga er það þannig að ég fyrirverð mig fyrir að vera fæddur með typpi í klofinu eins og margir kynbræður okkar haga sér. Það sem veldur mér mestum ugg er hvernig hugsunarháttur virðist vera að þróast meðal yngri karlmanna, þ.e. frá 14 ára til þrítugs. Líklega á klámvæðingin illræmda þar drýgstan hlut. Svo er það einfaldlega þannig í svona "strákaklimaxi", að þar ala menn hvern annan upp í því að sá sem lengst gengur í að niðurlægja kvenkynið með orðum og athöfnum, er yfirleitt sá sem er fyrirmyndin í allri framgöngu hópsins. Þetta einkennir sér í lagi hópíþróttirnar og þar er beinlínis byggt á að byggja upp hugarheim ofbeldis, eineltis og kvennakúgunar. Þessir hópar hafa líka komist upp með að beita nánast allt samfélagið ofbeldi þegar þeir koma sínu fram, hvort sem það varðar dagskrár sjónvarpsstöðva eða eitthvað annað. Þeir munu líka mótmæla þessu innleggi ef þeir lesa það, sem áróðri og lygi.

Ellismellur 1.2.2014 kl. 09:30

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Pólitískt séð líkar mér ágætlega margt sem JBH hefur sagt. Hann hefur goldið á margan hátt galla sinna og mér finnst HÍ vera að hygla honum með því að semja um skaðabætur til hans. Þekki "íþrottaandann" sem þú talar um lítið, en get samt fallist á flest það sem þú skrifar. Þetta bakslag sem þú talar um getur vel verið staðreynd. Leiðrétting á þessum hlutum hefur verið stöðug síðustu áratugina og ég get vel skilið að mörgum þyki hægt hafa gengið.

Sæmundur Bjarnason, 1.2.2014 kl. 12:12

3 identicon

Þar sem aðildarumsókn Alþingis hefur ekki verið dregin til baka en viðræðum aðeins slegið á frest þá þarf ekki að semja um að sækja um aðild. Næstu stjórn nægir að hefja viðræður að nýju. Í ljósi þess er loforð Framsóknar um þjóðaratkvæðagreiðslu áður en haldið verði áfram viðræðum og tregða þeirra til að halda þjóðaratkvæðagreiðslu dæmi um skort á framsýni eða ævintýraleg bjartsýni. "Fíkniefnalaust Ísland árið 2000" var þetta ekki eitt af kosningaloforðum Framsóknar seint á síðustu öld? Það er víst eðli kosningaloforða að falla flest í gleymsku frekar en að vera efnd.

Hábeinn 2.2.2014 kl. 02:08

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk Hábeinn. Þetta er alveg hárrétt hjá þér. Þeir sem eru á Snarrótinni hafa að mörgu leyti heilbrigðastar skoðanir á fíkniefnamálum. A.m.k. hafa þær aðferðir sem mest er beitt á Vesturlöndum brugðist gersamlega.

Sæmundur Bjarnason, 3.2.2014 kl. 11:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband